140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að vitna í orð sjómanna sjálfra. Þetta kom fram á mbl.is í kvöld og ég hvet þingmanninn til þess að kynna sér þá frétt. Það er frétt um stóran fund sem haldinn var í Vestmannaeyjum með tæplega 500 manns sem ályktaði sérstaklega gegn þessu. Það sem ég hef heyrt frá fólki sem var á þeim fundi er að það er mikill kvíði og ótti varðandi framtíðina ef þessi frumvörp ná fram að ganga.

Ég ætla að ítreka það sem ég benti á í máli mínu hvað varðar til dæmis áhrifin á Vesturbyggð, af því að talað var um að leigutekjurnar ættu að skila sér að einhverju leyti til baka til byggðarlaganna. Þeir sögðu einmitt: Það munu 300 milljónir flytjast frá Vesturbyggð til Reykjavíkur. Þeir fá til baka 3–12 milljónir. Ef einhver þingmaður ætti að þekkja það hversu erfitt getur verið að fá bara eitt starf í Vesturbyggð þá er það hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir.