140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var að sjálfsögðu löng ræða en í henni las ég meðal annars álitsgerðina sem Vífill Karlsson skilaði inn til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann veltir því fyrir sér hvernig best væri að ráðstafa veiðigjaldinu. Þá benti hann á að í mjög mörgum af þessum byggðarlögum sem eru þó núna farin að finna fyrir einhverjum hagvexti, staðan er náttúrlega betri, voru mörg mögur ár þar á undan. Það þýðir að mörg sveitarfélög hafa safnað miklum skuldum. Til dæmis skuldar Vestmannaeyjabær mjög mikið í lífeyrissjóðsgreiðslur og annað og þetta held ég að gildi um mjög margar af sjávarbyggðunum. Þær börðust gegn neikvæðri íbúaþróun og ég held að hv. þingmaður þekki það mjög vel.

Þetta er það sem hann benti á. Aðaláhersluatriðið í minni ræðu var það að þrátt fyrir breytingarnar í núverandi frumvarpi (Forseti hringir.) sem eru svo sannarlega til bóta, ég skal alveg viðurkenna það, það er búið að lækka gjaldið, er hvergi tryggt að þessir peningar (Forseti hringir.) skili sér aftur til sjávarbyggðanna.