140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ítarlega ræðu og þætti vænt um ef hv. þingmenn gætu gefið þingmanninum hljóð svo ég geti komið spurningum mínum á framfæri.

Sá skattur sem þetta veiðigjald er, landsbyggðarskattur, hefur verið metinn af sérfræðingum okkar, eins og fram hefur komið í störfum nefndarinnar, sem allt of hár og langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins. Að mínu mati mun þessi skattheimta hafa þær afleiðingar til lengri tíma að hagur ríkissjóðs mun ekki vænkast, heldur þvert á móti. Fyrirtækin munu þurfa að hagræða enn frekar og munu ekki skila meiri arði. Til að fyrirtækin lifi þetta af verður fólki sagt upp störfum. Er hv. þingmaður sammála mér í þessu mati, þ.e. að störfum muni fækka í sjávarútvegi hjá þeim ágætu fyrirtækjum okkar sem eru starfandi? Ég gat ekki heyrt annað af andsvörum hv. stjórnarliða í salnum en að þau héldu að þetta mundi ekki hafa nokkur einustu áhrif á (Forseti hringir.) starfsmenn þessara fyrirtækja.