140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel réttast að svara þessari spurningu með því að endurtaka það sem ég sagði í lokaorðum mínum þar sem ég vitnaði í þáverandi hv. þingmann Steingrím J. Sigfússon sem var þá þingmaður Alþýðubandalagsins.

Hann sagði í viðtali við Útveginn, með leyfi forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“