140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu stendur í raun á gömlum merg og hefur verið deilumál á meðal okkar Íslendinga um langa tíð. Þessi deila okkar um fiskimiðin og hverjir hafi rétt á því að sækja sjóinn, hverjir hafi nýtingarrétt, er í raun og veru eldri deila, deila sem hefur verið á miðju stjórnmálaheimspeki og stjórnmáladeilna Evrópumanna og Norður-Ameríkumanna í langan tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða eitt af grundvallaratriðum stjórnmálanna, þ.e. tilurð og tilvist eignarréttarins og hvernig menn svara þeirri spurningu hvernig eignarrétturinn verður til. Þetta er því ein af grundvallarspurningunum sem við stjórnmálamenn þurfum að fást við. Um margt er þetta holl áminning. Það er hollt fyrir okkur að fara í gegnum slíka umræðu og skerpa þar með á þeim grundvallarsjónarmiðum sem að baki liggja.

Virðulegi forseti. Ég byggi skoðun mína á þessu stóra máli á eftirfarandi:

Ég er sammála í grunninn þeirri hugsun sem heimspekingurinn John Locke setti fram á sínum tíma að eignarrétturinn ætti upphaf sitt í því að menn lögðu vinnu sína í það að nýta náttúruna og af því myndaðist einhvers konar hefðarréttur sem takmarkaði þar með aðgengi annarra að sömu auðlind.

Að baki þessu eru ýmis rök. John Locke setti líka ýmis skilyrði fyrir myndun eignarréttarins. Eitt er það til dæmis að enginn geti og enginn megi safna svo miklu af gæðum náttúrunnar að þau skemmist í meðförum viðkomandi. Frægt er dæmið um eplin, að enginn geti tínt svo mörg epli og geymt þannig að þau skemmist og nýtist þar með ekki öðrum.

Nútímahagkerfi hafa leyst þetta með upptöku peninga sem gjaldmiðils sem kemur í raun og veru í staðinn fyrir uppsöfnun verðmæta, með því að safna saman hlutum eins og eplum, timbri eða öðru sem nýtist síðan ekki fyrir einn einstakling, heldur er möguleiki á að skipta því út. Og með því að peningar komu til sögunnar verða þau skipti auðveldari.

Það sem ég vil fyrst vekja athygli á og sem ég tel að sé óskaplega mikilvægt í þessari umræðu er hið svokallaða síðara skilyrði Locke sem snýr að því að það geti enginn eignast meira en svo að ekki sé nóg fyrir aðra sem koma síðar til að nýta sér sína möguleika. Mörgum hefur þótt þetta stangast á, að hægt sé að mynda eignarrétt með því að leggja vinnu sína í náttúruauðlind en um leið verði að vera nóg fyrir aðra sem síðar koma, sérstaklega þar sem um er að ræða takmarkaðar náttúruauðlindir, t.d. námur, skóga, fiskstofna og annað slíkt.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta skilyrði eigi að túlka á eftirfarandi hátt:

Eignarrétturinn sem slíkur myndar auð. Hann myndar auð vegna þess að menn finna leiðir í skjóli eignarréttarins til að lækka tilkostnað við auðlindanýtinguna annars vegar og hins vegar til að auka verðmæti auðlindarinnar með tækninýjungum, með því að finna kaupendur að vörunni sem geta greitt hærra verð o.s.frv. Með því að til verður auður er fjárfest í honum vegna þess að við búum einmitt í peningahagkerfi þar sem er auðvelt fyrir þá sem taka þátt í efnahagsstarfseminni að færa auð úr einni atvinnugrein yfir í aðra og með því myndast um leið tækifæri fyrir aðra, því að auður er ávísun á fjárfestingu og fjárfesting er ávísun á tækifæri.

Samfélög sem byggja á séreignarrétti og nýta náttúruauðlindir þannig mynda auð sem síðan dreifist um samfélagið í gegnum fjárfestingar þeirra sem starfa í þeirri grein og mynda þar með tækifæri fyrir aðra til að nýta. Um þetta má nefna fjölmörg dæmi.

Sú kynslóð sem ég tilheyri stendur frammi fyrir allt öðru valkostamengi ef svo má að orði komast, virðulegi forseti, heldur en til dæmis kynslóð foreldra minna eða afa og ömmu, vegna þess að auður hefur myndast. Það er ástæðan. Auður hefur safnast upp sem hefur gert okkur kleift að reka til dæmis menntastofnanir myndarlega og okkur hefur tekist að fjárfesta auð sem verður til í sjávarútvegi og landbúnaði yfir í nýjar greinar sem hafa síðan skapað tækifæri fyrir fólk af minni kynslóð. Slík tækifæri voru útilokuð og hefðu aldrei boðist Íslendingum fyrir 50, 60 árum.

Önnur leið til að líta á þetta er sú að spyrja sig hvort fleiri tækifæri hefðu verið fólgin í því að koma til Bandaríkjanna Norður-Ameríku árið 1700, þegar mikið landnæði var þar til staðar og menn gátu auðveldlega eignast land, eða koma til þess sama ríkis nú á tímum. Svarið er einfalt. Vegna auðmyndunarinnar, vegna þess að auðurinn hefur verið fjárfestur og þar með tækifæri búin til, eru margfalt, margfalt fleiri tækifæri í boði núna en áður, þrátt fyrir að miklu minni möguleikar séu fyrir menn til dæmis að eignast land í því stóra og mikla ríki.

Þess vegna er ég mjög á móti þeirri skoðun að það sé eitthvað í eðli sínu rangt við það að umframauður í sjávarútvegi sé tekinn og hann fjárfestur út fyrir greinina. Ég tel einmitt að öll hagsaga Vesturlanda sýni það skýrt að það er algjörlega nauðsynlegt skilyrði og reyndar grundvöllur þess að auðlegð þjóða vaxi að umframauður í einni auðlind geti leitað í þá átt að nýta aðrar auðlindir og búið til önnur tækifæri. Enda sér það hver maður hversu ólánlegt það væri ef við tækjum þá ákvörðun að gera það að einhvers konar skyldu að allur auður sem gæti myndast í tiltekinni atvinnugrein, t.d. í sjávarútvegi, skyldi fjárfestur aftur í sömu grein. Augljóslega yrði, ef auðmyndun væri til staðar og hún væri næg, um offjárfestingu að ræða í greininni, í það minnsta yrði hætta á því, og sóun á auðlindinni. Reyndar var það þannig að það fyrirkomulag sem við höfðum um fiskveiðar á Íslandi leiddi nákvæmlega til þess, með því að hafa opinn aðgang, með því að hafa engin eignarréttindi á sókninni, hver sem var gat hafið fiskveiðar, þá gerðist akkúrat það. Í staðinn fyrir að auðurinn leitaði út úr greininni til fjárfestingar annars staðar til að skapa tækifæri, leitaði allur auðurinn inn á við og honum var sóað í of mikilli sókn. Vissulega voru fleiri tækifæri fyrir þá sem vildu fara inn í greinina en auðmyndunin var minni. Það er akkúrat auðmyndunin sem skiptir mestu máli. Það er myndun kapítalsins.

Síðan er það mjög stór spurning hverjum sé best treystandi til þess að fjárfesta slíkan umframauð. Um það er önnur stór deila í mannkynssögunni, hvort betra sé að ríkisvaldið og stjórnmálamenn fari höndum þar um eða hvort þeir sem eru á markaði og lúta þeim lögmálum sem því fylgir séu betur til þess fallnir.

Ég er þeirrar skoðunar að betra sé að skilja það eftir í höndum einstaklinga að fjárfesta, sem eru þá settir undir þann aga sem markaðnum fylgir, frekar en stjórnmálamönnum. Ég tel að hægt sé að færa fyrir því mjög veigamikil rök og fjölmörg dæmi.

Það er svolítið þannig virðist mér, virðulegi forseti, að menn hafi að nokkru gleymt þeirri tíð þegar þurfti að taka með reglubundnum hætti fjármuni úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til að hlaupa undir bagga með útgerðarfyrirtækjum. Þegar þurfti að fella gengi íslensku krónunnar alveg sérstaklega til að koma til móts við erfiða stöðu í sjávarútvegi. Þegar ákvörðun var tekin um að taka upp aflamarkskerfið byggði það á þeirri forsendu, fyrst og síðast, að það væru of margar útgerðir, of mörg skip og of margar vinnslustöðvar miðað við þann afla sem í boði var.

Velferð íslensku þjóðarinnar byggði á því að það tækist að leysa þann vanda þannig að við gætum fengið notið þess auðs sem svo vissulega er fólginn í þessari miklu auðlind okkar.

Þess vegna er alveg furðulegt þegar þeim rökum er beitt — menn segja hér í umræðu að þeir skilji ekki þær áhyggjur sem menn hafi af þessu öllu saman því það sé áfram fiskur í sjónum og hann verði veiddur áfram. Það er alveg rétt. Svo lengi sem menn ofveiða ekki stofnana verður fiskurinn til staðar en það skiptir öllu máli hvaða stjórnkerfi við höfum um slíkar veiðar. Við, Íslendingar af öllum þjóðum, ættum að þekkja það hvernig fer ef stjórnkerfið er ekki skynsamlegt, ef það byggir ekki á þeim ákveðnu meginprinsippum sem ég hef lýst, þ.e. að einhvers konar eignarréttur sé á sóknarréttinum sem geri það að verkum að þeir sem með þann rétt fara leitist við að lágmarka sóknarkostnað sinn og hámarka verðmæti afurðanna.

Það fyrirkomulag þýðir reyndar líka að menn fjárfesta með allt öðrum hætti og til lengri tíma en þegar menn voru t.d. við kappveiðar, eins og var hér á þeim tíma sem við vorum með skrapdagakerfið og þar á undan. Menn eru tilbúnir að fjárfesta í tækni sem bæði lækkar framleiðslukostnaðinn og eykur verðmæti þeirra afurða sem unnar eru. Þessi hugsun, langtímahugsun, er svo mikilvæg. Allar breytingar sem gerðar eru til þess að draga úr henni og/eða óhófleg skattlagning sem lögð er á greinina dregur úr allri slíkri hugsun og þá um leið minnkar auðmyndun á Íslandi.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér má segja að auðlindanýtingin snúist ekki um störf eða fjölda starfa. Hún snýst enn og aftur um að mynda auð. Ef málið snerist bara um fjölda starfa væri auðvelt að fjölga störfum til dæmis með því að taka upp kerfi, eins og reyndar hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi, þegar tekið var upp kerfi svokallaðra strandveiða þar sem brotið er einmitt gegn allri þessari hugsun, þar sem farið er á skjön við þá meginhugsun að skylda okkar sé sú að hámarka afraksturinn af auðlindinni, að hámarka velferðar þjóðarinnar af henni.

Eitt sinn benti íslenskur hagfræðingur á það að vandamál íslensku þjóðarinnar hafi ekki verið skortur á vinnu, og reyndar hafi íslenskur almenningur verið ein vinnupíndasta þjóð Evrópu, en menn báru bara svo lítið úr býtum, vegna þess að það fyrirkomulag sem við höfðum um atvinnustarfsemi okkar skilaði ekki nægum árangri. Í sjálfu sér og um margt er það Íslandssagan í hnotskurn.

En það eru ekki bara, virðulegi forseti, þeir þættir sem snúa að auðmynduninni sjálfri sem skipta máli, það er líka spurningin um samhengið á milli eignarréttarins annars vegar og hins vegar þess stjórnfyrirkomulags sem við höfum. Þar er sagan okkur ágæt kennileiti og veitir mikla leiðsögn.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að rekja tvö dæmi um mikilvægi þess hvernig komið er fyrir eignarrétti á auðlindum.

Í Bretlandi varð þróunin sú, vegna þess að eignarréttur á landi var til staðar, að sterkt mótvægi myndaðist við konungsvaldið því að á grundvelli eignarréttarins á landi og þeirrar rentu sem þar með myndaðist var hægt að veita ákveðna mótspyrnu gegn valdinu og þar sem — það skipti gríðarlega miklu máli — konungurinn átti ekki allt land varð hann að beita sköttum. Og til að ná fram sköttum þurfti hann samþykki þeirra sem skattlagðir voru. Er þar með kominn grundvöllurinn að breska þingræðinu. Það er akkúrat þetta valdajafnvægi sem fylgir því að ríkið, einvaldur eða stjórnmálamenn, hafi ekki allar eignir á sínu forræði, heldur sé þeim dreift um samfélagið og þar með verði til slíkt mótvægi.

Það er mjög mikilvæg lexía sem úr þessari þróun má lesa. Reyndar er það alveg sérstaklega áhugavert að bera þá þróun saman við þróunina í Rússlandi á sama tíma vegna þess að þar var sá grundvallarmunur, sem helgaðist meðal annars af því hversu mikil gnótt var þar af landi, að litið var svo á að enginn einstaklingur gæti átt land. Landið væri í raun og veru eign guðs, verðmætið væri fólgið í mannafla, vinnumönnunum. Síðan varð þróunin sú að alvaldarnir í Rússlandi, fulltrúar guðs á jörðunni, fóru í rauninni með allan þann eignarrétt og allir voru leiguliðar þeirra. Það þýddi auðvitað að valdahlutföllin í því samfélagi voru öll önnur, þegar allt efnahagslegt vald var hjá fáum eða jafnvel einum aðila, borið saman við það sem var til dæmis á Englandi þar sem valdinu var dreift vegna þess að eignarréttinum var dreift og hann varinn.

Lexían sem af þessu má draga án þess að farið sé út í þessi mál miklu dýpra er sú að lýðræði og þingræði fer saman við eignarréttinn. Í raun og veru er tómt mál að tala um lýðræði án þess að það sé byggt á eignarrétti og réttarríki, sá eignarréttur sé varinn af réttarríki og réttindi manna séu varin af réttarríki.

Þess vegna skiptir það líka máli í okkar samfélagi að við höfum það fyrirkomulag hvað varðar náttúruauðlindir að við reynum sem mest við getum að hafa þessa hluti í dreifðri eign frekar en að þetta sitji allt í höndum stjórnmálamanna.

Virðulegi forseti. Þess vegna fer saman velmegun, lýðræði og eignarréttur. Velmegunin og lýðræðið grundvallast á eignarréttinum. Hví skyldi það vera svo að þekkt er að fólk flýr frá Mexíkó til Bandaríkjanna en minna er um að fólk flýi frá Bandaríkjunum til Mexíkós, nema það sé á flótta frá yfirvöldum í því ríki, það er svona einna helst. Þó er það staðreynd að olíulindirnar í Mexíkó, sem eru umtalsvert miklar, eru í eign hins opinbera. Það er almannaeignarhald á olíulindunum í því landi. Í Bandaríkjunum er því öðruvísi farið. Þar er um að ræða einkaeignarrétt. Menn virðast sem sagt flýja sameignina á olíulindunum og yfir í land sem byggir á séreign og einkaeign á auðlindum. Hvers vegna, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að tækifærin eru svo miklu fleiri í samfélögum sem nýta auðlindir sínar á grundvelli séreignarréttar. Auðmyndunin er meiri, þar með er fjárfestingin meiri, þar með eru tækifærin fleiri, og það sem meira er, þau eru fjölbreyttari. Meiri líkur eru á því að hver og einn finni hæfileikum sínum og getu farveg í samfélögum sem svona eru uppbyggð.

Við hljótum þess vegna að spyrja okkur hversu skynsamlegt það er í sjálfu sér að leggja upp með þá hugsun að ríkisvaldið eigi að eiga allar náttúruauðlindir og síðan geti einstaklingarnir leigt þær. Það hlýtur að vekja menn til umhugsunar hversu skynsamlegt það fyrirkomulag er.

Virðulegi forseti. Ég hef úr þessum ræðustól áður rakið þær skoðanir sem ég hef á hugtakinu þjóðareign, hversu misvísandi og afvegaleiðandi það er í allri opinberri umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að það hugtak þýði bara eitt; ríkiseign. Ég held að minna fylgi yrði við þær hugmyndir um að auðlindir yrðu settar í þjóðareign ef orðið þjóðareign væri tekið út og ríkiseign sett í staðinn, því að þá blasir nákvæmlega við hver hin raunverulega hugsun er.

Virðulegi forseti. Ég er þess vegna, og hef alltaf verið, mjög á móti gjaldtöku á sjávarútveginn, á þá auðlind, umfram þá gjaldtöku sem felst annars vegar í því að taka gjald fyrir þá þjónustu sem atvinnugreinin fær og er unnin fyrir atvinnugreinina af hálfu ríkisins, t.d. hafrannsóknir og annað slíkt. Síðan á að innheimta gjald af greininni með almennri skattheimtu. Það hefur verið skoðun mín um langa hríð. Um þetta hef ég skrifað fjölmargar greinar og hef lýst þeirri skoðun minni víða.

Ég álít að sú fullyrðing sem sett hefur verið fram, að leiðin til þess að þjóðin fái notið auðlindarinnar sé sú að setja á sérstakan auðlindaskatt, sé röng. Ég tel og vísa til þeirra dæma sem ég hef tekið fyrr í ræðu minni og þeirra almennu ályktana sem hægt er að draga af því sem hér hefur verið sagt, að það sé líklegra og reyndar mun líklegra að þjóðin fái notið arðsins af auðlindinni í því formi að lágmarka kostnað við að sækja hana, hámarka tekjurnar og að þeir fjármunir sem eftir eru þegar búið er að endurfjárfesta í greininni leiði út í hagkerfið til fjárfestinga í öðrum greinum. Þannig byggist upp auður í samfélögum, þannig myndast tækifæri. Það er því útúrsnúningur og að mínu mati hættuleg blekking að halda því fram að eina leiðin fyrir þjóðina til að fá notið arðs af auðlindinni sé sú að taka upp auðlindagjald. Ég held að það sé mikil blekking.

Ég vil þá færa mig kannski aðeins nær tæknilegum atriðum þess frumvarps sem hér er um að ræða. Talað er um að leggja eigi á auðlindarentu. Hugtakið auðlindarenta hefur ákveðna meiningu og merkingu. Það eru reyndar til fleiri en ein og fleiri en tvær skilgreiningar á auðlindarentunni og hvers eðlis hún er. Ef maður vill einfalda þá umræðu eins og hægt er má nefna dæmi. Ef um tvær auðlindir er að ræða, við skulum segja tvo fiskstofna, tvenn fiskimið, ef þau fiskimið eru sótt á eins bátum með sama hætti og með sama sóknarþunga endurspeglar munurinn sem felst í afrakstri á milli þessara tveggja fiskimiða auðlindarentuna, þ.e. ef fiskimið A gefur umtalsvert meira af sér en fiskimið B, að gefnum sama sóknarþunga, þá er þar um að ræða auðlindarentu, þ.e. aukinn hagnað, sem verður til ekki vegna þess hvernig hún var sótt heldur vegna eðli fiskimiðanna, þau séu frá náttúrunnar hendi betri en viðmiðunarfiskimiðin. Í grunninn er þetta hugsunin.

En þetta er miklu flóknara því að við nýtingu auðlindanna fá þær aukið verðmæti vegna þess hvernig að nýtingunni er staðið. Þá kemur aftur að þeirri hugmynd og hugsun sem kom fram hjá John Locke að með því að menn fjárfesti tíma sinn og fjármuni í nýtingu auðlindanna til að lækka nýtingarkostnaðinn og til að auka verðmæti afurðanna myndist eignarréttur því að það aukna verðmæti varð til vegna athafna einstaklinga, vegna áhættutöku einstaklinga og hvernig einstaklingarnir vörðu tíma sínum og fjármunum.

Erum við að tala um að slík renta, slík auðmyndun, eigi líka að vera eign ríkisins? Eða er það bara rentan sem til orðin vegna þess innbyggða munar sem er á þessari auðlind miðað við aðrar auðlindir?

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að þeir sem skrifuðu þær reikniformúlur sem lagðar voru til grundvallar í því frumvarpi sem hér um ræðir virðast lítið hafa velt þessu fyrir sér. Þegar þetta er skoðað nánar kemur í ljós að um er að ræða venjulega skattlagningu sem lögð er á reksturinn og veltuna. Á þetta hafa fræðimenn á þessu sviði bent.

Ragnar Árnason, prófessor í auðlindanýtingu við Háskóla Íslands, hefur bent á það í umsögn sinni um þetta mál að svona sé þessu farið, að ekki sé um auðlindaskatt að ræða heldur venjulegan og hefðbundinn skatt. Þá kemur sú spurning upp, virðulegi forseti: Hvers vegna í ósköpunum kalla menn þetta auðlindaskatt þegar hann er það svo augljóslega ekki? Hvers vegna að kalla ekki hlutina sínum réttu nöfnum og kalla skatt skatt en vera ekki að reyna að breiða yfir þessa skattheimtu með orðinu auðlindaskattur? Ég veit reyndar hvers vegna það er. Það er vegna þess að það hljómar betur, það hljómar inn í þá orðræðu sem snýr að því að telja þjóðinni trú um að hún fái í engu notið auðlindar sinnar, ef svo má að orði komast, nema slíkur skattur sé lagður á. Í raun og veru er bara verið að hækka skattana á þessa grein.

Þess vegna væri skynsamlegt, og ég tek undir þær athugasemdir sem koma fram í áliti 1. minni hluta, sem hv. þingmenn Einar Kristinn Guðfinnsson og Ásbjörn Óttarsson hafa skrifað undir, þar sem bent er á að nær væri að breyta fyrirsögn frumvarpsins þannig að hún endurspeglaði það sem um er að ræða og hvers lags skattheimta þetta er.

Ég vil líka vekja athygli á þeim breytingum sem við erum að fara að gera núna, verði þetta að lögum, á sama tíma og frumvarp er hér í þinginu um breytt fyrirkomulag fiskveiðanna, það býr til heilmikla óvissu fyrir okkur. Ég hefði talið skynsamlegra að við hefðum afgreitt það frumvarp fyrst áður en við hefðum snúið okkur að þessu. Og það vekur upp annað atriði sem mig langar að gera að umtalsefni.

Um er að ræða umfangsmiklar breytingar á grundvallaratvinnuvegi íslensku þjóðarinnar, um það deilir enginn, held ég. Nú gætu menn velt því fyrir sér hvernig staðið yrði til dæmis að álíka breytingum, við skulum segja á bílaiðnaði í Þýskalandi, á timburiðnaði í Finnlandi, á olíunýtingu í Noregi eða öðrum grundvallaratvinnuvegum í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að ekki yrði farið fram með þeim hætti eins og gert var við samningu þessara frumvarpa, að ekkert samráð væri haft við þá sem gerst þekkja til þessara mála og lagður væri, að því er virðist, sérstakur metnaður í það að koma í veg fyrir að fréttir af því hvernig frumvarpið ætti að líta út bærust út svo að þeir sem um þetta þyrftu að véla og vinna við fengju ekkert að vita fyrr en það væri komið í þingið.

Hér gengur í salinn, virðulegi forseti, hv. þm. Jón Bjarnason. (Gripið fram í: Já.) Ég verð að segja eins og er að þessi frumvörp eru þannig, og ég hefði varla trúað því að ég ætti eftir að segja það héðan úr þessum stól, að það jaðrar við að ég sakni ráðherratíðar hv. þingmanns þá þegar hann var hæstv. sjávarútvegsráðherra … (JBjarn: Það jaðrar við? Þú saknar.) Það jaðrar við, virðulegi forseti, vegna þess að það mátti þó segja um þau frumvörp sem hv. þingmaður lagði fram í hlutverki hæstv. ráðherra, að hægt væri að lesa úr þeim ákveðið kerfi, ákveðna hugsun, þó að ég væri innilega ósammála öllu því sem þar kom fram. En ég verð að segja að í því sem við höfum verið að ræða — og á ég þá við þetta frumvarp og það frumvarp sem er enn í nefnd — er mjög brotakennd hugsun. Það snýr akkúrat að því að verið er að gera miklar og stórar breytingar á atvinnugreininni án þess að vinna þær breytingar í samráði við til dæmis þá sem starfa við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, fræðimenn, fræðasamfélagið — við Íslendingar eigum mjög góða fræðimenn á þessu svið — án þess að vera í samráði við þá sem starfa í greininni, útgerðarmenn, fiskvinnslusjómenn og aðra þá sem gerst þekkja til um rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og án þess að vera í fullu samráði við stjórnarandstöðuna.

Skynsamleg vinnubrögð, virðulegi forseti, hefðu verið þau að ríkisstjórnin hefði komið fram, undir forustu hæstv. sjávarútvegsráðherra, með hugmyndir sínar um hvernig hún hygðist breyta kerfinu. Þá hefðu þær hugmyndir verið sendar til þeirra sem starfa í greininni og til háskólasamfélagsins og kallað eftir athugasemdum á því stigi áður en málið hefði komið hingað inn, kallað eftir athugasemdum um hvaða sjónarmið menn hefðu uppi um þær breytingar. Síðan þegar málið hefði verið komið inn til þingsins hefði hæstv. sjávarútvegsráðherra verið búinn að taka tillit til þeirra athugasemda sem hæstv. ráðherra taldi skynsamlegar og henta sinni pólitísku sýn, og um leið gert líka grein fyrir því þannig að þingið sæi hvað það væri sem hann hafnaði og á hvaða rökum hann hafnaði að gera slíkar breytingar. Með öðrum orðum, að búin væri til einhvers konar hvítbók sem kæmi til þingsins og búið væri að fara í gegnum alla þessa þætti. Þingið gæti síðan kallað eftir ítarlegri umsögnum, skoðað og fengið umsagnir um þær breytingar sem lagðar eru til hér á þinginu.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að nú þegar nefndin hefur lokið starfi sínu milli 1. og 2. umr. og komnar eru fram breytingartillögur í fjölmörgum liðum, sjö liðum ef ég man rétt, hefði ég viljað fá miklu nánari og ítarlegri greiningu frá fræðasamfélaginu, frá þeim sem starfa í greininni, á þeim tillögum. Og að við hefðum góðan og rúman tíma til þess að velta fyrir okkur nákvæmlega hvaða afleiðingar slíkar breytingar sem þar eru lagðar til mundu hafa á greinina af því að, enn og aftur, þetta er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Þannig tel ég að eigi að standa að verki í grundvallarmáli eins og stjórn fiskveiða er, að ekki eigi að fara fram með þessu offorsi, að ekki eigi að fara þannig fram að einangra málið svo mikið að sjónarmið komist ekki að fyrr en hér inni á þingi, sem tefur vitanlega allan framgang málsins í þinginu og eykur óvissuna um hver áhrifin verða nákvæmlega ef frumvarpið verður að lögum.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna eitt atriði alveg sérstaklega í þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram og snýr að 7. lið þeirra. Þar er kveðið á um að hægt verði að draga frá veiðigjaldi vaxtagjöld séu þau til komin vegna kaupa á veiðileyfum, vegna kaupa á kvóta. Þetta er mjög umhugsunarvert. Væntanlega og ég vænti þess að þetta eigi rót sína að rekja til þeirrar umræðu sem er og hefur verið um getu greinarinnar til þess að standa undir því gjaldi í ljósi þeirrar skuldastöðu sem hún býr við.

Virðulegi forseti. Þá kemur sú spurning upp eðlilega hvort það sé málefnalegt og eðlilegt og gott fordæmi fólgið í því að við segjum við eina atvinnugrein: Þið sem keyptuð veiðiheimildir og tókuð til þess mikil lán og höfðu lítið eigið fé, þið getið dregið frá veiðigjaldinu hluta af vöxtum ykkar. En þeir sem notuðu eigið fé, fóru varlega og tóku minni lán geta ekki nýtt sér slíkt. Þetta er mjög til umhugsunar. Ég er ekki sannfærður um að þetta séu skynsamleg eða góð skilaboð, ekki vegna þess að ég vilji að lagt sé á gjaldið. Ég er á móti þessu gjaldi, en ég held að þessi framkvæmd sé í það minnsta til umhugsunar hvað það varðar að senda þau skilaboð frá þinginu að það sé betra að fjárfesta með lánum en með eigið fé.

Ég er ekki viss um að það sé tilgangurinn eða hafi verið hugsun þeirra sem lögðu þetta til heldur miklu frekar viðbragð við þeirri gagnrýni sem hefur komið fram um að vegna skuldsetningarinnar eigi greinin erfitt með að greiða þetta. Þá stendur það einmitt eftir: Hvað með þá sem lögðu fram sitt eigið fé?

Það eru akkúrat svona atriði, virðulegi forseti, sem gera það að verkum að maður hefur áhyggjur af því að hér eigi núna á örfáum dögum að fara með frumvarpið í gegnum þingið, samþykkja það á hlaupum með þessum hætti og síðan ætlum við bara að vona að þetta gangi nú allt saman blessunarlega fyrir sig. Þannig á ekki að vinna svona mál, virðulegi forseti.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri affærasælast að málið yrði lagt til hliðar. Við mundum vísa því frá og segja, sem það svo augljóslega er: Þetta er vanbúið mál. Augljóst var þegar það var lagt fram að það var vanhugsað. Það reikniverk sem lagt var til grundvallar var vanhugsað. Mig langar að nefna eitt. Sú hugmynd sem hvílir á því að búa eigi til reikniverk til að áætla hvað heil atvinnugrein á að fjárfesta fyrir mikið og hvað eðlilegur afrakstur er til hluthafa o.s.frv. ber vott um, að mínu mati, hugsun um efnahagsmál sem er ekki til þess fallin, og er þá vægt að orði kveðið, að auka velmegun og auð í samfélaginu.

Það að reyna að stýra efnahagsstarfseminni með reikniformúlum eins og þessari býður alltaf hættunni heim. Það mun alltaf leiða til þess að auðlindin verði ekki nýtt með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er vegna þess að reikniformúlan fer þá að stýra miklu en ekki vit manna og þekking á því hvernig best er að gera það. Reiknimeistari ríkisins, sá sem býr til reikniformúluna, það er hans vit eða hennar sem mestu á að ráða en ekki þeirra sem best og gerst þekkja til. Þetta kann aldrei góðri lukku að stýra. Ég er alfarið á móti slíkri nálgun hvernig við eigum að haga og stjórna efnahagsmálum okkar.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að allt þetta mál eigi að fara héðan úr þingsalnum og að setjast þurfi aftur yfir þetta allt. Það þarf að vinna þetta saman. Ef menn vilja breyta starfsumhverfi sjávarútvegsins þarf að ganga frá slíkum breytingum fyrst áður en menn byrja yfir höfuð að velta því fyrir sér hvort þeir vilja auka skattheimtuna á þessa grein.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér í síðari ræðum mínum í umræðunni að ræða um áhrif þessarar skattlagningar á landsbyggðina og hvernig ég tel að slík skattlagning, eins og sú sem hér er lagt upp með, muni valda gríðarlegum skaða í sjávarbyggðum landsins.