140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um það hvernig arðinum af auðlindinni skyldi varið. Ég hygg að okkur greini verulega á í þessari arðhugmyndafræði. (Gripið fram í: Já, þú getur treyst …) Já, það er alveg klárt mál. Í mínum huga eiga auðlindirnar að skila arðinum inn í samfélagið, síðan greiðum við skatta til ríkisins o.s.frv. af ávöxtun þeirrar auðlindar. Við erum ekki sammála um þá hugmynd að auðlindin sjálf skuli skila arðgreiðslum til ríkisins.

Það er alveg hárrétt að ég legg miklu meiri áherslu á hinn samfélagslega sáttmála sem hv. þingmaður vék að, einnig varðandi sjávarútveginn. Það frumvarp sem hér liggur fyrir af hálfu núverandi sjávarútvegsráðherra er að því leyti til verulega ólíkt því frumvarpi sem ég lagði fram sem sjávarútvegsráðherra út af byggðatengingunum. Ég lagði ríka áherslu á byggðatengingar í sjávarútveginum, rétt sjávarbyggðanna til að njóta auðlindanna fyrir ströndum sínum, rétt íbúanna til að njóta auðlindarinnar og ávaxta hana. (BJJ: Rétt.) Þetta var eins og rauður þráður í gegnum nálgun mína hvað varðaði fiskveiðistjórn. Kæmi til beinnar gjaldtöku eins og veiðigjalds legði ég áherslu á að hluti af því (Forseti hringir.) gjaldi rynni beint til viðkomandi sjávarbyggða. Ég var með (Forseti hringir.) tillögu í þeim efnum sem ég kem að á eftir, frú forseti, en spyr um afstöðu hv. þingmanns til þess að hluti renni til sjávarbyggðanna (Forseti hringir.) sé á annað borð um gjaldtöku að ræða.