140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ríkissjóður er sífellt glorhungraður (Gripið fram í: Gráðugur.) og leitar eftir fjármagni til verkefna sinna. Það er lögmál sem við þekkjum í gegnum árin. Það er alveg hárrétt að þegar inn er kominn tekjustofn er erfitt að hnika honum til.

Eins og hér hefur áður verið vikið að varðandi rannsóknir Vífils Karlssonar sem þekkir hvað best fjárhag sveitarfélaganna og hvernig hann hefur þróast á undanförnum árum og breytingar á byggðum er það mat hans að um 80% af veiðigjöldum, hvort sem þau eru há eða lág, fari til höfuðborgarsvæðisins sé þeim stýrt þangað. Við sjáum hvað hefur gerst. Við deildum á sínum tíma um rétt Landsvirkjunar til að hækka arðsemiskröfu sína o.s.frv. Ég vildi sjá þá hagkvæmni í lægra raforkuverði til neytenda en ekki í því að Landsvirkjun gæti greitt eiganda sínum, ríkinu, fé beint í ríkissjóð. Ég vildi að hagkvæmnin rynni til íbúanna sjálfra.

Veiðigjaldið leggst þyngst á minni sjávarbyggðir úti um land sem borga líka hærra raforkuverð. Þegar samþykkt var að innleiða raforkutilskipun Evrópusambandsins á sínum tíma átti að jafna út raforkuverðið en það hefur ekki staðist. Ég er ekkert á móti því að við tökum hófleg veiðigjöld en ég spyr þingmanninn um afstöðu til þeirra tillagna sem ég hef lagt fram og legg áherslu á, (Forseti hringir.) að að minnsta kosti upp undir helmingur af teknum veiðigjöldum renni til viðkomandi sjávarbyggða aftur. (Forseti hringir.) Annars er verið að brjóta jafnræðisregluna með því að taka eins konar auðlindagjald af einni grein en ekki annarri.