140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður rakti hér hvað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði þegar hann var hv. þingmaður í stjórnarandstöðu og varaði mjög við þeim afleiðingum sem þetta mundi hafa á sveitarfélögin og þá skekkju sem kæmi niður á landsbyggðinni.

Hv. þingmaður vitnaði líka í umsagnir frá mörgum sveitarfélögum. Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar um þessa aðför gagnvart uppbyggingu á heilbrigðisþjónustunni og þann niðurskurð sem hefur átt sér stað þar með fækkun starfa og tek fram að ég tek undir með hv. þingmanni. Í umsögn frá sveitarstjórn Langanesbyggðar (BJJ: Já.) sem ætti að vera nokkuð kunnugleg fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir, með leyfi forseta:

„Það er mat sveitarstjórnar Langanesbyggðar að umrætt frumvarp til laga um veiðigjöld muni hafa gríðarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið. Hagsmunir sjávarbyggða á borð við Langanesbyggð fara saman við hagsmuni öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Ljóst er að veiðigjöldin sem frumvarpið boðar yrðu afar íþyngjandi fyrir rekstur þeirra. Þannig mundi frumvarpið leiða til verulegs samdráttar í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna og þar af leiðandi draga úr umsvifum þeirra í sjávarbyggðunum.“

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort þetta séu ekki nægjanleg varnaðarorð til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að snúa nú af þessari braut þar sem hans heimasveitarfélag varar við gríðarlegum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir sveitarfélagið Langanesbyggð.