140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Því miður gafst mér ekki tími til þess í ljósi þess hversu umfangsmikið málið er að fara yfir umsögn Langanesbyggðar auk þess sem ég held að einar fjórar mínútur hafi farið af tíma mínum í að ræða um klukkuna, en ég mun bara setja mig aftur á mælendaskrá til að geta farið betur yfir þessi sjónarmið.

Ég tek undir með hv. þingmanni og fulltrúum í sveitarstjórn umrædds sveitarfélags. Í raun er þetta nákvæmlega sami málflutningurinn og hv. þingmaður Alþýðubandalagsins, Steingrímur J. Sigfússon, viðhafði árið 1997 þar sem hann sagði, með leyfi frú forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. … Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Ég er alveg sammála þáverandi þingmanni Steingrími J. Sigfússyni og sveitungum hans í Langanesbyggð um að menn eigi að gjalda varhuga við þeirri stefnu sem lagt er upp með í þessu frumvarpi. Reyndar sýnist mér sem öll vinna sem snertir undirbúning þessa máls hafi komið á daginn, eins og hv. þingmaður og fulltrúi 2. minni hluta, framsóknarmanna, í atvinnuveganefnd, benti á, þ.e. að eftir samræður við sveitarstjórnarmenn og alla helstu hagsmunaaðila kom í ljós að ráðuneyti sjávarútvegsmála, eða atvinnuvegaráðuneytið, hafði ekkert samráð við helstu aðila þegar kom að því að semja þetta frumvarp. Það er fals í málflutningi sem hæstv. ráðherrar héldu fram þegar málið var kynnt að víðtækt samráð hefði verið haft um þetta mikilvæga mál sem snertir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.