140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég var að vonast til að klukkan yrði biluð lengur og hv. þingmaður fengi lengri tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál vegna þess að hann setti mál sitt mjög vel fram.

Hv. þingmaður talaði mikið um réttlæti. Mér þótti það allt mjög athyglisvert. Við sem hér störfum og þeir sem hafa fylgst með rökstuðningi stjórnarliða fyrir boðuðum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og þá líka þeim landsbyggðarskatti sem hér er rætt um þekkjum að breytingarnar eru rökstuddar með því að nú eigi að færa réttlæti inn í íslenskt samfélag. Það hlýtur þá að vera eitthvert óréttlæti í gangi að mati þeirra hv. þingmanna. Í hverju felst það? Spurning mín til hv. þingmanns er hvort hann sjái þetta óréttlæti sem til stendur að laga. Miðað við stóra málið sem við megum ekki tala um hérna, breytingarnar á fiskveiðistjórnarkerfinu, er grundvallarhugsunin í því að hleypa fleirum í veiðar, fjölga þeim sem mega fara út, fjölga skipum og þar af leiðandi minnka þau fyrirtæki sem nú þegar eru í starfseminni.

Þetta er rökstutt með réttlætinu og almannahagsmunum en ég sé það ekki fara saman þegar mjög margir, miklu fleiri en eru í dag að fiska, eru farnir á sjó. Þá tapast ákveðið hagræði úr greininni, möguleikar á því að hagræða betur og byggja upp stærri og öflugri fiskvinnslu. Jafnframt verður umhverfið að mínu mati allt saman mjög óöruggt. (Forseti hringir.) Hvernig fer þetta saman? Er þetta réttlátt og hvernig eru almannahagsmunir varðir með þessari aðferðafræði? Það er mér fyrirmunað að skilja.