140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir ýmsar ágætar tilvísanir til umsagna um frumvarpið sem hér liggur fyrir. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt fyrir gang þessarar umræðu að draga fram hvaða harða gagnrýni hefur komið fram af hálfu sveitarfélaga og stéttarfélaga vítt og breitt um landið, auðvitað hagsmunaaðila í útgerð eins og kunnugt er, en líka félaga sem eru að verja hagsmuni landverkafólks og sjómanna. Fyrir utan alla þá sérfræðinga sem um málið hafa fjallað eða sennilega bara alla, ég man ekki eftir því að stuðningsmenn frumvarpsins hafi til dæmis getað dregið fram lögfræðinga sem hafa lýst því yfir að þetta frumvarp væri gott og gengi vel upp lögfræðilega. Ekki finnast hagfræðingarnir sem mæla með því og ekki finnast sérfræðingar á sviði rekstrar fyrirtækja eða endurskoðunar eða aðrir slíkir sem mæla með því. Allur umsagnahópurinn er meira og minna á móti frumvarpinu.

Það er þarft að draga fram fjölbreytnina í því vegna þess að í máli bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og sjávarútvegsráðherra og alls hins er alltaf talað um að það sé stórútgerðin sem sé að berjast gegn þessu. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkisstjórnin er í stríði við nánast alla sem að þessum málum koma, ekki bara stórútgerðina heldur alla aðra líka.

Það var eitt atriði í máli hv. þingmanns sem ég er ekki viss um að ég hafi skilið rétt og vil þess vegna spyrja hann um. Það snertir viðhorf hans til veiðigjaldsins og hugmynda sem mér heyrðist örla á í máli hans um að veiðigjaldið væri öllu skárra ef hægt væri að úthluta því frekar til byggðanna. (Forseti hringir.) Er það réttur skilningur hjá mér?