140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að heyra þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins verja pólitískan skæruhernað LÍÚ eins og gert er undir þessum dagskrárlið og halda því fram að þær aðgerðir sem LÍÚ skipuleggur núna um land allt njóti stuðnings fiskverkafólks um land allt. Hvað hafa menn fyrir sér í því, af því að hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um órökstuddan málflutning? Halda menn virkilega að Alþýðusamband Íslands, sem núna hefur eðlilega brugðist harkalega við þessum aðgerðum, sé ekki í sambandi við umbjóðendur sína, (Gripið fram í: Nei.) við fiskverkafólk um land allt? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu eru þeir það. Að sjálfsögðu njóta þessar aðgerðir ekki stuðnings fiskverkafólks (Gripið fram í: … í Vestmannaeyjum.) um land allt. Það er hrein fjarstæða enda er LÍÚ skítsama um fólkið sem vinnur í fiskvinnslunni í landinu, skítsama um þótt kjör þeirra og tekjur muni skerðast (Gripið fram í.) í áframhaldandi aðgerðum sem LÍÚ hefur boðað hér (Gripið fram í: … stór orð.) með lítt dulbúnum hótunum. (Gripið fram í.)

Ég sagði að þetta væri dapurlegur málflutningur en hann kemur því miður ekki á óvart, enda var það kjarninn í málflutningi mínum áðan (Gripið fram í: Atvinnurekendum er skítsama …) að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa (Gripið fram í.) bergmálað gagnrýnislaust málflutning LÍÚ áratugum saman. (BJJ: Ósanngjarnt.) Þess vegna erum við með kvótakerfi sem 70% þjóðarinnar hefur verið andsnúið, eins og við höfum séð aftur og aftur í skoðanakönnunum. Þess vegna er leiðangur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að breyta þessu kerfi og færa það í þá átt að þjóðin fái loksins sanngjarnan og eðlilegan hlut af því að úthluta þessum takmörkuðu gæðum sem leyfð eru til að nýta sameiginlega auðlind, ekki bara mikilvægur, hann er bráðnauðsynlegur svo við náum að endurreisa þetta samfélag. Að sjálfsögðu er fullkomlega eðlilegt, eins og hv. þingmaður Róbert Marshall sagði, að skoða það hvort tími sé kominn til að endurskoða þessar heimildir sem útgerðarmenn hafa haft ef þeir halda áfram að hegða sér með þeim ofbeldisfulla hætti sem við höfum orðið vitni að.