140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

orð þingmanna í umræðu um störf þingsins.

[11:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að virðulegum forseta er auðvitað vandi á höndum þegar gera á athugasemdir við málflutning þingmanna og orðfæri. Það getur verið matskennt. En ég vil bera það undir hæstv. forseta hvort það sé viðeigandi að hv. þingmenn tali um þá baráttu sem er í landinu með þeim hætti sem gert var, að hér sé talað um að atvinnurekendum sé skítsama um starfsfólk sitt, eins og hv. þingmenn orðuðu það. (RM: Ætlar þú að vanda um fyrir öðrum núna? Ætlar þú að vanda um fyrir öðrum í því?) Að hér sé verið að búa til mannlega lifandi skildi, (Gripið fram í.) eins og annar hv. þingmaður orðaði það, að útgerðarmenn beiti starfsfólki fyrir sig. Mér finnst það vera mjög ósmekklegur málflutningur, virðulegi forseti, (Gripið fram í: Ætlar þú að …?) og sé einhvern tíma ástæða til að gera athugasemd við orðfæri þingmanna er það við svona málflutning.