140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er munur á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Í stefnu Framsóknarflokksins um veiðigjald er lagt til að á nýtingarsamninga í potti 1 verði lagt árlegt veiðigjald, þ.e. svokölluð auðlindarenta.

Nú hefur fulltrúi Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd stigið fram og sagt að framsóknarmenn séu reiðubúnir að skoða hækkun á auðlindarentu sem nemur því sem kom fram í fjárlögum fyrir árið 2012. Það er töluverð lækkun frá því sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja til í dag. Það sem mig langar til að heyra frá hv. þingmanni er hvar mörkin liggi hjá Sjálfstæðisflokknum. Mér hefur fundist skorta á skýra stefnu frá Sjálfstæðisflokknum og ég held að það sé rétt að Sjálfstæðisflokkurinn komi fram og segi hvar hann sé reiðubúnir að lenda málinu. Er allt fast? Einhver verður að sýna frumkvæði og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson gerði það og sýndi frumkvæði.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann líka, ef tími gefst til að svara því í andsvari hans, hver hann telji að áhrifin verði á Austurlandi. Nú starfa þar mörg öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem halda uppi góðum lífsskilyrðum þar og ljóst að margir, ekki bara sjómenn heldur líka fólk í fiskvinnslu, munu missa störf sín. Hefur þingmaðurinn kynnt sér hvaða áhrif þetta mun hafa á Austurlandi? Að mínu mati mun þetta gera aðstæður mun erfiðari á Austurlandi en þær eru í dag.