140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er ég að fara í mína fyrstu ræðu í þessu máli og vil ítreka að hér er ekki verið að stunda eitthvert málþóf ef fólk heldur það. Hver þingmaður fær að tala fyrst í 40 mínútur, síðan í 20 mínútur og svo í 10 mínútur eftir því hvernig málinu vindur fram. Eins og greinilega hefur komið fram erum við að ræða frumvarp til laga um veiðigjöld sem sætt hefur mikilli gagnrýni.

Ég talaði um sátt áðan, þá sátt sem hæstv. forsætisráðherra kallar sífellt eftir hér í þingsalnum. Nú er orðið opinbert að sátt hæstv. forsætisráðherra gengur í raun bara í eina átt, er einstefna, er einstefna í þá átt að ef hún fær ekki sjálf að ráða er engin sátt. Nú hefur þessi ósátt hæstv. forsætisráðherra sloppið út í samfélagið sjálft. Hér liggja skip við bryggju, sjómenn og útgerðarmenn neita að setja þau á flot á ný og halda til veiða nema hæstv. forsætisráðherra tali við þá og finni einhverja lausn á þessu máli og hæstv. forsætisráðherra og Samfylkingin kollsteypi ekki sjávarútveginum. Hann er okkar helsta tekjuuppspretta nú um stundir og í raun má fullyrða að það sé ekki síst sjávarútveginum að þakka að okkur sem þjóð hefur þó gengið þetta vel að jafna okkur eftir hrunið.

Íslenskir sjómenn og útgerðarmenn voru tilbúnir að veiða makrílinn sem synti sem ný auðlind inn í fiskveiðilögsögu okkar. Þá var allt tiltækt, flotinn fór á haf og sótti þessi verðmæti upp á 30 milljarða, frú forseti. Þessu ætlar ríkisstjórnin að kollsteypa og að kippa fótunum undan. Það er alveg hreint ótrúlegt en kemur mér svo sem ekki á óvart þegar Samfylkingin og hæstv. forsætisráðherra eiga í hlut því að í síðustu kosningabaráttu töluðu þau þannig að hér ætti að breyta sjávarútvegskerfinu og taka upp fyrningarkerfi í sjávarútvegi, helst fyrir hádegið þann dag sem þau tóku við stjórnartaumunum í Stjórnarráðinu.

Hvað höfum við þingmenn mátt þola hér? Frumvarp eftir frumvarp hefur komið fram í þinginu, handónýt frumvörp sem ekki nokkur einstaklingur eða fræðimaður úti í samfélaginu hefur getað skrifað undir eða samþykkt. Það eru rúmir 300 dagar til kosninga og kjörtímabilið að verða búið og þá leggja menn þetta mál fram núna í örvæntingarfullum krampa til að reyna að standa við kosningaloforðin og það er sama sagan. Ég hef spurt í andsvörum í þinginu hvort hægt sé að nafngreina einn eða tvo aðila sem eru fylgjandi frumvarpinu. Það er ekkert um svör vegna þess að enginn sem komið hefur fyrir atvinnuveganefnd hefur talið að frumvarpið ætti að fara óbreytt í gegn.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt og líka sérstaklega hver staða þingsins er orðin hjá þessari ríkisstjórn. Það má segja að ríkisstjórnin líti svo á að Alþingi eigi að vera stimpilpúði fyrir allan vitleysisganginn sem þeim dettur í hug í Stjórnarráðinu. Það er ekki hlutverk löggjafans. Komi ríkisstjórn fram með jafngerónýtt mál og þetta er skylda þingsins og þingmanna að leiðrétta kúrsinn og breyta málinu á þann hátt í fyrsta lagi að það standist önnur lög og stjórnarskrá og í öðru lagi að skapa sátt um málið úti í samfélaginu.

Ég hef oft undrað mig á því þegar meirihlutaríkisstjórnir hér á landi koma í gegnum þingið með miklu ofbeldi svona ólögum eins og oft hefur gerst hjá þessari ríkisstjórn. Hún hefur margoft verið dæmd í Hæstarétti af verkum sínum. En þetta fólk heldur áfram og dettur ekki í hug að láta af embætti þó svo að slíkt teldist nauðsyn og krafa væri gerð um það í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Nei, þessi ríkisstjórn þarf nefnilega ekki að fara að lögum. Því miður virðist svo vera í þessu landi að fjölmiðlar séu í liði með ríkisstjórninni í stað þess að þeir séu í liði með stjórnarandstöðunni til að benda á það sem miður fer hjá núverandi valdhöfum. Þetta er hreint með ólíkindum.

Ég verð, vegna þess að ég er að ræða stöðu þingsins, jafnframt að minnast á það og ég þreytist ekki á því, að ég hef fundið lausn á þessu vandamáli. Í þrjú ár hefur verið saltað í þinginu frumvarp mitt um lagaskrifstofu Alþingis, sem hefði það hlutverk að fara yfir frumvörp og þingsályktunartillögur áður en málin eru lögð fram í þinginu. Slíkt mundi skila miklum vinnusparnaði og ekki síst langtum færri dómsmálum þannig að ríkisstjórnin kæmist ekki í gegn með ólög í krafti meiri hlutans. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þessu voru að stofna lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu undir sjálfri sér og heitir hún að mig minnir lagaskrifstofa forsætisráðuneytisins eða eitthvað slíkt. Það er fáránlegt hvernig peningum er mokað inn í ráðuneytin eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Ég hef kallað þetta kratavæðingu og ég er alltaf að verða sannfærðari og sannfærðari um að það sé ekkert annað en kratavæðing að ýta undir sjálfa sig og byggja upp í ráðuneytunum en láta löggjafann sjálfan sitja á hakanum.

Það má líka fullyrða að með þessu, eins og til dæmis þetta mál er unnið, er gert mjög lítið úr störfum þingsins. Hér er nefndasvið og þar eru ritarar sem gera allt sitt besta til að laga málin með þingmönnum en það er ekki hlustað á nein varnaðarorð. Svo við tölum nú ekki um allt fólkið sem hefur komið fyrir atvinnuveganefnd og reynt að benda á hvað mætti betur fara í frumvarpinu og hvað þyrfti að laga, hvað séu hættuleg ákvæði varðandi framtíð atvinnugreinarinnar og annað. Það er ekki hlustað á þetta fólk. Það er, frú forseti, hreinlega verið að gera lítið úr þessu fólki. Ég segi ekki annað en það: Hvenær hætta álitsgjafar að koma fyrir nefndir þingsins þegar þeir fá svona meðhöndlun? Hvenær rennur upp sá dagur að fólk segi bara: Hingað og ekki lengra, það er tímaeyðsla og peningaeyðsla að mæta á nefndasvið Alþingis vegna þess að það er eins og að tala við steininn. Þetta er hreint með ólíkindum og ég get staðfest að svona er þetta líka inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þegar hið svokallaða stjórnarskrárfrumvarp kom þar inn var það alveg sama sagan. Ekki var hægt að finna einn einasta sérfræðing eða fræðimann sem gat mælt með því að það yrði lagt fram sem þingskjal vegna þess að það voru svo miklir ágallar á því.

Þá var leikinn tafaleikur eftir tafaleik, málið kom aldrei efnislega til umfjöllunar og hvert er það komið núna? Jú, það á að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu með tilbúnum spurningum frá ríkisstjórninni. Það er ekkert sem segir að þessar spurningar sem á að spyrja um séu sprottnar frá þjóðinni. Við vitum að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosningarnar og það var Alþingi sem skipaði stjórnlagaráð þannig að það er ekki hægt að tala um að þetta séu hugmyndir sem sprottnar séu frá þjóðinni, enda eru ríkisstjórnarflokkarnir náttúrlega líka búnir að krukka mikið í málið, þeir treystu sér ekki til að leggja það óbreytt fram. Á þann stað er málið komið. En ég hugsa að sérfræðingum sem komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé að ákveðnu leyti nokkuð létt því að það vannst að minnsta kosti sá varnarsigur að hægt var að fresta málinu aðeins lengur og fá sex til sjö lögfræðinga til að lesa málið yfir. Þeir eiga að skila tillögum að breytingum á frumvarpinu til þingsins í haust. Það vannst því varnarsigur og í þessu máli ætlum við framsóknarmenn líka að vinna varnarsigur gegn þessari vanhæfu ríkisstjórn.

Ekki er hægt að ræða þetta mál öðruvísi en að minnast á þá þverpólitísku nefnd sem var skipuð af forsætisráðherra undir forustu þáverandi hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Það var komin mikil sátt í það nefndarstarf og það var að vissu leyti kraftaverk vegna þess að sá spuni hefur verið keyrður í samfélaginu undanfarin ár af vinstri flokkunum að það sé svo mikill skoðanaágreiningur á milli vinstri flokkanna annars vegar og svo Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hins vegar.

Þarna náðist skynsamleg sátt, allir gengu sáttir frá borði og skrifa átti frumvarp sem byggðist á þeirri sátt. Hvað gerðist þá? Það var allt of mikil sátt fyrir hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þannig að hún varð að kveikja í málinu, sprengja það. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir kann líklega ansi vel að láta fjölmiðla spila með sér. Hún vill hafa málin í ósátt til þess að hún geti komið í ræðustól, steytt hnefann, talað illa um aðila úti í samfélaginu og kallað þá öllum illum nöfnum, þeir eru kvótagreifar, sjálftökumenn og ég veit ekki hvaða orð sú ágæta kona notar ekki yfir þá, til dæmis í því máli sem við ræðum nú, um veiðileyfagjaldið. Svona vill hún hafa þetta, fara þetta á hnefanum, hún er hörkukerling, hún lætur ekki vaða yfir sig, en því miður, frú forseti, í hinu orðinu biður hún um að hér séu málin rædd í sátt.

Allir landsmenn eru búnir að sjá í gegnum þetta ferli hæstv. forsætisráðherra, allir sjá að hér í þinginu er sett upp leikrit á hverjum einasta degi. Og það er hentugt fyrir hæstv. forsætisráðherra að vera verkstjóri í ríkisstjórn þar sem er alltaf eitt logandi mál í gangi, eitt logandi mál. Við erum nýbúin að fara í gegnum stjórnarráðstillögurnar, allt í ósátt og ekki hlustað á stjórnarandstöðuna, en á meðan hæstv. forsætisráðherra hefur alltaf eina eldkúlu á lofti í samfélaginu getur hæstv. ríkisstjórn gert allt annað í skjóli nætur. Hún getur komið í gegnum þingið málum sem eru jafnvel hættuleg fyrir íslenska þjóð eða verið að aðhafast eitthvað í ráðuneytunum sem þolir illa dagsljósið, því að hér er mikið í húfi. Við vitum að á meðan ein glerkúla er á lofti í einu og allt logandi í ósátt geta ráðuneytin, sem dæmi, unnið að því að aðlaga sig að Evrópusambandinu vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er sá aðili sem gengur fram fyrir skjöldu í því ásamt hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni. Þau vita jafn vel og allir aðrir að þegar landsmenn fella ESB-umsóknina í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf líklega að leggja Samfylkinguna niður, því að Samfylkingin hefur eitt stefnumál og það er að ganga í Evrópusambandið, að því er stefnt.

Virðulegi forseti. Veiðigjöld verða ekki rædd öðruvísi en að almennt sé farið yfir náttúruauðlindir því að veiðileyfagjald er gjald sem lagt er á auðlind. Það eru ýmsar leiðir til þess að ná inn skattfé af auðlindum sem eru í almannaeigu, t.d. grænir skattar, sérstök gjöld, tollar og uppbætur. Mig langar því að snúa mér núna að því hvað náttúruauðlind er og tala síðan um fiskveiðistjórnar- og greiðslumarkskerfið, hvers vegna fiskveiðistjórn var upphaflega komið á hér á landi, hvernig lagaþróun fiskveiðistjórnarkerfisins hefur verið háttað og ég ætla einnig að minnast á nokkra tímamótadóma sem fallið hafa á þessu sviði sem hafa breytt kerfinu. Svo ætla ég að fara yfir hvernig viðmiðunarárin og veiðireynslan koma inn í þetta.

Fjölmargar náttúruauðlindir sem gegna veigamiklu hlutverki í framleiðslu eða hafa mikil áhrif á vellíðan fólks eru án eignarréttar. Þær eru því ekki markaðsvörur og markaðsöfl geta ekki stjórnað nýtingu þeirra. Slíkar náttúruauðlindir eiga á hættu að vera ofnýttar, stundum svo verulega að þeim er eytt með öllu. Sem dæmi má nefna að geirfuglinn okkar var náttúruauðlind sem var eytt með öllu vegna þess að enginn stýrði veiðum eða seldi kvóta á veiðar á honum. Þetta á við um ýmsar aðrar dýrategundir sem eru í útrýmingarhættu í heiminum.

Aðrar auðlindir lúta stjórnun af einhverju tagi. Sum hagfræðileg vandamál ríkja geta stundum leitt til lagasetningar á þessu sviði. Á sama tíma og hagfræðileg vandamál koma upp við stjórnun náttúruauðlinda vegna ágangs einstaklinga, fyrirtækja og í sumum tilfellum opinberra aðila til nýtingar þeirra er oft gripið til aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til að koma böndum á nýtinguna. Eru þá oftar en ekki sett lög til að ná tökum á auðlindastjórn. Gott dæmi um slíka lagasetningu eru lög nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem felld voru brott með lögum nr. 2006, um stjórn fiskveiða.

Í lögunum var sjávarútvegsráðherra veitt heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða mátti af ákveðnum fisktegundum á tilteknu tímabili til að koma í veg fyrir ofveiði. Þá getur lagasetning haft í för með sér hagfræðileg áhrif. Ágætt dæmi um slíkt er þegar Alþingi setti hér lög nr. 85/2002, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Var með þessari lagasetningu stigið skref í átt að auðlindagjaldi í fiskveiðum og tekið upp það sem nefnt var veiðigjald. Þessi lög voru sett árið 2002, sem hrekur þá mýtu sem er keyrð stanslaust í fjölmiðlum af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki taka upp veiðileyfagjald. Strax árið 2002 stóðu þessir flokkar fyrir því að sjávarútvegurinn færi að greiða veiðileyfagjald. Annaðhvort vita hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki af því eða kjósa að spila leikinn á þann hátt að veiðileyfagjald hafi aldrei verið til.

Virðulegi forseti. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort um hreina vanþekkingu sé að ræða eða hreinan spuna. Fyrir það þurfa þingmenn þessara flokka að svara. Meira að segja hæstv. forsætisráðherra fer fram með þessi rök og líklega veit hún ekki betur þrátt fyrir að hún sé búin að starfa í þessu húsi í bráðum 35 ár. Hún og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrímur J. Sigfússon voru þá þingmenn og samþykktu það þegar breytingin var gerð á fiskveiðistjórnarkerfinu varðandi veðsetningu í sjávarútvegi. Þetta þarf að rifja upp. Þau koma alltaf fram eins og heilagar kýr og kenna einhverjum öðrum um, en þau voru í þessum sal og greiddu atkvæði með þessu.

Hugtakið auðlind er mjög víðfeðmt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatnið, sólarljósið og loftið geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar og orkulindir. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu eins og til dæmis útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað.

Nú ætla ég að fara aðeins yfir þróun fiskveiðistjórnar- og greiðslumarkskerfisins vegna þess að ekkert slíkt er í þessu frumvarpi. Þessu er dengt fram sem frumvarpi til laga og grunnurinn ekki skoðaður og ekki rökstutt hvers vegna þarf að fara í þessar breytingar nú. En það er kannski ekki nema von vegna þess að nýjasti rökstuðningur ríkisstjórnarflokkanna felst í því að vísa sífellt í tillögur stjórnlagaráðs sem hafa enga lagalega stöðu. Ég sagði í ræðu um daginn að þetta væri ekki lögfræði, þetta væri heimspeki. Að byggja lagafrumvörp á ósamþykktum tillögum sem hafa enga lagastoð, það er ein vitleysan sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.

Þegar fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi er skoðað má sjá að það er um margt líkt upptöku greiðslumarks í landbúnaði og úthlutun losunarheimilda. Það er gaman að minnast á losunarheimildirnar vegna þess að eins og vinstri flokkarnir hafa pönkast á Framsóknarflokknum fyrir að hafa staðið fyrir þessu sjávarútvegskerfi, sem er nú að skila þjóðinni miklum tekjum, talið kerfið algjörlega galið og talið það færa einstaka greiðslur til ákveðinna aðila, þá innleiddu þessir sömu vinstri flokkar um leið og þeir komust í ríkisstjórn úthlutunarkerfi losunarheimilda og gengu inn í evrópska losunarheimildakerfið. Það er byggt upp á nákvæmlega sama grunni og fiskveiðistjórnarkerfið og greiðslumarkið í landbúnaði, þ.e. á veiðireynslu, á framleiðslumagni og mengunarreynslu. Svona er nú hræsnin hjá ríkisstjórninni, hún vill rústa íslenska sjávarútvegskerfið um leið og hún tekur upp algjörlega sambærilegt kerfi varðandi gróðurhúsalofttegundirnar. Það kerfi er nú orðið þannig að breyta þarf lögum um Seðlabanka Íslands til þess að aðilar sem þurfa losunarkvóta — þá er ég að vísa í stóriðjuna og álverið, Steinullarverkmiðjuna á Sauðárkróki — þurfa að fá gjaldeyri í gjaldeyrishöftunum til að kaupa losunarkvóta til að starfsemin geti haldið áfram í landinu. Kerfið er því farið að virka alveg eins og kvótakerfið og ég hef til dæmis verið að rannsaka hvort ekki myndist jafnmikil eign í því kerfi og í sjávarútveginum.

Til að útskýra þetta aðeins betur þá hefur í öllum þessum þremur kerfum verið farin sú leið að velja ákveðið viðmiðunarár sem ákvarðar magn gæða sem ríkið úthlutar til atvinnureksturs. Notendur gæðanna þurfa ekki að reiða af hendi gjald fyrir nýtinguna og þeir sem eru til staðar í atvinnurekstrinum á hinu tiltekna viðmiðunarári njóta forgangs við úthlutun. Nýliðun í öllum atvinnugreinum verður af þessum sökum erfið og umdeilt hvort viðkomandi réttindi skapi eignarréttindi notanda. Í þessu eru kerfin þrjú alveg eins og þau eiga það sammerkt að upphaflega er byggt á mengunarreynslu og fiskveiðireynslu en ekkert gjald fyrir þegar úthlutunin á sér stað.

Nú langar mig til að fara aðeins í sögu okkar því að frá upphafi Íslandsbyggðar nutu landsmenn allir réttar til þess að veiða í hafalmenningum. Sá réttur var ekki grundvallaður á einkarétti af neinu tagi og byggðist heldur ekki á því að hver og einn einstaklingur ætti eignarrétt að fiskstofnum eða neinu hafsvæði við Ísland. Var því um almannarétt að ræða. Slíkur réttur hefur ekki verið talinn eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Er almannaréttur því ekki varinn af ákvæðinu.

Þessi skipan fiskveiða hélst óbreytt þar til á ofanverðri 19. öld er sett voru lög sem veittu heimild til að takmarka og banna notkun einstakra veiðarfæra á tilteknum svæðum. Síðar komu heimildir til friðunar einstakra svæða fyrir veiðum og loks voru sett lög um að ákveðnar veiðar skyldu háðar leyfi sjávarútvegsráðherra. Voru lagaheimildir af þessu tagi grundvöllur stjórnunar fiskveiða hér á landi. Með slíkri löggjöf var takmörkuð hin áður óhefta heimild almennings til að veiða í hafalmenningum og hin forna regla Grágásar og Jónsbókar þrengd. Þetta var gert meðvitað með lagasetningu hér á Alþingi.

Lagaheimildir hafa æ síðan verið grundvöllur stjórnunar fiskveiða hér á landi. Ekki hefur verið talið að lagasetning með það að markmiði að hefta veiðar við Íslandsstrendur til verndar fiskstofnum brjóti gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem almannahagsmunir voru í húfi vegna ofveiði við landið. Að auki var lagasetning í því skyni leið til að uppfylla skyldur sem íslenska ríkið hafði gengist undir samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um verndun og stjórn fiskstofna. Þær almennu heimildir sem höfðu gilt fram að þessu til veiða á miðunum við landið stóðu því ekki í vegi fyrir að slíkar reglur væru settar.

Fiskveiðistjórn Íslendinga frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari hefur að verulegu leyti verið byggð á lögum nr. 44/1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Útfærsla landhelginnar í nokkrum skrefum byggði á þessum lögum. Mismunandi leiðir voru farnar við fiskveiðar um miðbik síðustu aldar og seinni hluta hennar. Árið 1975 var landhelgin færð út í 200 sjómílur og sköpuðust eftir það forsendur fyrir skilvirkni í stjórn fiskveiða. Það sama ár gaf Hafrannsóknastofnun út skýrslu sem sýndi fram á að þorskstofninn væri ofveiddur og takmarka þyrfti veiðar verulega og það var gert í ljósi almannahagsmuna.

Árið 1976 breyttust forsendur fiskveiða þegar fiskveiðilögsagan hafði verið stækkuð í 200 sjómílur. Talið var mikilvægast við þessa aðgerð að íslensk skip sátu nú ein að veiðum botnfisk- og flatfisktegunda innan þessa stóra hafsvæðis. Með lögum nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, fékk sjávarútvegsráðherra heimild til að ákveða hámark þess afla sem veiða mátti af ákveðnum fisktegundum á tilteknu tímabili. Á árabilinu 1978–1983 kom hið svokallaða skrapdagakerfi til sögunnar en með því voru sóknardagar skipa takmarkaðir á þann hátt að skipum var bannað að stunda tilteknar veiðar á vissum tímabilum.

Síðan gerist það árið 1984 með frumvarpi sem varð að lögum nr. 82/1983, um breytingu á lögum nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, að kvótakerfið var tekið upp. Með lagasetningunni voru tekin af tvímæli um heimild ráðherra til að ákveða heildarafla úr tilteknum fiskstofnum með reglugerð. Í fylgiskjali með frumvarpinu kom fram að hvert fiskiskip yfir 10 brúttólestum skyldi fá úthlutað heimild til að veiða tilgreint magn af ákveðnum botnfisktegundum og var heimildin nefnd aflakvóti eða aflamark. Var kvótinn fyrsta árið miðaður við aflareynslu viðkomandi skips síðustu þriggja ára á undan, svonefndum viðmiðunarárum.

Við setningu reglugerðar 44/1984, um stjórn botnfiskveiða var aflamark bundið við skip en ekki við einstaklinga og lögaðila. Kerfið var þó ekki hreint kvótakerfi því að einstöku skipum var heimilt að velja sóknarmark sem byggðist á heimild til að stunda botnfiskveiðar ákveðinn dagafjölda, með nokkrum takmörkunum þó eins og t.d. þorskafla. Framsal aflamarks á þessum tíma var því einungis heimilt til aðila sem höfðu skip með almenn veiðileyfi. Hefur þetta sérkenni íslenska kvótakerfisins haldist alveg fram á þennan dag eða réttara sagt þar til ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum og hefur haldið uppi árásum á þetta góða kerfi síðan.

Á árabilinu 1986–1989 varð ákveðin breyting. Fram til ársins 1986 var val milli aflakvóta og sóknarmarks takmörkunum háð. Á árunum 1986–1987 voru þessar heimildir rýmkaðar en þrengdar aftur árið 1988. Á þessum árum voru nánast allar fiskveiðar og þar með talin nýting fiskiskipa háðar leyfum og takmörkunum, eins og ég fór yfir áðan, en síðan gerist það árið 1990 með lögum nr. 38/1990, að kerfið varð bundið við allar veiðar og þær urðu leyfisbundnar, sbr. 4. gr. laganna.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu var tilgangur laganna sagður vera að marka meginreglur um framtíðarskipan stjórnar fiskveiða og skapa grundvöll fyrir hagkvæmni og skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna til þess að hámarksafrakstri auðlindarinnar yrði náð fyrir þjóðfélagið í heild. Varanleiki löggjafarinnar var rökstuddur með því að hann skapaði nauðsynlegar forsendur fyrir ákvörðunum um fjárfestingar og annað sem hefði langtímaáhrif. Væri langur gildistími laganna í raun forsenda þess að hagræði það sem að var stefnt næðist.

Í lögunum kom fram að árlega var öllum þeim skipum sem fullnægðu almennum skilyrðum laganna veitt eitt almennt veiðileyfi sem veitti heimild til þess að veiða þær tegundir sem ekki sættu sérstöku aflamarki, með ákveðnum takmörkunum þó. Þá var við það miðað að öllum fiskiskipum sem höfðu leyfi til að veiða í atvinnuskyni var úthlutað fastri aflahlutdeild í leyfilegum heildarafla út frá veiðireynslu þeirra. Skyldi sjávarútvegsráðherra ákveða heildarmark hverrar tegundar ár hvert að tillögum Hafrannsóknastofnunar.

Árið 1998 var lögunum aftur breytt og með lögum nr. 12/1998 var framsal aflamarks rýmkað. Með lagasetningunni var heimilað að færa aflamark á milli skipa og skyldu viðskiptin fara fram í gegnum kvótaþing. Um kvótaþing giltu lög nr. 11/1998 en þau eru nú fallin úr gildi. Hlutverk þess var að annast tilboðsmarkað fyrir aflamark, vera vettvangur viðskipta með aflamark og annast greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda aflamarks og að miðla upplýsingum um viðskipti á þinginu. Ekki þurfti að tilkynna kvótaþingi um flutning ef aflamarkið var flutt milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila, og með fleirum smávægilegum undantekningum.

Með þessum lögum var sett inn ákvæði sem setti eignarhaldi stærðarhámark en ástæða þótti til að festa í lög að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila gæti ekki farið umfram tiltekið hámark tiltekinna tegunda.

Hér sýndi því löggjafinn í verki vilja til að tryggja dreifða eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum. Í athugasemdum við frumvarpið var settur inn kafli um sterka og háværa þjóðfélagsumræðu um efnið, hún rakin að nokkru og nefnt að hún hafi snúist um að þetta mundi leiða til þess að yfirráð fárra yfir auðlindinni yrðu að veruleika, um samkeppnisskort og áhrif þeirra sem réðu auðlindinni eins og stjórnvöld og lánastofnanir, svo eitthvað sé nefnt. Í frumvarpinu kom greinilega fram hversu skiptar skoðanir voru á þessum tíma um fiskveiðistjórnarkerfið en vilji löggjafans var að bæta kerfið svo flestum mundi líka.

Það er mjög sérstakt að lesa þetta frumvarp því að ég man ekki eftir því að þjóðfélagsumræða á hverjum tíma fari inn í greinargerð frumvarps. En um þetta var tekin ákvörðun á þessum tíma og augljóst að mikill æsingur var yfir þessu. En þarna var lagður grunnur að því sterka fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við.

Eftir að þessi lög voru sett féll tímamótadómur sem olli miklu fjaðrafoki í samfélaginu. Í þeim dómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands yrði til frambúðar ekki eingöngu bundin við skip sem haldið hafði verið til veiða á ákveðnum tíma. Þá brást löggjafinn við með lagasetningu með lögum nr. 1/1999. Í athugasemdum við það frumvarp sem var samþykkt kemur fram að úrelding skipa sem voru í flotanum sé ekki lengur forsenda fyrir því að ný skip fái leyfi til að veiða. Veiðileyfakerfið sem sett var með lögum nr. 38/1990 var þar með afnumið. Tekið var upp kerfi sem byggðist á því að öll fiskiskip sem höfðu haffærisskírteini og skrásett voru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum fengu leyfi til að veiða. Leyfið var þar með bundið við skip.

Svo má nefna smávægilegar breytingar. Veiðigjald var tekið upp árið 2004 með lögum nr. 85/2002 og upphaf innheimtu á veiðigjaldi hófst þann 1. september 2004. Ég vísa því aftur á bug að hér hafi ekki verið greitt veiðigjald í sjávarútveginum eins og vinstri flokkarnir halda fram nú en það hentar því miður í spunann hjá þeim eins og málið er keyrt í dag. Þeir gerast þar með sekir um að segja ósatt, en ég ætla að vonast til að það sé vegna vanþekkingar á kerfinu en ekki að yfirlögðu ráði.

Síðan voru sett lög nr. 42/2006, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að eignarhaldi krókabáta sé sett stærðarhámark á sameiginlega krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í eigu tengdra aðila. Samkvæmt 4. gr. laganna var lagt til að þegar lögin öðluðust gildi skyldi fella meginmál þeirra inn í lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og gefa þau út sem ný lög, nr. 116/2006, og tóku þau gildi 17. ágúst 2006. Þarna var búið að gera svo miklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða frá 1990 að talið var betra að Alþingi mundi sameina þessi lög og gefa út sem ný lög vegna þess að þá yrðu þau skiljanlegri og það voru komnar svo margar breytingar við lögin frá 1990. Ég vísa því þannig jafnframt á bug að hér hafi verið óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi frá því að Framsóknarflokkurinn fór í ríkisstjórn. Eins og ég hef farið yfir hafa verið gerðar miklar lagabætur á lögum um stjórn fiskveiða, lagabætur sem voru gerðar með almannahagsmuni að leiðarljósi og gerðu kerfið sanngjarnara og, sem ekki má gleyma, í raun sterkara, enda sjávarútvegur okkar aðalatvinnugrein.

Þegar viðmiðunarár og veiðireynsla eru skoðuð, til dæmis vegna þessa frumvarps og í tilfelli losunarkvótans eins og ég fór yfir áðan þar sem eru viðmiðunarár og mengunarreynsla, og þegar sett eru lög sem takmarka atvinnufrelsi eða þrengja atvinnuréttindi manna, verður að gæta þess að raska sem minnst atvinnuháttum þeirra sem lögin ná til. Þetta var haft í huga þegar lög nr. 38/1990 voru sett og tekið tillit til hefðar þeirra sem höfðu stundað fiskveiðar í atvinnuskyni á viðmiðunarárunum og þar með reynt að koma til móts við þá og virða atvinnuréttindi þeirra. Var við það miðað að þau skip ein kæmu til greina við veitingu leyfanna sem höfðu fengið veiðileyfi samkvæmt lögum nr. 3/1988 og höfðu ekki horfið úr rekstri. Með lögum nr. 38/1990 voru heimildir til að veiða á sóknarmarki að fullu afnumdar og sóknarmarksbátum endanlega reiknuð aflahlutdeild. Ákvörðun aflamarks var miðuð við verðmæti afla lönduðum innan lands í þorskígildum á árunum 1987–1989. Skipum var skipt í mismunandi flokka og reiknað var meðaltalsaflamark hvers flokks í hlutaðeigandi tegundum. Var með þessu stigið það skref að ákveðnir aðilar fengu í skjóli ríkisvaldsins úthlutað gæðum í formi atvinnuréttinda til nýtingar og þessi réttindi njóta enn fremur verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þrátt fyrir meginregluna um að aflahlutdeild skuli vera óbreytt milli ára hefur sjávarútvegsráðherra allt frá upphafi haft töluvert svigrúm til að auka eða skerða aflahlutdeild skipa. Ræðst það af ástandi stofna hverju sinni og breytingum í afla milli ára. Talið hefur verið að aflaheimildir hafi sérstöðu að því leyti að aflamark skips ræðst af hlutdeild þess í úthlutuðum heildarafla hverju sinni og úthlutað heildaraflamark ræðst m.a. af ástandi stofna hverju sinni. Slík skerðing á aflamarki getur því ekki leitt til bótaskyldu því að slíkt er dæmi um almennar takmarkanir eignarréttarins á friðunargrundvelli og í samræmi við grundvallarmarkmið laga um stjórn fiskveiða.

Sem dæmi um þetta má nefna að í júlí 2007 ákvað sjávarútvegsráðherra að skerða afla næsta fiskveiðiárs á eftir úr 193.000 tonnum í 130.000 tonn eða samtals um 63.000 tonn. Var þessi niðurskurður í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar og ráðherra var að sjálfsögðu heimilt að fara í þessar aðgerðir vegna ástands á fiskstofnum í kringum landið. Það má sem sagt bæði auka kvóta og minnka kvóta án þess að bætur þurfi að koma fyrir.

Svo er hér smávegis í viðbót um framsal veiðiheimilda. Heimildir til framsals aflaheimilda hafa verið til staðar frá upphafi kvótakerfisins árið 1984, þó í mismiklum mæli hafi verið og því framsali settar afar þröngar skorður. Varanlegt framsal aflaheimilda var óheimilt, enda var fiskveiðistjórn fyrir fram markaður ákveðinn tími í lögum um framtíðarhlutdeild skips í heildaraflanum. Um þennan kafla verð ég að lesa, frú forseti, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrímur J. Sigfússon samþykktu þessa lagabreytingu á Alþingi en vilja alltaf hvítþvo sig af því.

Við setningu laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, var skipum ákveðin varanleg aflahlutdeild og ljóst var að aflahlutdeild skips gæti skipt sköpum um verðmæti þess og þar með einnig um veðhæfi þess. Með lögunum var framsal veiðiheimilda rýmkað verulega. Eftirleiðis voru því kaup á veiðiheimildum eina leið þeirra sem ekki höfðu veiðireynslu á viðmiðunarárunum til að komast inn í kerfið. Ýmis eignarréttarleg álitaefni hafa sprottið af löggjöf um stjórn fiskveiða og þar er til dæmis að nefna Hrannarmálið þar sem Hæstiréttur leit svo á að aflahlutdeild sem veitt var á grundvelli þáverandi laga um stjórn fiskveiða, 38/1999, teldist til eignarréttinda og yrðu aðilar ekki sviptir aflahlutdeild bótalaust. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að úthlutuð veiðiheimild væri fémæt réttindi sem gengi kaupum og sölum þótt aðilar hefðu ekki að lögum tryggingu fyrir því að þeir gætu síðan notað hana til tekjuöflunar ef löggjafinn mundi breyta lögunum. Öðru máli gegnir ef löggjafinn mundi breyta almennum skilyrðum fyrir aflahlutdeild á grundvelli almennra og hlutlægra sjónarmiða. — Þetta var úr dómnum.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég er rétt að byrja að ræða þetta mál þannig að ég óska eftir því að ég verði sett aftur á mælendaskrá. Ég hef ekki meiri tíma í þetta sinn en kem til með að einbeita mér að veiðileyfagjaldinu enn frekar í næstu ræðu.