140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:03]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eins og kunnugt er lokaði Landsbankinn um síðustu mánaðamót fjölda útibúa sinna á landsbyggðinni. Það voru sjávarbyggðirnar og Snæfellsnesið, Vestfirðir og Austfirðir sem urðu fyrir högginu, Króksfjarðarnes, Súðavík, Flateyri, Bíldudalur, Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður. Þessar sömu byggðir hafa mátt sæta stórfelldum niðurskurði, t.d. í heilbrigðisþjónustu og annarri stoðþjónustu, á undanförnum missirum. Framgangan eins og hún birtist almenningi er eins og í stríðsrekstri, það er nánast fyrirvaralaust tilkynnt, bæði til sveitarstjórna og starfsmanna, um lokanir. Það er gert rétt fyrir stórhátíð og samfélagið stendur agndofa eftir. Það er mjög mikilvægt að undirstrika að bankastarfsemi sem slík er ekki bara til sjálfrar sín vegna. Hún er fyrst og fremst þjónustustarfsemi við íbúa, fyrirtæki og samfélög vítt og breitt um landið.

Banki eins og Landsbankinn ber þess vegna ríkar samfélagslegar skyldur, banki á landsvísu, banki í ríkiseigu að meiri hluta. Þess vegna verður Landsbankinn líka að lúta þeim kröfum, þeim væntingum og þeim skyldum sem á hann eru lagðar í þeim efnum, hvort sem þær eru skrifaðar eða óskrifaðar. Við viljum hafa landið allt í byggð, við viljum vernda og nýta auðlindir þess og samfélög en það gerist ekki sjálfkrafa. Landsbankinn ber þess vegna meiri skyldur en aðrar stofnanir sem ekki eru starfræktar á landsvísu.

Vissulega hefur tækni í fjarskiptum og samgöngum breytt hér miklu en það er líka nokkuð sem heitir viðskiptavild, nærþjónusta sem Landsbankanum og öðrum slíkum stofnunum ber að hafa í huga. Þótt hann sé almennur viðskiptabanki á samkeppnismarkaði er fjarstæða að hann verði ekki að lúta samráði og kröfum eigenda sinna í skyldum við almenning. Sparisjóðirnir gegndu vissulega mikilvægum svæðisbundnum hlutverkum á sínum tíma og gera enn og þótt illa hafi farið fyrir sumum þeirra þýðir það ekki að sparisjóðahugsjónina sem slíka eigi að leggja fyrir róða. Nei, það verður að byggja upp heildstæða bankaþjónustu, fjármálaþjónustu við landsmenn óháð því hvar þeir búa. Jafnframt verður sú starfsemi að taka þátt í þeirri samfélagslegu ábyrgð að styrkja sitt innra samfélag eins og aðrir. Við gerum kröfur, t.d. í sjávarútvegi, á að sjávarbyggðirnar njóti þess að búa sem næst auðlind sinni og fái ákveðinn forgang hvað það varðar. Allir verða þess vegna að bera þessa sameiginlegu ábyrgð. Þetta verður eins og keðjuverkun; ef Landsbankinn lokar á Súðavík og var þar í samstarfi við Íslandspóst um rekstur póstþjónustu, þá er sú þjónusta jafnframt í uppnámi. Aðrir aðilar sem þar höfðu komið saman og byggt upp ákveðna þjónustumiðstöð standa núna berari eftir. Hið sama getum við sagt í Grundarfirði þar sem um 90% af eldri borgurum höfðu sín viðskipti við Landsbankann. Nú er búið að loka honum. Eldri borgarar eru ekki á netinu á hverjum tíma til að sinna viðskiptum sínum þótt margir séu þar flinkir. Þetta verður keðjuverkun.

Ég beini þessu því til hæstv. fjármálaráðherra sem fer með hlutabréfið í Landsbankanum og ber þannig fyrir hönd okkar hér, Alþingis, ríkisstjórnar, ábyrgð á eigendastefnu bankans og hvernig hann framkvæmir hana. Þessi vinnubrögð og samfélagsábyrgð á ekki að þurfa að skrifa sérstaklega inn í eigendastefnu. Hún á að liggja ljós fyrir, hún á að vera hluti af þeirri vitund sem bankinn starfar eftir. Ég krefst þess að hæstv. fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að þessar lokanir Landsbankans um síðustu mánaðamót verði afturkallaðar og farið verði í skipulega vinnu um það hverjar eru forsendur fyrir breytingum og hverjar ekki og hverjar eru samfélagslegar skyldur viðkomandi banka á hverjum stað. Svona vinnubrögð eins og Landsbankinn hefur sýnt í þessum minni (Forseti hringir.) byggðum eru til skammar.