140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í eigendastefnu ríkisins um fjármálastofnanir segir, með leyfi forseta:

„Alþingi skilgreinir í lögum þátttöku ríkisins í rekstri fyrirtækja sem rekin eru sem sjálfstæðir lögaðilar, svo sem fjármálafyrirtæki, og veitir til þess nauðsynlegar lagaheimildir.“

Einmitt í þeim anda verður framkvæmdarvaldið að starfa, Alþingi setur lögin og eftir þeim verða ráðherrarnir að fara, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Um meðferð eignarhlutar ríkisins í fjármálastofnunum gilda sérlög, lög nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins. Samkvæmt þeim fer sú stofnun með eigendavald ríkisins í bönkunum þremur, auk fimm sparisjóða. Ákvarðanir Landsbanka Íslands eru á ábyrgð stjórnar þess banka og eru ekki bornar undir fjármálaráðherra. Því getur ráðherra ekki hampað sjálfum sér fyrir vinsælar ákvarðanir bankans og tekur heldur ekki á sig óvinsælar ákvarðanir hans. Svona vildum við sem mynduðum meiri hluta þingsins fyrir setningu þessara laga hafa það og ég tel enn að þessu valdi og ábyrgð sé best fyrirkomið með þessum hætti.

Við þurfum hins vegar stöðugt að vera á varðbergi gagnvart þjónustu á landsbyggðinni og bregðast við ef hún verður óásættanleg og meta hvort lögum eða stefnum þurfi að breyta í kjölfarið. Í september 2009 setti þáverandi fjármálaráðherra eigendastefnu fyrir fjármálastofnanir í eigu ríkisins. Þar er kveðið á um að bankar og fjármálastofnanir sem ríkið á eignarhlut í þjóni markvisst heimilum og fyrirtækjum í landinu en stjórnendum bankans falið það vald að framkvæma þá stefnu með nánari hætti.

Þáverandi fjármálaráðherra hafði fullt samráð við hv. efnahags- og viðskiptanefnd um setningu þessarar eigendastefnu. Frá nefndinni bárust formlegar athugasemdir sem að fullu var tekið tillit til.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hef ég sem ráðherra byggðamála falið Byggðastofnun að gera athugun á þróun og stöðu þeirrar þjónustu sem hér um ræðir og einnig að (Forseti hringir.) framkvæma greiningu á þjónustuþörf og á þeirri athugun verða byggðar ákvarðanir um hvort grípa þurfi til sérstakra aðgerða varðandi þetta.