140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu.

Það er munur á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum. Í stefnu Framsóknarflokksins er lagt til að á nýtingarsamninga í potti 1 verði lagt árlegt veiðigjald, svokölluð auðlindarenta. Nú hefur þingmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, komið fram og sagt að þessi auðlindarenta ætti að vera í samræmi við þær tillögur sem komu fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012, um 10–11 milljarðar.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í stefnu Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Ég held að það sé rétt að stjórnarandstaðan komi með tillögur sínar og leggi þær í púkkið, en ég hef ekkert heyrt frá sjálfstæðismönnum. Ég sakna þess svolítið. Reyndar sagði hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson að hann væri sammála þessari nálgun eins og ég skildi hann þótt hann treysti sér ekki til að tala fyrir hönd allra sjálfstæðismanna. Ef Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn í þessar breytingar, eru þá einhverjar aðrar sem hann er reiðubúinn að gera líka?

Ég held að málin séu einfaldlega komin í óefni vegna þess að það er hagur einhverra pólitískra afla að hafa þau í ágreiningi. Það var búið að lenda málinu í sáttanefndinni svokölluðu en af einhverjum ástæðum ákvað Samfylkingin og Vinstri grænir að skella málinu inn eins og það er í bullandi ágreiningi sem hefur leitt af sér borgarafundi víðs vegar (Forseti hringir.) um land.