140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held samt að sjálfstæðismenn ættu að setjast niður og ákveða hvar þeir setja sín mörk. Þegar hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom fram og setti sín mörk voru þau ekki eitthvað til að prútta um. Þau eru einfaldlega það sem við sættum okkur við og við erum ekki reiðubúin að teygja okkur eitthvað upp á við hvað það varðar.

Mér finnst sú taktík sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra beitir, að skella fram einhverjum óraunhæfum hugmyndum sem gera alla vitlausa og boðað er til borgarafunda víðs vegar um land, röng. Ég held að þetta séu gamaldags stjórnarhættir, gamaldags stjórnmál.

Ég verð samt að segja fyrir mína parta að ég sakna þess að Sjálfstæðisflokkurinn stígi fram og segi: Þetta viljum við — í staðinn fyrir að koma endalaust upp og segja: Við erum til í að skoða breytingar. Ég mundi vilja sjá stefnu þeirra. (Forseti hringir.) Við framsóknarmenn höfum lagt fram okkar stefnu og gefið höggstað á okkur, ég átta mig á því, (Forseti hringir.) en það er samt heiðarlegra en hitt.