140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að þegar núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var sett á laggirnar höfðu menn ekki rætt hugsanlegar afleiðingar sem slíkt kerfi gæti haft á byggðaþróun í landinu og að ýmsir gallar hefðu komið í ljós og sum sveitarfélög farið halloka. Ég orðaði það svo í ræðu minni að til þessara þátta yrði að líta þegar breyta ætti núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi. Ég er þeirrar skoðunar að ef við ætlum okkur að halda byggð í landinu þurfum við fyrst og fremst að ræða byggðaþróun samhliða fiskveiðistjórnarkerfinu en ekki fiskveiðistjórnarkerfið og síðan byggðaþróun vegna þess að þetta helst í hendur.

Það er ljóst að mörg sveitarfélög hafa farið halloka. Það er líka ljóst, eins og fram kemur í flestum umsögnum sveitarfélaga vítt og breitt um landið, að sveitarfélögin óttast að fyrirtækin á þessum svæðum geti ekki og muni ekki standa undir veiðigjaldi.

Hvað varðar það þegar hv. þingmaður spyr um forsendur Landsbankans fyrir því að loka útibúum er ég þeirrar skoðunar að í fyrsta lagi eigi ríkið ekki að eiga banka og í öðru lagi eigi stjórnvöld eða pólitískir aðilar ekki að skipta sér af rekstri fyrirtækja þó að þau séu í ríkiseigu. Hins vegar verða menn að ræða í heild sinni samhliða því að loka útibúum á landsbyggðinni, loka heilsugæslustöðvum, loka sjúkrahúsum og ganga fram með þeim hætti sem frumvörpin um fiskveiðistjórnarkerfið og veiðigjaldið segja til um hvernig þeir ganga að landsbyggðinni Það er önnur umræða sem ætti kannski að taka í sérstakri umræðu um byggðaþróun í landinu, hvernig við horfum til byggðanna og viljum sjá þær blómstra hverja á sinn hátt.

Það er ljóst að (Forseti hringir.) það felst ekki umhyggja í fiskveiðistjórnarkerfinu (Forseti hringir.) og veiðigjaldinu eða lokun útibúa vítt og breitt um landið.