140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur komið fram í umræðunni og m.a. hjá fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að veiðigjaldið rynni hugsanlega óskipt til samtaka sveitarfélaga eða til landsbyggðarinnar á nýjan leik. Margir hafa fjallað um að þetta sé hreinn og klár landsbyggðarskattur. Það gerði til að mynda núverandi hæstv. efnahags-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma þegar hann talaði um að veiðigjald sem rynni beint í ríkissjóð væri klárlega landsbyggðarskattur.

Nú hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að þetta veiðigjald renni á einhvern hátt til landsbyggðarinnar aftur, sé eyrnamerkt og fari hugsanlega til samtaka sveitarfélaga eða þeirra sveitarfélaga sem eru þar starfandi, til atvinnuþróunarverkefna á landsbyggðinni o.s.frv. Er hv. þingmaður fylgjandi slíku eða telur hann rétt að þetta gjald renni beint í ríkissjóð eins og núverandi frumvarp gerir ráð fyrir?