140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:18]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það var skoðað mjög rækilega. Það er ekkert sem bannar að tekjur af slíkri gjaldtöku sem þarna er um að ræða geti ekki runnið til sveitarfélaganna. Þetta var því fullkomlega innistæðulaus gagnrýni af hálfu fjármálaráðuneytisins í umsögn þess, en sýnir kannski í hnotskurn hvernig tengslin eru að slitna á milli stjórnsýslunnar sem staðsett er hér, ráðuneytanna, stofnana o.fl. — hvort sem það er ómeðvitað eða ekki — við grasrótina vítt og breitt um landið í samfélögunum og sjávarbyggðunum og við atvinnugreinarnar þar. Það er stöðugt að trosna sambandið og vitneskjan um hvað þar fer fram og hvaða hagsmunir brenna á fólki þar. Það kemur kannski hvað skýrast fram einmitt í þessu. Tillaga okkar hv. þm. Atla Gíslasonar er einmitt til að undirstrika að ef það verður af gjaldtöku (Forseti hringir.) á gjaldið að renna til viðkomandi sveitarfélaga.