140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fákeppni ríkir á íslenskum fjármálamarkaði. Hann var fákeppnismarkaður fyrir hrun en er það enn þá frekar eftir hrun. Þetta er mikið áhyggjuefni og spilar stóra rullu núna þegar við horfum upp á þau miklu umbrot sem hafa orðið í neti útibúa bankanna og sparisjóðanna allt í kringum landið. Þetta er ekki æskilegt ástand. Við þurfum fjölbreytni á bankamarkaði eins og annars staðar og slík fjölbreytni er ekki í neinni mótsögn við það að við viljum auðvitað öll að dregið sé úr kostnaði í bankakerfinu.

Það kom fram í ræðu Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, á málþingi um stöðu og framtíð sparisjóðanna þann 4. maí sl. að mikil samþjöppun, mæld á alþjóðlegan viðurkenndan mælikvarða, teljist vera fyrir hendi ef samþjöppunarstuðullinn mælist 1.800 stig. Fram að hruni var samþjöppunin hér á landi sem svaraði 2.000 stigum, núna er hún, á sama mælikvarða mæld, hins vegar rúmlega 3.000 stig, hefur sem sagt aukist um 50%. Þetta er mjög óæskileg þróun. Jafnvel þegar dreifing á fjármálamarkaði var miklu meiri en hún er núna komst Samkeppniseftirlitið að því að þrír stóru bankarnir þá, Landsbanki, Kaupþing og Glitnir, hefðu verið í markaðsráðandi stöðu, en hvað þá núna þegar samþjöppunin er orðin svona miklu meiri Við sjáum birtingarmyndina þegar þessir þrír bankar loka útibúum, t.d. úti á landsbyggðinni, eiga viðskiptavinirnir ekki miklar varnir, þeir eiga ekki í mörg önnur hús að venda. Nálægðin við þjónustuna hverfur, menn geta ekki snúið sér annað því að jafnvel þó að nútímabankaviðskipti fari æ meira í gegnum net og tölvur og grafi þannig má segja undan því neti útibúa sem við höfum búið við er það engu að síður svo að með lokun útibúa á landsbyggðinni sérstaklega hverfur sú nálægð þjónustunnar sem bankaútibúin hafa veitt. Það þýðir því ekki að ræða lokun einstakra útibúa og skerta þjónustu af þeim orsökum án þess að ræða samhengið og það er samhengið við þá fákeppnisaðstöðu sem er sífellt að verða samgrónari stöðunni á fjármálamarkaðnum.

Það hefur margt lagst á eitt og stuðlað að þessu. Að sjálfsögðu erum við fámenn þjóð og sérstaða okkar af þeim ástæðum og fleirum hefur vitaskuld sitt að segja, en stjórnvöld geta líka ráðið miklu og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Því miður, að mínu mati, hafa stjórnvöld beinlínis leitt þessa þróun vísvitandi eða óafvitandi. Þau hafa fremur stuðlað að fákeppninni en dregið úr henni. Hvað er þá átt við? Í fyrsta lagi hefur verið óstöðugleiki og óvissa í efnahagslífinu hér á landi. Gjaldeyrishöftin hafa gert erlend viðskipti erfiðari fyrir lítil fjármálafyrirtæki og þar með stuðlað að samþjöppun. Stjórnvöld hafa aukið regluverk og eftirlit. Það mælir enginn gegn eðlilegu eftirliti en við verðum að gæta þess að sveiflast ekki öfganna á milli, að við förum ekki í það vegna reynslunnar af bankahruninu að setja á laggirnar svo flókið og dýrt eftirlitskerfi að það verði beinlínis ofviða öðrum en stærstu leikendunum á þessum markaði. Með skipulegum hætti hefur kostnaður vegna eftirlits, trygginga og skatta verið stóraukinn. Bæði við síðustu fjárlagagerð og fjárlagagerðina þar á undan voru boðaðar stórauknar álögur á fjármálafyrirtæki. Það var örugglega talið vinsælt, fáir vorkenna fjármálafyrirtækjum að borga meira í ríkiskassann, en það var líka alveg ljóst að litlu fyrirtækin áttu erfiðara með að ráða við þennan aukna kostnað. Niðurstaða allra þeirra sem skoðuðu þetta á sínum tíma var að slíkar álögur legðust þyngra á ný og smærri fyrirtæki á fjármálamarkaði.

Nú eru stórar ákvarðanir fram undan, virðulegi forseti. Ríkissjóður fer með ráðandi eignarhlut í fimm sparisjóðum og getur því í krafti eignarhalds síns ráðið mjög miklu um framvinduna og hvernig fjármálamarkaðurinn mun þróast í þessu sambandi. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli hver áform ríkisstjórnarinnar eru varðandi sölu á eignarhlutunum í sparisjóðunum. Það er mín skoðun að strax eigi að útiloka að þessir sparisjóðir verði seldir til annarra fjármálastofnana, þar með talið stóru bankanna. Við eigum fremur að stuðla að því að sparisjóðirnir geti orðið að nýju öflugur valkostur og mótvægi á fjármálamarkaði og stuðlað þannig að virkri samkeppni.

Sparisjóðirnir sjálfir hafa uppi áform um sameiningar og rætt hefur verið um markaðssókn þeirra inn á höfuðborgarsvæðið að nýju, sem er ákaflega mikilvægt, en þar starfar nú enginn sparisjóður, ekki frekar en á Suðurnesjunum og ekki frekar en á svo mörgum landsvæðum núorðið. Því vil ég spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hver áformin séu í þessu sambandi, hvernig verði staðið að sölu á eignarhaldi ríkisins í sparisjóðunum og hvort hæstv. ráðherra telji að til greina komi að þeir verði ekki seldir stóru fjármálafyrirtækjunum.