140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu, hún er mjög þörf og gild. Ef við hefðum haft meiri tíma til að ræða þá skýrslu sem hér var dreift á dögunum um framtíðarfyrirkomulag í fjármálakerfinu hefði umræða um það auðvitað átt mjög vel heima undir þeim lið, um framtíðarskipan fjármálakerfisins.

Það er út af fyrir sig rétt að hér er fákeppni á þessum markaði en það er ekki nýtilkomið og hendur stjórnvalda voru nokkuð bundnar þegar hér féllu þrír bankar. Þeir voru endurreistir hver fyrir sig en það hefur síðan ekki breytt því að nokkrar minni fjármálastofnanir hafa horfið yfir móðuna miklu einfaldlega vegna þess að þær reyndust ekki lífvænlegar. Það var ekki metið svo að það væri verjandi eða réttlætanlegt að ráðstafa stórfelldum skattpeningum til þess að halda þeim gangandi, enda ljóst að þörf var á að hagræða í bankakerfinu og það var auðvitað stórkostlega ofvaxið íslensku efnahagslífi eins og það var árin áður en það hrundi.

Ef við lítum á markaðsstöðuna núna eru stóru bankarnir þrír mjög áþekkir hvað varðar innlán, hver um sig með um 30%, en þegar kemur að útlánum er Landsbankinn stærstur með um 37% en Arion og Íslandsbanki innan við 30%. Fjöldi starfsmanna hér á bak við viðskiptavini er talsvert minni en á öðrum Norðurlöndum og þegar kemur að fjölda útibúa og íbúa á bak við hvert útibú sker Ísland sig nokkuð úr en þó hefur orðið talsverð þróun hér eins og reyndar annars staðar frá því að það voru um 1.500 íbúar á bak við hvert útibú á árunum í kringum aldamótin því að þeir eru nú um 2.500. Þessi tala er hins vegar nær 4.000 að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Þetta geta hv. þingmenn lesið á bls. 100 og 101 í nefndri skýrslu og þar eru fróðlegar myndir um þetta mál.

Auðvitað hefur íslenskur fjármálamarkaður gengið í gegnum gríðarlegar breytingar. Hér voru um hálft sjöunda þúsund starfsmanna á þessum markaði í kringum aldamótin, fóru yfir 9 þúsund, um eða yfir 9 þúsund, og eru nú taldir vera um 8 þúsund í dag. Fækkunin hefur að sjálfsögðu orðið mest á höfuðborgarsvæðinu enda fjölgaði fólki mest á því svæði. Það er óumflýjanlegt að gera ráð fyrir því að þessar breytingar haldi áfram. Bankakerfið er yfirmannað í dag miðað við allar venjulegar þarfir fyrir þá þjónustu. Það skýrist auðvitað að hluta til af því að bankarnir eru enn að vinna úr hruninu og með talsvert af starfsmönnum sem bundnir eru í því.

Fyrir þinginu liggur frumvarp um sparisjóði sem ég tel ákaflega mikilvægt að Alþingi reyni að ljúka afgreiðslu á. Það er talið nauðsynlegt til þess að þeir geti treyst stöðu sína, verið vænlegur kostur fyrir nýja aðila að leggja þeim til stofnfé eða eigið fé, auk þess sem sú löggjöf er talin falla betur að séreðli sparisjóðanna og þörfum og þeir verði fyrst og fremst viðskiptabankar í hefðbundnum skilningi eða sparisjóðir í gamla andanum.

Frá sjónarhóli samkeppni á þessum markaði vil ég tala alveg skýrt í þeim efnum sem efnahags- og viðskiptaráðherra að ég tel mjög mikilvægt að sparisjóðirnir og einhver minni fjármálafyrirtæki hafi starfsgrundvöll þannig að við sitjum ekki uppi með þrjá stóra viðskiptabanka og ekkert annað.

Varðandi aðkomu ríkisins að þeim sem eiganda er mér ekki kunnugt um annað en að haldið sé við þær reglur sem mótaðar voru á sínum tíma í aðdraganda þess að ríkið lagði fé eða breytti kröfum í stofnfé í sparisjóðum. Það er einfaldlega þannig að það sem ríkið óskar sér að gera í þeim efnum er að stofnfjáreigendur fái þann hlut, leysi hann til sín, bæði þeir sem fyrir eru og nýir, til að byggja á nýjan leik upp öflugt stofnfjáreigendabakland fyrir sparisjóðina. Svo fremi sem grundvöllur sé fyrir rekstri þeirra og stuðningur og vilji sé til þess í heimabyggðum tel ég engan vafa leika á því að það er þetta sem ríkið á að reyna að laða fram og beita afli sínu til að gera.

Við horfumst auðvitað í augu við miklar breytingar einnig hvað tæknivæðinguna snertir eins og hér hefur komið fram og þá staðreynd að um 80% af hefðbundnum samskiptum viðskiptamanna við viðskiptabanka fara nú yfir netið. Það er mikilvægt að horfa til stöðunnar í hinum dreifðu byggðum. Þar tel ég að þeir aðilar sem þar geta leikið hlutverk eigi að tala saman og það sé mikilvægt að Íslandspóstur, fjármálastofnanir, sveitarfélög og jafnvel fleiri aðilar eins og ÁTVR eða lyfjafyrirtæki, mögulega almannatryggingar, skoði möguleikana á því að búa til stöðvar sem gera það kleift að hafa starfsemi sem víðast og bæta rekstrargrundvöllinn undir slíkum einingum þegar margir deila með sér kostnaði af húsnæði og öðru slíku. Mér hefur komið í hug sú hugmynd að Byggðastofnun taki forustu í því að reyna að laða menn til slíks samstarfs þar sem þörf er á.

Engu að síður er það þannig að við getum ekki ætlast til þess að fjármálafyrirtæki frekar en aðrir haldi til langframa úti starfsemi sem ekki (Forseti hringir.) er rekstrargrundvöllur fyrir. Við verðum að horfast raunsætt í augu við það (Forseti hringir.) að þessi starfsemi þarf auðvitað líka að vera rekin á hagkvæmniforsendum (Forseti hringir.) í þeim skilningi að menn séu ekki að borga meira fyrir þjónustuna en þörf krefur vegna þess að hún sé áberandi óhagkvæm.