140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:48]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg, þ.e. þróun mála á endurreistum fjármálamarkaði á Íslandi og sú staðreynd að fábreytni er meiri eftir hrun. Ég tel að það eigi sér tvær í sjálfu sér einfaldar skýringar. Í fyrsta lagi er meginskýringin á því að sparisjóðirnir hafa týnt tölunni augljós, þ.e. bankahrunið kippti grundvellinum undan rekstri flestra þeirra og pólitíska ábyrgðin á því er alveg skýr; í fanginu á þeim flokkum sem einkavæddu bankana fyrir réttum 10 árum. Hins vegar hefur útibúum fækkað út af því að landslagið í fjármálastarfseminni er allt annað en var fyrir nokkrum árum, 80% af öllum bankaviðskiptum fara núna í gegnum netið eða símann, heimsóknir í útibú eru margfalt færri en var og hét fyrir tíma heimabankavæðingarinnar.

Nýlegar hagræðingaraðgerðir Landsbanka Íslands hafa verið gagnrýndar af ýmsum innan þings sem utan og menn hafa höfðað til samfélagslegrar skyldu ríkisbankans. Ég tek það fram að ég skil vel reiði fólks í umræddum byggðum sem horfa fram á minnkaða þjónustu í heimabyggð. Það er sérstaklega kaldhæðnislegt í ljósi þess að Landsbankinn fór um landið fyrir nokkrum vikum og kynnti nýja stefnu um samfélagslega ábyrgð. Við verðum hins vegar að finna umræðunni réttan farveg hér í þinginu. Ég tel að sá farvegur sé í gegnum endurskoðun á eigendastefnu ríkisins gagnvart fjármálakerfinu. Við þurfum því að taka umræðuna um mismunandi skyldur ríkisbanka og einkabanka og hvernig við viljum að ríkisbankinn hagi sér þannig að það réttlæti eignarhald ríkisins í samkeppni við einkabankana.

Ríkisbanki getur gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki, t.d. við að aðstoða við endurreisn atvinnu- og efnahagslífs á krepputímum, veita fjármagn til nýsköpunar, styðja við bakið á frumkvöðlum og vaxtargreinum, leggja lið skuldugum heimilum í greiðsluvanda o.s.frv. Til þess að svo megi verða þarf eigendastefnan að vera skýr. Í henni þarf að vera afdráttarlaus leiðsögn um þær áherslur sem viðskiptabanki í almannaeigu þarf að fylgja til að sýna í verki samfélagslega ábyrgð.