140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Íslenskur fjármálamarkaður er fákeppnismarkaður. Hann var það líka fyrir hrun þegar þrír stærstu bankarnir höfðu um 73% markaðshlutdeild í innlánum. Á síðasta ári var þetta hlutfall þriggja stærstu bankanna orðið 94% og skýrist helst af því að sparisjóðirnir runnu inn í stóru bankana, SpKef, Byr og Spron, inn í Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka. Þetta er óhugnanlega hátt hlutfall og mikil samþjöppun hefur átt sér stað.

Ég vil í því sambandi vekja athygli á kafla 6.2 í hinni ágætu skýrslu hæstv. ráðherra hér um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Þar kemur fram, frú forseti, að í kjölfar fjármálakreppu fari umræðan oft að snúast um samruna og stækkun banka. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Fjölmargar hagrannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum bankasamruna. Niðurstaða þeirra flestra er að bankasamruni hafi ekki í för með sér aukna hagræðingu.“

Þar kemur einnig fram að eigendur ofmeti oft stærðarhagkvæmni eða telji auðveldara að takast á við niðurskurð í rekstri í kjölfar samruna. Einnig að hagræðingu megi ná fram með tæknilegum umbótum, með aukinni sjálfvirkni, með betri nýtingu mannauðs og, frú forseti, með endurskoðun útibúanets banka og sparisjóða og aukinni samvinnu á milli þeirra. Undir þetta vil ég sérstaklega taka.

Frú forseti. Við hrun var bankakerfið nær tíu sinnum stærra en verg landsframleiðsla okkar og allir eru sammála um að þá var bankakerfið allt of stórt. Trúlega er það enn of stórt þó að það sé nú orðið ekki nema tvöföld þjóðarframleiðsla.

Ég er þó ekki að segja að stærðin réttlæti nýlegar lokanir á sjö útibúum Landsbankans. Það er eðlilegt að það sé kallað eftir fleiri og fjölbreyttari bankastofnunum, en aðeins einn nýr aðili hefur komið inn á þennan markað í stað þeirra fjölmörgu sem hafa hætt.

Ég vil minna á frumvarp hæstv. ráðherra um sparisjóði, en það er athyglisverð tilraun til að endurfjármagna sparisjóðina og til að endurlífga sparisjóðakerfið. Ég hvet hv. þingheim til (Forseti hringir.) að samþykkja það.