140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Sú þróun sem er að verða í fjármálakerfinu er gríðarlega alvarleg, eins og hv. þingmaður lýsti hér. Einkum og sér í lagi er þetta mjög alvarlegt fyrir mörg smærri byggðarlög og nýlegar fréttir af lokunum útibúa Landsbankans eru mjög alvarleg tíðindi, og eins hvernig staðan og þróunin hefur verið varðandi málefni sparisjóðanna.

Ef menn skoða eigendastefnu ríkisins, til að mynda varðandi Landsbankann, kemur alveg skýrt fram að hluti af henni er að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði og fjölbreytni. Ég held að það sem þarna vanti sé að þeirri eigendastefnu sé í öllu fylgt.

Varðandi sparisjóðina af því að þeir voru til umræðu, m.a. hjá hæstv. ráðherra, þá fagna ég því að vilji sé til þess að stofnfjáreigendur fái að kaupa stofnfé ríkisins. Ég vil líka hvetja hæstv. ríkisstjórn til þess að taka málefni sparisjóðanna upp og fylgja því fast eftir. Það er gríðarlega mikilvægt að við, þingið og þjóðin, förum að huga að því hvernig við getum byggt upp sparisjóðina á nýjan leik út frá þeirri hugsun sem þeir voru upphaflega byggðir, út frá samvinnuforminu og þeirri hugsun sem sparisjóðirnir byggja á sem fjármálastofnanir í hefðbundnum bankaviðskiptum og með góðar tengingar við sín byggðarlög.

Ég held, sér í lagi í ljósi þessara frétta um Landsbankann og lítils vilja til að taka á því máli, m.a. hjá hæstv. ráðherra, fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn, að það sé gríðarlega mikilvægt að hraða allri uppbyggingu sem tengist sparisjóðunum og að þar sé hugað að samvinnuhugsjóninni sem sparisjóðakerfið á svo sannarlega að byggjast á og byggðist (Forseti hringir.) á þeirri hugsun í upphafi .