140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir málflutning hans og sérstaklega vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það viðhorf sem kom fram í hans máli áðan þegar hann sagði það stefnu sína að hann vildi að stofnfjáreigendur í sparisjóðunum úti um landið gætu átt þess kost að leysa til sín stofnfé ríkisins. Þetta er að mínu mati ákaflega mikilvæg yfirlýsing vegna þess að allt sem gert er núna í framhaldinu mun auðvitað miklu ráða um það hvernig við sjáum fjármálamarkaðinn þróast á komandi árum. Við getum auðvitað dvalið við fortíðina og við þurfum auðvitað að gera það í mjög mörgum tilvikum, en núna erum við einfaldlega í þeirri stöðu sem ég var að lýsa að hér er mikill fákeppnismarkaður og hér hefur orðið mikil samþjöppun. Helsta mótvægið gegn þeirri samþjöppun eru sparisjóðirnir. Þess vegna skiptir öllu máli hvernig staðið verður að sölu á stofnfé þeirra.

Sú staða getur nefnilega auðveldlega komið upp, ef ekki er hugað að þessu, að sparisjóðakerfið gufi hér endanlega upp, og fjármálafyrirtækin, sem eru sem betur fer ákaflega öflug fyrirtæki með mikið eigið fé og mikla fjárhagslega burði, eiga auðvitað mjög hægt um vik að eignast sparisjóðina úti um allt land og þá verður auðvitað til enn meiri fábreytni á okkar markaði.

Ég tel að sparisjóðirnir hafi verið að vinna mjög mikilvægt starf í gegnum tíðina. Ég tel líka að sparisjóðirnir hafi verið að svara kalli tímans með alls konar stefnumótunarvinnu sem þeir hafa verið að vinna, sem felur meðal annars í sér hugmyndir þeirra um frekari sameiningar til að geta stundað sína öflugu markaðssókn.

Ég tek jafnframt undir það með hæstv. ráðherra að það er nauðsynlegt núna þegar við horfum fram á það að bankaútibú eru að leggja upp laupana að við reynum að leita annarra lausna. Ég tek undir þá hugmynd að það verði athugað hvort hægt sé að steypa saman þjónustustofnunum á þessum svæðum til þess að efla þær. Ég tel til dæmis að það hafi verið mjög vel heppnað á sínum tíma þegar Íslandspóstur fór inn í afgreiðslur bankanna. Þá var því mótmælt mjög harðlega á Alþingi og reynt að gera það tortryggilegt. En ég ætla að fullyrða eitt að ef það hefði ekki gerst hefði þessum bankaútibúum úti um landið verið lokað miklu fyrr. Það kom (Forseti hringir.) mér satt að segja á óvart þegar Landsbankinn lokaði útibúum sínum úti um landið vegna þess að Landsbankinn hafði einmitt tekið yfir pósthúsaþjónustu Íslandsbanka og fékk hana á vissan hátt í arf þegar þeir (Forseti hringir.) eignuðust net sparisjóðanna úti um landið.