140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Jón Gunnarsson var með vangaveltur um það eða lét hálfpartinn að því liggja að ég hefði haft einhver afskipti af því hvernig nefndur fundur sem fram fór í hádeginu á vegum Brims með starfsmönnum sínum fór fram og mér var sérstaklega boðið að sækja þá er því fljótsvarað: Ég hafði að sjálfsögðu engin afskipti af því á nokkurn hátt. Ég þekktist fundarboðið af því að mér fannst það til fyrirmyndar hvernig þarna var staðið að málum, að vilji væri til að skiptast á skoðunum og taka rökræðu um þessi mál í stað þess að talast við með stóryrðum eftir atvikum héðan úr ræðustóli, í gegnum fjölmiðla, í gegnum áróðurs- og auglýsingaherferðir eða þrýstingsaðgerðir. Ég þekktist boðið ekki síst í virðingarskyni við starfsmenn og það hvernig stjórnendur fyrirtækisins stóðu þar að verki en hafði að sjálfsögðu engin afskipti af því hvernig þeir höguðu fundinum, það var allt í þeirra höndum.