140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru bara vangaveltur hjá mér um það hvernig þetta hefði verið til komið. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þessi fundur var að mörgu leyti til fyrirmyndar. Svona fundir hafa verið haldnir um allt land núna. Við fréttum af milli 400 og 500 manna fundi í Vestmannaeyjum í gær þar sem verkalýðsfólk og útgerðarmenn voru mjög einhuga. Ekki var annað að finna á þeim fundi sem við vorum á í dag en að mikill einhugur væri í fólki þar, starfsmönnum og vinnuveitendum. Þess vegna eru kannski ummæli margra þingmanna hér um ólögmæti þess að fyrirtæki ákveði að funda með starfsfólki sínu og leggja niður hefðbundna starfsemi á meðan mjög ómakleg. Ég get ekki séð hvað er ólöglegt við það að eitthvert fyrirtæki ákveði að taka starfsdaga með starfsmönnum sínum til að funda um mál þegar staðan er eins og nú. Ekki er hægt að flokka það undir annað en pólitískar yfirlýsingar frá Alþýðusambandinu hvernig það hefur svarað þessu.

Eitt fannst mér reyndar óheppilegt við fundinn í dag hjá Brimi og það var hve einhliða hann var. Þetta var umræðu- og samfundur starfsmanna fyrirtækisins og stjórnenda. Ég hringdi í forstjóra Brims í morgun og spurði hann hvort við fengjum ekki tækifæri til að segja þarna nokkur orð og hann sagðist ekki vilja að farið yrði í einhverjar pólitískar rökræður í ræðustól og ég skildi það. En að ég sem var boðinn á þennan opna fund skyldi ekki mega leggja eina einfalda spurningu fyrir hæstv. ráðherra þótti mér svolítið einlitt, ég verð að segja það, virðulegi forseti.

Hitt voru bara vangaveltur hjá mér um það hvort það hefði komið einhver ósk fram um slíkt og ég efast ekki um að ráðherra fari með rétt mál í því.