140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér annað af tveimur málum sem snúast um breytingar á sjávarútvegsmálunum, annars vegar um veiðigjaldið og hins vegar um hið svokallaða stóra frumvarp sem snýr kannski að enn frekari breytingum sem gætu að mínu mati og margra annarra haft mikil áhrif á getu útgerðarfyrirtækjanna til að greiða það auðlindagjald sem um ræðir.

Það hefur komið fram í atvinnuveganefnd að þær breytingartillögur sem sýnt hefur verið á af hálfu meiri hlutans eru mjög óverulegar og nánast engar. Það er líka rétt að fram komi að síðan í gærkvöldi hafa verið haldnir einhvers konar fundir á vegum hv. þingmanna, fulltrúa stjórnmálaflokkanna í hv. atvinnuveganefnd, um það hvort möguleiki sé að ná einhverri lendingu í því máli. Það er eðlileg krafa að upplýsingar liggi fyrir um afdrif þess máls þannig að umræðan um þessa gjaldtöku, þennan auðlindaskatt eða landsbyggðarskatt eins og ég vil kalla þetta, geti orðið eðlilegri og skynsamlegri.

Afleiðingarnar sem hitt frumvarpið hefur í för með sér geta orðið til þess að allmörg fyrirtæki sem eiga að standa undir því gjaldi sem hér er verið að fjalla um, gangi þær breytingar eftir, geti ekki staðið undir því. Þeir óháðu sérfræðingar sem farið hafa yfir málin hafa talið að nánast öll fyrirtækin færu á hausinn ef þetta gengi eftir og það hefur komið fram að þeir standa enn við þá niðurstöðu sína á meðan ekki hefði verið sýnt frekar á spilin í seinna málinu, þ.e. í hinu stóra frumvarpi um breytingar á stjórn fiskveiða.

Það er mikilvægt að rifja upp í þessari umræðu þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið og viðbrögð einstakra stjórnarþingmanna, sérstaklega hér í morgun, sem voru mjög ósmekkleg að mínu mati. Það varð niðurstaða þessara óháðu sérfræðinga sem fóru yfir tillögurnar og frumvörpin fyrir hv. atvinnuveganefnd, voru sérstaklega beðnir um það af hálfu hennar — ég ætla bara að vitna orðrétt í tvær setningar í áliti þeirra, þær eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það var mat höfunda að tilgangslaust væri að meta áhrif frumvarpsins í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki er líklegt til að standa undir þeim álögum.“

Það var ekkert flóknara en það. Síðan hefur verið kallað eftir því í þessari umræðu hvort einstaka hv. þingmenn í stjórnarflokkunum hafi gert athugasemdir við að frumvörpin væru lögð fram með þeim hætti sem gert hefur verið en enginn hefur gefið sig fram. Maður spyr sig að því hvers vegna hv. þingmenn stjórnarflokkanna skuli samþykkja að frumvörpin skuli lögð fram án þess að búið sé að meta áhrif þeirra á fyrirtækin og landsbyggðina og sjávarútvegsplássin.

Það er algjörlega klárt, og enginn hefur mótmælt því, að þessi skattlagning mun að sjálfsögðu hafa áhrif á fyrirtækin, hve mikil er auðvitað misjafnt eftir fyrirtækjum. Hugsanlega mun hún setja sum þeirra á hausinn en önnur ekki. Ekki er heldur um það deilt að þessi skattlagning mun hafa mikil áhrif á plássin sem byggja afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi. Um það er ekki deilt, en hversu mikil áhrifin verða er ekki vitað. Þau gætu orðið mjög alvarleg á mörgum stöðum.

Í frumvarpinu er verið að fanga það sem stjórnarliðar hafa kallað auðlindarentu, bæði í veiðum og vinnslu, og síðan á að setja það yfir á útgerðina. Þetta er dálítið flókið og erfitt viðfangsefni og ég ætlast til að menn taki það alvarlega. Eftir að frumvarpið fer til meðferðar í atvinnuveganefnd koma til grundvallarbreytingar í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn lagði til. Ég get svo sem sagt fyrir mitt leyti að ég tel þær flestar ef ekki allar til bóta. Það var algjörlega ófært að umræðan skyldi standa um það hvort þær álögur væru um 140% eða 70% eða 60% — menn voru að rífast um þær forsendur sem áttu að liggja fyrir til að reikna út gjaldstofninn og komust ekki að niðurstöðu. Auðvitað gat það aldrei gengið að menn kæmust ekki lengra í umræðunni en það. Ég fagna því að þessi sérfræðingahópur, veiðigjaldsnefnd heitir þetta nú, verði fenginn til að fara yfir og bæta þau gögn sem vinna á úr til að reyna að finna út hver hin svokallaða auðlindarenta er. Þegar sú vinna er búin og niðurstaða fæst ætlast maður til þess að ekki þurfi að rífast um að verið sé að reikna gjaldið út frá réttum grunni. Menn geta síðan haft ólíkar skoðanir á því hvað sé eðlileg arðsemi af fjárfestingunni og hve hátt gjaldið á að vera, það er allt annað mál.

Hér er líka lagt til af hálfu meiri hluta nefndarinnar að fallið sé frá þeirri vitleysu sem upphaflega var lagt af stað með. Fyrir fiskveiðiárið 2012–2013, sem byrjar 1. september í haust, er lagt til að annars vegar verði sérstakt veiðigjald á öll ígildi, svokölluð þorskígildi, en síðan verði aukagjald, sem er rúmar 29 kr. á þorskígildið í botnfiskveiðum og rúmar 33 kr. á hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum. Ég kallaði eftir því í fyrri ræðu minni hvort hv. atvinnuveganefnd hefði farið mjög ítarlega yfir svokallaða þorskígildisstuðla því að þeir eru nú ekki óskeikulir frekar en önnur mannanna verk. Hv. þm. Kristján L. Möller, formaður hv. atvinnuveganefndar, var með einhverjar bráðabirgðatölur sem hann hafði komist yfir um að svokölluð EBITDA í sjávarútveginum á árinu 2011 hefði verið um 75 milljarðar og þá á eftir að greiða vaxtakostnað og annað. Ég hef kallað eftir frekari skýringum á því, en ekki fengið þær enn, hvernig þetta skiptist til að mynda á milli útgerðarflokka þannig að menn geti gert sér grein fyrir hvað þetta þýðir. Ég vildi fá það fram í umræðunni hver væri ástæðan fyrir því að gjaldið væri ekki hið sama á uppsjávarveiðar og botnfiskveiðar, hvort það hefði verið skoðað nægilega vel í hv. atvinnuveganefnd. Ég fékk ekki skýr svör um það.

Við eigum hins vegar að vita það, öll sem hér erum inni, að afkoman getur verið gríðarlega mismunandi innan ákveðinna útgerðar- og vinnsluflokka. Við þekkjum til dæmis hinar gríðarlegu sveiflur í uppsjávarveiðunum þar sem stundum er lítil veiði og síðan alveg gríðarlega mikil. Á árinu 2011 og nú á árinu 2012 gerðust til að mynda mjög ánægjulegir hlutir þar sem makríllinn skilaði um 30 milljörðum í útflutningstekjur og síðan fengum við þessa gríðarlega stóru og góðu loðnuvertíð í vetur sem skilaði jafnmiklu.

Það er mjög mikilvægt, þegar menn ætla að reyna að fanga þetta auðlindagjald, að það verði ekki þannig að það hafi varanleg áhrif á fyrirtæki og muni skiptast misjafnlega niður á milli fyrirtækja. Menn hafa rætt í svörum og andsvörum um fund sem haldinn var í dag á vegum Brims, sem mér finnst til mikillar fyrirmyndar. Þar voru tekin tvö dæmi, reikningsdæmi sem félagið hafði skoðað sérstaklega út frá sinni útgerð og þekkti nákvæmlega. Upplýsingarnar komu beint frá því þannig að ekki var um neinar ágiskanir að ræða heldur var bara reiknaður út kostnaðurinn við að ná í ígildi í gulllaxi og síðan ígildi í makríl. Þá lagðist það þannig út hjá þessu fyrirtæki að í því tilviki sem verið var að veiða gulllax var auðlindarenta fyrirtækisins 172% en þegar fyrirtækið var að veiða makríl var auðlindarentan sem það fyrirtæki skilaði miðað við þorskígildisstuðlana 13,6%. Það er því gríðarlega mikilvægt að mjög vandlega sé skoðað að þorskígildisstuðlarnir séu réttir, að fyrirtækin sem sækja í viðkomandi tegundir greiði sannarlega það sem ætlunin er af hálfu stjórnvalda. Ef stjórnvöld ætla sér að ná í ákveðið hlutfall þarf það að vera í réttu hlutfalli við það sem gerist í einstaka tegundum.

Eftir þennan fund hef ég verið að hugsa hvort skynsamlegt væri fyrir hv. atvinnuveganefnd að færa bara út krónutöluna á ígildið. Ég er ekki viss um að það væri neitt afleitt. Ég hef reyndar hugsað þetta á hinn veginn, að náð væri í svokallaða auðlindarentu með öðrum hætti, en eftir að maður fer að skoða þorskígildisstuðlana, og ég hef gert það undanfarið, er klárlega mismunur þarna á milli. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort það væri ekki einnar messu virði fyrir hv. atvinnuveganefnd að skoða hvort hægt sé að meta þetta. Þorskígildisstuðull er reyndar fundinn þannig út að menn taka áætlað útflutningsverðmæti og síðan magnið sem veitt er og þá er hægt að finna út hvert ígildið í viðkomandi tegund er og þorskurinn er alltaf einn. Ef tegundin er verðmætari en þorskur fer stuðullinn upp fyrir einn og ef hún er minna verðmæt fer hann niður fyrir einn, bara í hlutfalli. Ég velti því fyrir mér hvort skynsamlegt sé að skoða þetta út frá þessum punkti og þá væri hugsanlega líka hvati í kerfinu, maður getur líka hugsað það þannig.

Þegar viðkomandi útgerð, alveg sama hver hún er, ætlar að fara að veiða ákveðna tegund — við skulum nefna makríl sem dæmi sem hægt er að gera mjög mikil verðmæti úr með því að frysta hann og einnig er hægt að gera mikil verðmæti úr honum með því að bræða hann. Ef fyrirtæki eða útgerð ætlar að veiða 1 kíló af makríl, af hverju borga þá bara ekki allir sama gjald fyrir kílóið? Er kannski einhver hugsunarvilla í þessu?

Ef menn veiða 1 kíló af makríl og vinna hann úti á sjó, á frystiskipi, er verið að selja afurðina eða kílóið á 250 kr. um það bil. Þá gildir svokallað hlutaskiptakerfi, eins og við vitum, gagnvart sjómönnunum, og þá koma gríðarlegar skatttekjur í ríkissjóð. En ef sama fyrirtæki veiðir til að mynda makríl og landar honum í vinnslu á kannski 40–50 kr., bræðir hann þar en fær kannski nettó sama út fyrir fyrirtækið þá er virðisaukann búinn til í gegnum bræðsluna. Þar af leiðandi er borgað miklu minna í beinum tekjuskatti í ríkissjóð. Ég hef verið að hugsa eftir umræðuna hér í gær hvort það geti líka verið hvetjandi fyrir þá sem eru að veiða að reyna að gera sem mest verðmæti úr hverju kílói, alveg sama hver tegundin er. Þegar menn hugsa um auðlindarentuna setja þeir uppsjávarskipin hér og síðan allar botnfiskveiðarnar til hliðar en það er spurning um hvort við eigum að fara þessa leið. Ég hef verið að hugsa þetta töluvert í dag og í gær, og reyndar oft áður, en af því að þessi mismunandi auðlindarenta blasir svona við manni, til dæmis af þessum tveimur tegundum, verður maður auðvitað hugsi yfir þessu.

Ég held að það væri einnar messu virði fyrir hv. atvinnuveganefnd að skoða þetta sérstaklega og ég hvatti til þess að nefndin skoðaði sérstaklega þorskígildisstuðlana, hvernig þeir mundu virka, út frá þessu. Það gefur augaleið að þegar menn leggja mismunandi gjald, svokallað sérstakt gjald, ekki grunngjaldið sem er 9,50 á alla, hljóta að vera einhverjar forsendur fyrir því af hverju það er gert þannig. Það hefur auðvitað blasað við mjög mikil skekkja í þorskígildisstuðlunum og sérstaklega þegar nýjar tegundir koma inn. Þær eru veiddar og síðan eru menn að þróa og vinna markaðina og þá getur það gerst að útflutningsverðmætið getur hækkað mjög fljótt þegar menn eru búnir að finna markaðinn og fara í þá vinnu sem því fylgir. Ég held því að það sé þess virði fyrir hv. atvinnuveganefnd að skoða þetta.

Annað sem snýr að því sem ég sagði áðan er að seinna frumvarpið mun hafa mjög mikil áhrif á getu viðkomandi fyrirtækja til að standa undir skattlagningunni. Æskilegt er að menn komi með þær upplýsingar inn í þingið og það er eðlileg krafa. Útilokað er að klára þá umræðu sem nú stendur fyrr en vitað er hvernig á að lenda því máli.

Ég ætla líka að halda því til haga að ég er sammála hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvað varðar þá vitlausu meðgjöf sem verið hefur í pottana. Það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig og hefur viðgengist áratugum saman, alveg frá því að kerfið var sett á. Það er undarlegt að þeir sem eiga aflahlutdeild í fjórum fisktegundum skuli einir borga í allar þessar hliðarráðstafanir í kerfinu, hvort heldur það er vegna línuívilnunar, strandveiða, byggðapotta, skel- og rækjubóta eða hvað þetta allt heitir. Þá er ekkert spurt að því hvort á sama tíma sé verið að auka pottinn og jafnvel verið að skera niður í þessum sömu heimildum, sem er auðvitað alveg vonlaus staða. Það ruglar töluvert hvernig greinin í heild sinni getur staðið undir þeim álögum sem verið er að leggja á hana. Að mínu viti er löngu tímabært að breyta þessu. Heiðarleg tilraun var gerð til þess í fyrra en margir börðust á móti því og náðu að setja það til hliðar, alla vega það árið, en auðvitað kemur það til baka aftur.

Það er lykilatriði að þetta verði leiðrétt. Þetta er algjört réttlætismál og ég hef nú stundum sagt, í fullri alvöru, við þá sem hafa skammast hvað mest við mig út af þessu, að kannski sé bara kominn tími til þess að þeir sem ekki hafa þurft að greiða í þessa potta hingað til, og kvarta mjög undan því að þurfa að taka þátt í því, geri það bara einir í svona 10–15 ár og létu þá aðila sem væru með hinar fisktegundirnar fjórar í friði á meðan. Hér er einungis verið að gera kröfu um að þeir komi að hluta til að greiðslu inn í þá potta sem þegar hafa verið settir fastir. Þetta er algjört réttlætismál að mínu mati. Oft er gott að halda því til haga sem menn eru sammála um, hvar sem þeir standa í pólitík.

Einnig hafa verið gerðar athugasemdir um að meta þurfi þetta út frá einstökum byggðarlögum. Ég get tekið undir það en ég vil hins vegar benda á að það hefur aldrei verið metið, eftir því sem ég best veit, af hálfu stjórnvalda á hverjum tíma hvað muni gerast þegar verið er að skera niður þorskkvótann, ýsukvótann eða steinbítinn á sama tíma og verið er að skaffa þessa meðgjöf inn í pottana. Hvaða áhrif hefur það á þá landshluta sem þar eru undir? Á þremur árum hefur ýsukvótinn verið minnkaður úr 105 þús. tonnum niður fyrir 50 þús. tonn, þetta hefur ekkert verið metið. En fyrir þá sem láta inn í pottinn eykst bara hlutfallið í prósentum talið af því að alltaf er fyrst tekið í pottinn en síðan úthlutað. Hann er óhreyfanlegur. Það stendur til að breyta því núna, sem er í samræmi við niðurstöðu sáttanefndarinnar og að mínu viti er rétt að gera það þannig.

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að farið verði mjög vandlega yfir þetta og seinna málið verði klárað áður en umræðu um þetta mál lýkur.