140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá góðu umræðu sem verið hefur um veiðigjaldafrumvarpið á undanliðnum dögum og tengt frumvarp sem stundum hefur verið kallað tvíburafrumvarpið og snýr að fiskveiðistjórnarmálinu. Að mestu leyti hefur mér fundist umræðan málefnaleg en þó hafa menn á stundum reynt að tala sig til andstöðu við meginefni málsins sem er kannski pólitísk þörf. Ef til vill vilja einhverjir tefja fyrir framgangi málsins og það er þá út af fyrir sig pólitísk aðferð til að hægja á þeirri breytingu sem unnið er að.

Fiskveiðistjórnarkerfið, sem hefur bráðum lifað í hálfan mannsaldur, hefur verið bitbein Íslendinga um áraraðir, áratugi. Nú er mál að linni og að sem flestir leggi í púkkið og myndi breiða sátt um þetta helsta lífsviðurværi íslensku þjóðarinnar. Hér þurfa ef til vill allir að gefa eitthvað eftir af ýtrustu kröfum sínum til að skapa sátt til langs tíma, breiða sátt sem lifir af þetta kjörtímabil og þau næstu.

Á sínum tíma var núverandi fiskveiðastjórnarkerfi komið á til að hægja á sókn Íslendinga í fiskstofnana hringinn í kringum landið. Þetta var í sjálfu sér nauðsynleg aðgerð til að sporna við ofveiði á Íslandsmiðum um langt árabil. Við komum á hinu svokallaða aflamarki byggðu á veiðireglu Hafrannsóknastofnunar sem kemur til ákvörðunar á hverju ári. Það var í sjálfu sér eðlilegt eftir sóknartíma fyrri ára að takmarka aðgang fiskiskipa að þessari auðlind ella hefði illa farið til allrar framtíðar.

Frú forseti. Skekkjan var hins vegar sú að byggja á þriggja ára veiðireynslu í kringum árin upp úr 1980. Það var auðvitað mjög umdeilt á sínum tíma að afmarka þetta við svo þröngan tíma og var í sjálfu sér ákveðinn happdrættisvinningur fyrir þá sem þá voru að veiðum. Með síðari tíma breytingum hafa þessir aðilar setið svo til einir að þessum stóru, miklu og gjöfulu kjötkötlum sem auðlind sjávar gefur og veitir þeim sem hana nýta.

Vandi kerfisins hefur í sjálfu sér ekki einvörðungu snúist um kvótakerfið sem slíkt, þ.e. að takmarka aðgang að auðlindinni, heldur hafa síðari tíma breytingar gert það að verkum að menn hafa getað fénýtt þessa þjóðarauðlind sér til framfæris. Í sjálfu sér hefur verið gerð ákveðin einkavæðing á þjóðarauðlindinni með varanlegu framsali. Ég var á sínum tíma mótfallinn því í þeirri mynd sem það blasti við þá og þó að framsalið sem slíkt hefði verið ákveðin hagræðingaraðgerð var andlag þeirrar aðgerðar til þess fallið að skapa það ósætti sem við búum við í samfélaginu í dag.

Vandi kerfisins, frú forseti, er fyrst og síðast sá að útgerðaraðilar geta á einni nóttu selt sig út úr greininni, hirt einir gróðann af henni, yfirgefið byggðarlagið og skilið það eftir í rúst atvinnulega séð. Það er meginmeinsemd þess kerfis sem við búum við í dag, ásamt því að framsalskerfið og reyndar fleiri þættir í kerfinu hafa gert að verkum að menn hafa ekki þurft að veiða það sem þeim hefur verið úthlutað heldur hafa þeir einfaldlega getað leigt meginhluta þess sem þeir hafa fengið úthlutað (Gripið fram í: Helming.) — helming, já, og þar af leiðandi búum við við kerfi þar sem leigumiðlun hefur verið byggð á þeim sem „eiga“ aflaheimildirnar en ekki þjóðarauðlindinni sem slíkri.

Kerfið hefur verið gagnrýnt harkalega, annars vegar fyrir þær sakir að menn hafa ekki þurft að veiða aflahlutdeild sína að stórum hluta heldur getað leigt hana til annarra aðila með þeirri verðmyndun sem í því felst og hins vegar að menn geta selt sig út úr greininni á einni nóttu og skilið eftir byggðarlög í atvinnulegri einsemd og eymd ef út í það er farið. Á þessu þarf að taka og á þessu er verið að taka með veiðgjaldafrumvarpinu og breytingum á stjórn fiskveiða í hinu fyrra frumvarpi sem er reyndar viðameira en veiðigjaldafrumvarpið.

Hvaða leiðir eru til sátta til að taka á þessum vanda kvótakerfisins? Þær hafa verið ræddar, ekki einu sinni, ekki tvisvar og ekki þrisvar heldur margoft. Leiðir til sátta hafa verið ræddar um langt árabil og má nefna að tvíhöfða nefndin tók til starfa 1993, auðlindanefndin í kringum aldamótin 1999/2000, endurskoðunarnefndin 2001 og síðan fiskveiðistjórnarnefndin 2009 undir forsæti Guðbjarts Hannessonar. Á liðlega 20 ára tímabili hafa menn freistað þess að ná sátt um fiskveiðistjórnarmálið. Út á hvað hafa þessar sáttatilraunir gengið? Þær hafa að meginhluta byggt á sömu niðurstöðum, allar þær nefndir sem hafa fjallað um endurskoðun á kerfinu frá 1993 og allar breytingartillögur sem hafa verið gerðar á kerfinu frá 1993, gildir einu hvaða stjórnmálaflokkar hafa setið við völd, hafa lotið sömu niðurstöðu um að það eigi að vera aflahlutdeildarkerfi og svokallað frjálst kerfi, að aflamarkinu sé skipt í tvo potta, að taka eigi upp auðlindagjald og afkomutengt gjald ásamt hinu fasta gjaldi. Samtals hafa 11 nefndir, ef ég man rétt, unnið að þessum breytingartillögum á 20 ára skeiði og alltaf hafa menn komist að svipaðri ef ekki sömu niðurstöðu. Þótt menn reyni að tala sig til andstöðu við breytingar og þótt menn reyni að tala fyrir óbreyttu kerfi hafa allar sérfræðinganefndir sem hafa komið að þessu máli á undanliðnum 20 árum komist að þeirri niðurstöðu að skipta eigi kerfinu í tvo potta, tvö kerfi, og taka upp auðlindagjald með einum eða öðrum hætti, afkomutengt gjald, ásamt hinu fasta gjaldi.

Munurinn á milli stjórnmálaflokka hefur verið minni en menn skyldu ætla af umræðunni um þetta mál á undanliðnum árum. Ég tel þann stóra greiningarmun á stefnumálum þriggja stærstu flokkanna sem hafa höndlað með þetta mál á síðustu árum og áratugum ekki vera fyrir hendi þegar kemur að útfærslunni á breyttu kerfi, þ.e. Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og má reyndar bæta Vinstri grænum við ef út í það er farið. Sjálfstæðismenn hafa sjálfir talað um það í þessum stól og víðar í samfélaginu að hóflegt veiðigjald kunni að vera á bilinu 10–12 milljarðar. Framsóknarmenn hafa verið á sömu nótum ef ég skil þá rétt. Hér erum við að tala um 15 milljarða kr. veiðigjald samkvæmt breytingartillögum við það frumvarp sem við fjöllum um hér í dag og höfum gert undanfarna daga. Munurinn er ekki stórkostlegur. Jafnvel LÍÚ hefur ljáð máls á því að taka upp aukið veiðigjald í skrifum sínum og stefnumálum og þegar kemur að hinum frjálsa potti hafa talsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna talað fyrir því að annar potturinn verði á að giska 12 þús. tonn á árlegum grunni en hér er verið að tala um 20 þús. tonna pott í stóra fiskveiðistjórnarmálinu. Meiningarmunurinn er því ekki eins og himinn og haf skilji menn að, jafnvel stjórnvöld og Landssamband íslenskra útvegsmanna, og allt tal um það að menn geti ekki náð saman um þetta mál er eingöngu til þess fallið að auka á ósætti, tefja málið og gera það að verkum að við náum ekki sátt um þetta stóra ef ekki stærsta hagsmunamál íslenskrar þjóðar, sem verður að mínu viti að takast í þetta skiptið.

Frú forseti. Hvað er hóflegt veiðigjald? Auðvitað greinir menn á um það og ef til vill útfærsluna líka, jafnvel sérfræðinga líka. Útgerðarmenn eru sammála því að koma á hóflegu veiðigjaldi. Landssamband íslenskra útvegsmanna er sammála því að taka upp aukið sérstakt veiðigjald. Formaður þess hefur talað fyrir því að taka rentu af hagnaði í greininni. Menn eru því á sömu blaðsíðu hvað það varðar. Útfærslan, tölurnar eru hins vegar það sem menn þurfa að setjast niður og ákveða. Það er vel framkvæmanlegt. Í pólitík eiga menn frekar að fjalla um sættir en ósætti og það held ég að sé vel hægt í þessu máli eins og mörgum öðrum hagsmunamálum þjóðarinnar.

Ég var ekki hrifinn af því veiðigjaldi sem fyrst var sett á í óbreyttu frumvarpi, ég taldi það úr hófi. Nú hefur komið fram breytingartillaga sem gerir ráð fyrir mun hóflegra gjaldi, 15 milljörðum. Hvað er það í hinu stóra samhengi þegar við erum að tala um að framlegðin í sjávarútvegi sé um þessar mundir 75–80 milljarðar? Þá erum við að tala um jafnvel innan við 20% af því sem greinin er að gefa af sér og við höldum inni ávöxtunarkröfunni allri.

Ef við horfum til þess sem best gerist í kapítalískasta ríki veraldar, sem væntanlega heitir Bandaríki Norður-Ameríku, sjáum við að framlegðin í helstu ágóðagreinunum þar, í drykkjarvörugeiranum og tóbaksiðnaðinum, er á bilinu 23–25% en hefur verið um 30% í íslenskum sjávarútvegi. Framlegðin í sjávarútvegi hér á landi er langtum meiri en í arðvænlegustu greinum hins kapítalíska ríkis Bandaríkjanna. Við þessar breytingar í sinni ýtrustu mynd færi framlegðin niður í 18% en verður sennilega meiri miðað við þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við þetta frumvarp þegar veiðigjaldið fer úr 24 milljörðum niður í 15. Við erum sem betur fer enn að sjá gríðarlega framlegð af íslenskum sjávarútvegi enda þótt við leggjum á þetta veiðigjald sem er orðið hóflegt að mínu viti.

Ef við þurfum að ná enn breiðari sátt um málið skulum við vinna okkur til niðurstöðu en veiðigjald sem er á bilinu 12–15 milljarðar er hóflegt miðað við núverandi stöðu. Við vitum það vel sem höfum talað um þetta mál á síðastliðnum dögum að þetta er sveiflugjald, það lagar sig að afkomu útgerðarinnar og tekur þess vegna tillit til árferðis og stöðu greinarinnar á hverjum tíma þannig að það fylgir einfaldlega framlegðinni.

Þetta er niðurstaðan þegar við ræðum um hið hóflega veiðigjald. Munurinn á milli stjórnmálaflokka er mun minni en orðræðan gefur til kynna og munurinn á milli hagsmunaaðila, LÍÚ og Landssambands smábátaeigenda annars vegar og stjórnvalda hins vegar, er mun minni en hefur verið látið í veðri vaka í umræðunni á undanliðnum vikum, mánuðum og jafnvel árum. Nú er því lag að komast að endanlegri sátt um þetta efni og leggja þennan ágreining til hliðar þessari mikilvægu atvinnugrein til farsældar. Hún þarf þá sátt sem um er rætt, hún þarf að gefa meira af sér til þjóðarinnar en hún gerir nú um stundir enda gerum við ráð fyrir einkaafnotum að gjöfulustu auðlind þjóðarinnar eins og hingað til. Það er óásættanlegt að greinin gefi ekki eðlilega rentu til þjóðarinnar umfram það sem hún gerir nú. Um það snýst sáttin. Það er svo önnur saga hvað við gerum við rentuna og hvert hún fer. Ég mun koma að því síðar í ræðu minni.

Við höfum í umfjölluninni um breytingar á veiðigjöldum fengið á fund okkar í hv. atvinnuveganefnd fjöldann allan af gestum og að mínu viti tekið tillit til margra ábendinga sem þar hafa komið fram. Það hefur verið ánægjulegt að vera á fundum með hagsmunaaðilum. Margir hafa sagt það hér í þessari pontu að ekkert hafi verið á þá hlustað og gagnrýnin hafi öll verið á einn veg, mjög neikvæð. Svo er ekki. Gagnrýnin hefur að mínu viti verið mjög málefnaleg, að vísu stundum gildishlaðin því að auðvitað reyna menn að verja sitt þegar mikið er í húfi.

Ég vil, frú forseti, til dæmis vekja athygli á umsögn sem ég tek ágætlega mikið mark á og er frá þeim sem bera hag launafólks fyrir brjósti sem er Alþýðusamband Íslands en það á mikilla hagsmuna að gæta í þessari grein. Umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál í heild sinni er ágætisvitnisburður um það sem koma skal. Í niðurstöðum umsagnar Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„Það að byggja auðlindarentuna sem hlutfall af framlegð að teknu tilliti til kostnaðar við fjárfestingar […] viðheldur hvatanum til að þróa og efla greinina.“

Síðar segir, frú forseti, að ef gjaldmiðillinn fellur niður fyrir langtímajafnvægi færi það umframverðmæti til þjóðarinnar en ekki fárra útgerðarmanna.

Enn segir að gagnvart fiskverkafólki og sjómönnum muni sérstaka gjaldið ekki koma í veg fyrir að launahlutfallið hækki.

Og aftur:

„Þrátt fyrir að eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna missi spón úr sínum aski […] mun afkoman í sjávarútvegi […] laða framtakssama atvinnurekendur að.“

Enn aftur segir:

„… sérstaka veiðigjaldið, auðlindagjaldið, sem hlutfall af framlegð tryggir þjóðinni réttmætan hlut í afrakstri auðlindarinnar, en stjórnvöld ofmeta umfangið vegna tímabundins veikleika krónunnar.“

Hér er um efnislega málefnalega gagnrýni frá Alþýðusambandi Íslands að ræða. Litið er á kosti og galla frumvarpsins og komist að þeirri niðurstöðu að áfram verði bullandi sókn í þessari atvinnugrein og hún geti vel tekið við auknu veiðigjaldi. Vel að merkja, kannski hittir Alþýðusambandið naglann á höfuðið í þeirri umsögn sem ég gat um áðan að umframverðmætin fari til þjóðarinnar en ekki fárra útgerðarmanna.

Kannski er það einmitt meginmeinsemdin sem verið hefur í kerfinu að einstaka útgerðir hafa auðgast stórkostlega, sem í sjálfu sér er nauðsynlegt og gott, en sá umframhagnaður sem er af einkaafnotum af þjóðarauðlindinni, sannkallaðri þjóðarauðlind, hefur ekki aukið fjölbreytni starfa úti á landi nema að takmörkuðu leyti heldur hefur hann farið í vasa örfárra sem hafa haft einkaafnot af þjóðarauðlindinni. Þar liggur meinsemdin.

Það má ekki vera svo að molarnir hrjóti af borðum örfárra til að efla íþróttafélög og styrkja karlakóra í byggðarlögunum hringinn í kringum landið heldur á umframrentan að fara í raunverulega uppbyggingu á innviðum og atvinnumöguleikum til að mæta afleiðingum núverandi kvótakerfis sem hefur á margan hátt aukið einhæfni í störfum úti á landi en ekki fjölbreytni starfa.

Mín pólitík er einfaldlega þessi: Ég vil sjá þessa þjóðarauðlind nýtast í meira mæli til almennrar uppbyggingar í innviðum, störfum og fjölbreytni starfa úti á landi í stað þess að auðurinn fari að mestu leyti í vasa örfárra manna sem geta eytt þeim peningum að vild í hvað eina sem þá lystir. Þetta er mín pólitík. Auðvitað greinir menn á um þetta. Sumir vilja að örfáir einstaklingar í hverju samfélagi auðgist mjög ríkulega og úr hófi fram á kostnað annarra, aðrir eru þeirrar skoðunar að kjör eigi að jafna betur yfir samfélagið. Ég er þeim megin í pólitík. Þess vegna tel ég að það sé afskaplega mikilvægt til sáttar í samfélaginu að breyta þessari einkavæðingu á þjóðarauðlind í þá stefnu að dreifa afkomunni betur um samfélagið, til sveitarfélaganna til uppbyggingar sem ákveðin er af samfélagi þeirra en ekki góðmennsku einstakra manna sem styrkja karlakóra eftir því sem þeim þykir henta. Þetta er mín pólitík.

Frú forseti. Við höfum á undanliðnum dögum fjallað um þetta frumvarp í hv. atvinnuveganefnd og gert margvíslegar breytingar á því eins og á gjaldinu sem við lækkuðum umtalsvert — ég og margir fleiri liðsmenn atvinnuveganefndar töldum það vera rétt og að sjálfsögðu enn fleiri þingmenn — og við aðlöguðum það veruleikanum, lengdum aðlögunarferlið. Allar breytingar hafa verið til lækkunar á álögum og annað eftir því. Auðvitað höfum við hlustað vandlega á þá sem hafa komið fyrir nefndina og tekið mark á því sem þar hefur komið fram. Eftir stendur að við erum að gera þá grundvallarbreytingu fyrir utan fastagjaldið að taka upp sérstakt veiðileyfagjald, sveiflugjald, sem færir umframarðinn, þegar tekið er tillit til ávöxtunarkröfu og annars kostnaðar og launa, betur til þjóðarinnar en gert hefur verið. Við erum að láta fleiri njóta arðsins af auðlindinni en verið hefur til þessa og það er mergurinn málsins.

Það er hins vegar álitamál hvernig á að koma þessum umframhagnaði til þjóðarinnar. Ég er fulltrúi landsbyggðarinnar á þingi og er oftsinnis eins og aðrir þingmenn úti á landi áminntur um að meginhluti af skatttekjum samfélagsins verði til úti á landi, sumir segja 2/3 hlutar, og að 2/3 hlutum sé svo eytt í Reykjavík sem hefur vitaskuld eðlilegar skýringar, þar er jú meginvirki heilbrigðisþjónustunnar, meginvirki menntunar og lista og annarra fjárfrekra potta sem ríkissjóður leggur til. Það verður hins vegar meira að sitja eftir úti í landi í uppbyggingu en gert hefur verið til þessa. Stundum hef ég í samtali mínu við kjósendur og íbúa úti á landi haft það á orði hvort ekki ætti að setja sérstakt auðlindagjald á íbúa höfuðborgarinnar fyrir þá auðlind sem þeir hafa betri aðgang að en aðrir landsmenn sem er öruggari aðgangur að bestu heilbrigðisþjónustunni, öruggari aðgangur að bestu menntun, öruggari aðgangur að bestu og mestu þjónustunni, betri og meiri aðgangur að bestu og hæstu og glæsilegustu menningunni — og síðast en ekki síst betri og öruggari og meiri aðgangur að fjölbreyttustu atvinnutækifærunum. Stærsta byggðaaðgerð Íslandssögunnar hefur einmitt verið sú að velja þessari starfsemi stað á nánast einu póstnúmeri og það má spyrja sig í öllu þessu samhengi hvort það sé ekki auðlind út af fyrir sig sem eigi að greiða fyrir. Það er gert víða um heim, eins og í Noregi og fleiri löndum sem jafna ekki kjör íbúanna bara eftir launum heldur líka eftir aðgangi að þjónustu og þar með töldum vörum.

Hér hefur verið lögð fram breytingartillaga um það að auðlindarentan, auðlindagjaldið, sérstaka gjaldið, skili sér til sveitarfélaganna að 40% hluta, 10% í sjóði og síðan helmingurinn til ríkissjóðs. Hv. þm. Jón Bjarnason og kollegi hans hv. þm. Atli Gíslason leggja þessa breytingartillögu fram og ég hef ákveðna samúð með því. Ég vil ekki sjá það verða að veruleika að auðlindarentan skili sér að stærstum hluta til þess hluta samfélagsins sem gerir minnst út. 87% af veiðiheimildum þjóðarinnar eru úti á landi, 13% í Reykjavík, og þegar svo er um hnútana búið að ákveðið er með tilteknum stjórnvaldsaðgerðum að búa til mestu fjölbreytnina í atvinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu á einum stað verður mestur hluti af auðlindarentunni að fara einmitt sem andlag út í byggðirnar til að efla þar fjölbreytni starfa og treysta þjónustu hins opinbera í hinum dreifðum byggðum hringinn í kringum landið þar sem gerðar eru kröfur til íbúanna að keyra jafnvel 400 km til að fara í mæðraskoðun, svo að dæmi sé tekið.

Skoða þarf mjög afgerandi og tilhlýðilega hvernig auðlindarentunni verður skilað aftur til þeirra byggða sem sannarlega þurfa á henni að halda og eiga hana skilið vegna þess að uppbygging opinberrar þjónustu hefur setið eftir úti á landi en verið í öndvegi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta má gera með ýmsum hætti. Sumir segja að sérstaka gjaldið eigi einfaldlega að fara til sveitarfélaganna, aðrir segja að sérstaka gjaldið eigi að fara að einhverju leyti til landshlutasamtakanna. Ég er ekkert endilega sammála því að það eigi að fara til samtaka sem hafa ekki lýðræðislegt umboð í sjálfu sér, sem eru landshlutasamtökin. Eðlilegra væri að það færi að einhverju leyti til sveitarfélaganna sjálfra, en þá benda menn á móti á að það eru til sveitarfélög sem eru landlukt og hafa ekki aðgang að sjó, eiga þau þá ekki að fá neitt? Þetta er útfærsluatriði sem þarf að skoða en aðalatriðið er, frú forseti, að það finnist lausn á þessu vegna þess að þetta gjald má ekki verða landsbyggðarskattur, það má ekki verða enn einn skatturinn sem að meginhluta verður til sem frumlag úti á landi en er að meginhluta eytt í höfuðborginni. Þetta er útfærsluatriði sem vonandi næst góð sátt um. Ég held að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi skilning á því að þessi gjaldstofn, sem að meginhluta er staðsettur úti á landi, fari að einhverju leyti til þeirra svæði, í innviði og til að auka fjölbreytni starfa.

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að fiskveiðistjórnarfrumvarpið sjálft hafi ekki þau áhrif á veiðigjaldafrumvarpið að það dragi úr arðsemi og hagkvæmni greinarinnar. Ég hef talað fyrir því að auðlindarentan geti aldrei skilað neinu að ráði nema arðsemi og hagkvæmni greinarinnar verði höfð að leiðarljósi enn um sinn og til framtíðar. Þess vegna verðum við að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar við komum að því að breyta innviðum aflahlutdeildarkerfisins og fara okkur hægar í uppbyggingu hinna frjálsu potta en þeir sem tala frekast fyrir þeim vilja. Það er ef til vill leið til frekari sáttar. Aflahlutdeildarkerfið tekur mið af aðstæðum hverju sinni og fer upp með auknum afla og niður með skornum afla. Ég tel að frjálsi potturinn eigi að lúta sömu lögmálum. Við búum jú við lífrænt kerfi og getum ekki sett inn eins konar hörð, þykk gólf sem viðtekið lögmál þess lífræna massa sem um ræðir í kerfinu. Eitt skal þar yfir alla ganga að mínu viti. Engu að síður er ég talsmaður þess að auka við leigupottinn frá því sem nú er, eða hinn frjálsa arm fiskveiðistjórnarkerfisins.

Við höfum á undanliðnum árum lagt töluvert af mörkum með byggðakvóta sem á sér nokkuð langa sögu og varð til af aflasamdrætti á sínum tíma, til að mæta honum. Eins höfum við farið út í aðrar aðgerðir. Sjálfstæðisflokkurinn var sá flokkur sem opnaði þetta kerfi að miklu leyti með þeirri umdeildu ákvörðun sem tekin var innan flokksins en margir sjálfstæðismenn guldu varhuga við því að fara í línuívilnunina. Hún jók mjög aðgang inn í hið svokallaða frjálsa kerfi, ef svo má nefna. Aðrar leiðir hafa verið farnar eins og strandveiðar á allra síðustu árum, skelbæturnar og ákvæði er lýtur að sérstökum fisktegundum. Allt hefur þetta verið gert til að koma til móts við þá sem eiga erfitt með að koma sér inn í greinina og vilja veiða og njóta auðlindarinnar í einhverjum mæli.

Það er í sjálfu sér óviðunandi að menn geti ekki komið sér inn í þessa grein með öðru móti en að kaupa sig inn í hana af þeim sem fyrir eru. Þannig gerast ekki kaupin á hinum frjálsa markaði að mínu viti. Ef ég ætlaði að opna blómabúð í næstu viku þyrfti ég ekki að byrja á því að kaupa mér einhvern ákveðinn hlut af þeim sem fyrir eru á markaðnum í blómabransanum. Ég einfaldlega leigði mér snoturt húsnæði og byrjaði rekstur án þess að þurfa að kaupa einhvern hlut af þeim sem fyrir eru í greininni. Eða hitt sem er álíka gagnrýnisvert, að leigja mér part úr hlutdeild annarra blómasölumanna á markaði. Þannig gerast ekki kaupin á hinum frjálsa markaði og eiga ekki að gerast, heldur er eðlilegt að menn í tilviki sjávarútvegsins leigi af þeim sem eiga sannarlega auðlindina en ekki af þeim sem telja sig eiga hana með sögulegum rétti.

Ég tel að það sé mjög eðlilegt að koma til móts við gagnrýni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í þessu efni og opna aðgang með eðlilegri verðmyndun með leigupottakerfinu. Mjög líklega má einfalda það kerfi. Sumir segja að það eigi bara að vera leigupottakerfi og annað ekki, leggja eigi niður strandveiðar og byggðakvóta og hvað þetta nú allt saman heitir og ef til vill línuívilnun, skelbætur og annað slíkt, en auðvitað verður samt sem áður að taka tillit til ákveðinna þátta í kerfinu þar sem aðstæður geta verið mjög misjafnar hringinn í kringum landið.

Við getum ekki talað um þetta kerfi sem eitt og hið sama þegar við annars vegar erum að fara örfáar mílur út á Breiðafjörðinn til að ná okkur í afla eða mörg hundruð sjómílur í færeyska lögsögu til að veiða kolmunna. Það eru mjög breytilegar aðstæður innan kerfisins þannig að auðvitað verðum við alltaf með sértækum aðferðum að taka tillit til sérstakra aðstæðna sem geta til dæmis verið gjörólíkar á Snæfellsnesi miðað við það sem er í Fjarðabyggð og allt öðruvísi í Vestmannaeyjum en á Vestfjörðum. Sértækar aðgerðar í þessu kerfi verða því alltaf til staðar. Þær hafa verið innleiddar af Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum, Samfylkingunni og væntanlega Framsóknarflokknum líka og verða til frambúðar vegna þess að við erum alltaf að taka tillit til þess lífræna massa sem er í sjónum og aðstæðna sem eru ríkjandi á hverjum stað. Það breytir ekki því að kerfið þarf að vera arðsamt og leita þarf hagkvæmni í öllum meginatriðum. Það hefur verið að gerast á síðustu árum.

Það verður ekki svo í framtíðinni að við gerum út í ríkulegum mæli frá öllum 65 höfnum landsins, frú forseti. Hagræðingin hvað sem stefnumálum stjórnmálaflokka líður mun fela það í sér að gert verður út í meira mæli frá færri stöðum, á stærri skipum og í stærri framleiðslueiningum. Nútíminn er einfaldlega að banka á dyr þessarar atvinnugreinar eins og annarra atvinnugreina og við munum ekki geta staðið í vegi fyrir þeim breytingum þó svo að við getum með hinu frjálsa kerfi að einhverju leyti komið til móts við ákveðna rómantík eins og felst í línuívilnuninni, sem eru grænar fiskveiðar og mjög atvinnuskapandi og veita beitningafólki víða um land mikla vinnu og smábátasjómönnum sömuleiðis. Þetta getur því farið saman en við megum ekki gleyma því að frumvörp eftir stefnu stjórnmálaflokka geta hamlað hagræðingu í greininni.

Frú forseti. Það er ýmislegt sem þarf að laga í þessum veiðigjaldamálum og fiskveiðistjórnarmálum. Ég nefni hér nokkur atriði. Ég tel að allir aðilar innan aflakerfisins eigi að borga sérstakt veiðigjald, ég tel óeðlilegt að undanskilja þar þá sem eru undir 70 eða 30 tonnum. Ég tel að það þurfi að skoða mjög vel hvaða vald við erum að framselja til veiðigjaldsnefndar. Ég tel að það þurfi að skoða mjög vel hverjir séu tengdir aðilar þegar við tökum tillit til skuldsetningar, þar með þeirra sem eru nýkaupendur í kvótakerfinu. Við þurfum að skoða einstefnulokann á milli kerfanna. Við viljum ekki með þessari breytingu gera að verkum að stórútgerðirnar leigi til sín það sem smábátarnir hafa úr að spila. Við þurfum líka að skoða hvernig menn komast út úr greininni. Það má ekki vera þannig að þeir komist bara með sínar skuldir út úr greininni. Það er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða mjög rækilega. Við þurfum líka að skoða hvernig við stækkum frjálsa pottinn til framtíðar og í hvaða hlutföllum og eins og ég gat um fyrr í ræðu minni hvernig við höldum samræminu í kerfinu þegar kemur að hlutdeildinni. Að síðustu þurfum við að skoða það, frú forseti, hvernig við skilyrðum þessi nýtingarleyfi vegna þess að ég tel að það sé ekki gert nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eins og samningum við launþega og að menn virði allan umhverfisrétt o.s.frv. ella geti þeir átt það á hættu að missa leyfið. Leyfi á að vera þannig að menn geti eðlilega fengið það (Forseti hringir.) en jafneðlilega misst það.

Frú forseti. Ég áskil mér rétt til að tala enn frekar um þetta mál og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá. Ég þakka fyrir.