140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góðar spurningar frá hv. þingmanni. Hann spyr um Jón og Gunnu og ég talaði einmitt um það í ræðu minni að ég vil ekki að þetta sé landsbyggðarskattur sem skili sér í hítina heldur fari með skilyrtum hætti aftur til þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Ég tala fyrir því og mun tala fyrir frekari breytingum í þá veruna og tel það eitt af Fhöfuðatriðunum í þessu máli.

Hvað varðar landsbyggðina að öðru leyti tel ég að það verði að huga að því að þessi renta skili sér með afgerandi hætti út á land enda er til hennar stofnað á því svæði.

Ég sé að tíminn er aftur að renna út, en varðandi framsalið hefur það líka verið gagnrýnt af stórútgerðinni. Ég minni á orð forstjóra Samherja sem hefur goldið varhuga við (Forseti hringir.) algjörlega frjálsu framsali og veðsetningu sem hann telur samkvæmt viðtali í Frjálsri verslun að hafi verið misnotað, svo ég vitni í það ágæta blað.