140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ræða hv. þingmanns olli mér töluverðum vonbrigðum. (Gripið fram í.) Ég staldraði sérstaklega við þær skattlagningarhugmyndir sem hv. þingmaður setti fram og endaði á því að tala um að leggja ætti auðlindagjald á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður ætlar að stoppa í þessu, hvort óskadraumurinn sé í rauninni sá að leggja gjald á alla Íslendinga fyrir að búa í landinu, því að mér virðast engin takmörk fyrir því hvert menn ætla að stefna í þeirri skattlagningu sem hér liggur fyrir.

Ég vil þó nefna eitt. Við þingmenn Norðausturkjördæmis vorum að fá bréf frá áhöfnum þriggja skipa í kjördæminu, Jóni Kjartanssyni SU 111, Aðalsteini Jónssyni SU 11 og Hafdísi SU 220. Áhafnirnar spyrja einfaldlega þessarar spurningar og ég ætla að biðja hv. þingmann að svara henni: Er það félagslegt réttlæti og nýliðun að hafa af okkur atvinnu og gefa til þeirra sem sumir hafa selt sig út úr kerfinu allt að þrisvar sinnum en veiða nú frítt í boði ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta?