140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég hjó eftir því að í ræðunni talaði hv. þingmaður um fyrst um framsalsvandann, eins og hann kallaði það, þar sem er verið að selja eða leigja kvóta. Þingmaðurinn talaði um að veiðigjaldinu væri ætlað að taka á framsalsvandanum bæði hvað varðar leigu og varanlega framsalið. Má ég biðja hv. þingmann um að útskýra aðeins á hvaða hátt hækkun á veiðigjaldi mun taka á þessum vanda og hvernig það getur leitt til þess að framsalið minnki eða hverfi bæði hvað varðar leigu og varanlegt framsal?