140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að það væri sýn hans að veiðileyfagjaldið mundi efla og styrkja landsbyggðina. Ég verð nú að segja að miðað við þær raddir sem heyrast af landsbyggðinni hafa þær fremur verið í þá átt að þarna sé um landsbyggðarskatt að ræða og er ekki á bætandi miðað við reynslu af sitjandi ríkisstjórn í heilbrigðismálum, löggæslumálum og niðurskurði til þessara málaflokka.

Mig langaði að fá hv. þingmann til þess að útskýra það aðeins hvernig hann telji að milljarðaskattlagning á fyrirtæki á einstökum svæðum sé liður í því að styrkja landsbyggðina, því að þær sveitarstjórnir sem hafa tjáð sig um málið og þær eru svo sannarlega ekki stjórnarandstöðusveitarstjórnir eingöngu, (Forseti hringir.) hafa komist að hinu gagnstæða og mikill meiri hluti íbúa á þessum svæðum líka. Mig langaði því að fá hv. þingmann til þess að útskýra hvernig hann telji (Forseti hringir.) að þetta muni styrkja landsbyggðina.