140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það skal ég með glöðu geði gera. Ég tel að aukið sérstakt veiðileyfagjald sé réttlætanlegt vegna þess að umframhagnaðurinn af einkaafnotum til langs tíma af þessari gjöfulu þjóðarauðlind hefur ekki skilað sér með eðlilegum hætti. Ég tel, og það er mín pólitíska sýn á málið, að umframhagnaðurinn eigi ekki að rata í vasa örfárra manna heldur fremur til samfélagsins alls.

Núverandi kerfi gerir ráð fyrir því að umframhagnaðurinn af kerfinu rati í vasa örfárra manna með ákveðinni einkavæðingu á þessu fiskveiðistjórnarkerfi en ekki sjálfkrafa til samfélagsins, þannig að veiðigjaldið að mínu viti á að skila sér betur til (Forseti hringir.) sveitarfélaganna en núverandi kerfi. Ég trúi því að við deilum þeirri pólitísku sýn, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og ég, að samfélagið eigi að (Forseti hringir.) njóta meira af þessum arði en einstaka menn.