140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal svara þessu andsvari með glöðu geði. Ég vil minna á það að við niðurskurð vegna hrunsins, mesta niðurskurð sem farið hefur verið í á lýðveldistímanum í ríkisfjármálum, var 600 manns sagt upp í hinum opinbera geira. Það var lítið brot af því sem gerðist úti á hinum almenna vinnumarkaði, þannig að ríkisstjórnin hlífði einmitt opinberum störfum hringinn í kringum landið, en 37% aukning varð á tíu síðustu árunum í opinbera geiranum hvað störf varðar. (Gripið fram í: Úti á landi?) Meðal annars úti á landi.

Ég tel einfaldlega og segi það enn og aftur að það eigi að vera eðlileg renta af þessari gjöfulu þjóðarauðlind, rentan verður ekki eðlileg nema hún renni til samfélagsins frekar en einstakra manna. Auðvitað er það svo að sveitarfélögin reyna að verja sín fyrirtæki. (Forseti hringir.) en hvernig skilar framlegðin og umframhagnaðurinn sér í þessum fyrirtækjum út til samfélagsins? Á hann ekki frekar að fara til samfélagsins en (Forseti hringir.) með duttlungum til einstakra manna? Þetta er þjóðarauðlind. Hún á að skila sér til þjóðarinnar en ekki í vasa þeirra sem hafa einkarétt á henni allri.