140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þrjú nefndarálit frá hv. atvinnuveganefnd og nokkrar breytingartillögur sem hafa komið inn, bæði frá meiri hluta hv. atvinnuveganefndar og frá einstökum þingmönnum.

Ég hef áður kvartað undan því að við séum að ræða skattlagningu á rentu eða arð af sjávarútvegi, en sú renta eða arður hlýtur að vera mjög háð því hvernig starfsumhverfi greinarinnar er. Því er stórlega breytt með því frumvarpi sem er í hv. atvinnuveganefnd, til dæmis er framsal takmarkað allverulega, frú forseti, og bannað eftir 20 ár. Það frumvarp býr til mikið óöryggi í greininni vegna þess að þar er sagt að menn hafi 20 ár til að vinna. Eftir fimm ár eru 15 ár eftir. Eftir tíu ár eru tíu ár eftir. Árið 2032 nálgast eins og dómsdagur. Að reka fyrirtæki með svoleiðis hangandi yfir sér þýðir að menn hafa mjög litla trú til framtíðar vegna þess að 20 ár eru í augum einstaklinga og jafnvel fyrirtækja ekki eilífð. Ég hef hins vegar lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að þessu yrði dreift á 40 ár og þá erum við farin að nálgast eilífðina í hugum einstaklinga og fyrirtækja, en kannski ekki í huga þjóðar, alls ekki.

Ég ætla að ræða hér á eftir um skattafræði og verð á brauði, frú forseti, en fyrst um nefndarálit meiri hlutans. Í því er gerð tilraun til að mæta þeirri miklu gagnrýni sem hefur komið á þetta frumvarp. Þar segir til dæmis, með leyfi frú forseta:

„Að mati meiri hlutans er óþarft að fjalla nánar um það markmið að baki álagningu almenns veiðigjalds að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu.“

Ég tel að til dæmis fiskvinnslan eigi að vera utan við þetta, því að hún tengist í raun ekki auðlindarentu. Spurningin er sú hvort aðilar sem stunda einhverja atvinnugrein eigi að sjá um eftirlit með henni og borga eftirlit með sjálfum sér og rannsóknir. Það er álitamál. Mér skilst að aðilar Landssambands útgerðarmanna hafi lagt til að þeir tækju þetta bara að sér, það séu hagsmunir þeirra að auðlindin sé rannsökuð og ég held menn ættu að skoða það frekar.

Það er nokkuð sem er hættulegt við þetta og þá ætla ég að koma inn á skattafræði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt veiðigjald verði 8 kr. Síðan í breytingartillögum meiri hlutans er þetta fasta gjald sem allir greiða hækkað og verður 9,5 kr. Þessi fasti kostnaður er hækkaður um 20%. En hann er stórhættulegur. Við höfðum einu sinni fyrir langa löngu hér á Íslandi skatt, aðstöðugjald, sem var 1% af veltu fyrirtækja og var þar ekki tekið tillit til afkomu. Þetta gjald tekur ekki tillit til afkomu. Það er 9,5 kr. að tillögu meiri hluta nefndarinnar og tekur ekki tillit til afkomu greinarinnar og getur virkað skelfilega ef afkoman er slæm eða jafnvel neikvæð og getur valdið því að rústa atvinnugreininni þegar verst lætur.

Svona skattlagning er mjög hættuleg og það sýndi sig á sínum tíma hér á landi. Svo var aðstöðugjald aflagt sem betur fer.

Hinn skatturinn er 70% af tekjum umfram vexti og ýmis gjöld, reyndar eru vextirnir lækkaðir. Ég á eftir að fara í gegnum það hvernig þetta frumvarp allt er eins konar sovétfrumvarp, þess vegna ætla ég að ræða um verð á brauði, frú forseti. Þegar búið er að reikna alla gjaldaliði, ávöxtun og rekstur, olíukostnað, laun og annað slíkt, skal 70% af rentunni eða afgangnum renna til ríkisins. Þegar um er að ræða sveiflukenndar atvinnugreinar eins og frumvarpið ber með sér er þetta hættulegt. Greinin er mjög sveiflukennd ef maður lítur aftur í tímann. Inn í afkomu greinarinnar kemur til dæmis gengið á íslensku krónunni. Þegar það fellur mikið, ef maður lítur í raun á þetta með evruaugum, lækka allir launaliðirnir nema hlutur sjómanna sem er gengistryggður. Laun sjómanna eru gengistryggð, en allur annar kostnaður innlendur fellur. Þannig batnar afkoma greinarinnar allverulega þegar gengið fellur. Þá er spurningin: Er virkilega meiningin að halda genginu svona lágu? Ef gengið batnar, hækkar, til hagsbóta fyrir íslensk heimili almennt, því þau hafa borið af þessu kostnaðinn, versnar hagur atvinnugreinarinnar. Hann hefur verið mjög sveiflukenndur í gegnum tíðina, mjög sveiflukenndur.

Þá er það spurningin: Hvað gerist í grein sem er mjög sveiflukennd og að meðaltali kemst ágætlega af? Þegar mikill hagnaður er er myndaður varasjóður eða greiddar upp skuldir, síðan þegar harðnar á dalnum nota menn varasjóðinn til að borga taprekstur og geta þannig lifað af mjög erfiða tíma. Þannig ætti góður rekstur að vera. Hann er reyndar ekki alltaf svo. Menn eyða og bruðla þegar vel gengur og svo eiga þeir ekkert til þegar illa gengur. Það er ekki góður rekstur og við eigum ekki að miða við slíkt.

Ef ríkið af græðgi sinni tekur með skattlagningu 70% af hagnaðinum þegar vel gengur og skilur ekkert eftir, þá getur verið að greinin í heild sinni fari mjög illa þegar tap verður á rekstrinum, t.d. ef gengið styrkist, ef verð lækkar í útlöndum, ef óáran tekur á sig mynd í Evrópusambandinu, til dæmis ef evran lendir í einhverjum áföllum sem er stór hætta á, þarf greinin að taka á sig áföll. En þá er ekkert eftir því ríkið er búið að taka 70% af hagnaðinum. Það er einmitt þetta sem er svo stórhættulegt þegar menn skattleggja of mikið. 70% er ansi mikið.

Í nefndaráliti meiri hlutans er farið ítarlega í gegnum þetta og ég verð að segja að þetta nefndarálit er mjög gott, það er til dæmis ítarlega farið í gegnum vandamálið um muninn á milli skatts og leigu. Þeir sem skrifa álitið komast að þeirri niðurstöðu að þeir verði að skilgreina þetta gjald sem skatt. Þá er spurningin hver leggur skattinn á, hver ákvarðar skattinn. Ég fellst ekki á það sem þeir segja hér að með litlum breytingum sé í rauninni búið að koma í veg fyrir að um framsal skattlagningarvalds sé að ræða. Ég held að eftir sem áður sé um framseljanlegt skattlagningarvald að ræða sem ekki er heimilt, auk þess sem álagningarvaldið, þ.e. hver ákveður hvað eigi að greiða, er sömuleiðis ekki í lagi. Þannig að hvort tveggja er ekki nægilega gott. Þeir benda reyndar á, vegna þeirrar gagnrýni að þetta sé afturvirk skattlagning, að frumvarpið taki gildi 1. september nk. og það sé miðað við kvótaárið sem þá taki gildi. En það er miðað við reynslu fyrir tveimur árum þannig að menn geta í raun ekki brugðist við. Það eru engin dökk teikn á lofti núna en ég er ansi hræddur um að eitthvað mjög slæmt gæti gerst sem gerði það að verkum að greinin stæði frammi fyrir mjög miklum áföllum og fyrirtæki gætu séð fram á að þau yrðu fyrir miklu tapi. Samt eru þau að greiða gjald miðað við hagnaðinn fyrir tveimur, þremur árum. Þetta held ég að geti verið mjög skaðlegt. Menn áttu auðvitað að vinna mikið betur að því að færa skattlagningartímann nær í tíma.

Meiri hlutinn tekur sem sagt á þessu og reynir að laga það, en ég tel að honum hafi ekki tekist það.

Í álitinu er rætt um lögveðið. Margir lánveitendur eru að uppgötva það sér til hrellings að veð halda ekki vegna þess að löggjafinn er búinn að setja ýmsar kröfur, t.d. varðandi byggingar, skatta á fasteignir og annað slíkt sem er lögveð á undan öðru veði og getur þannig eyðilagt andlag lánveitingar eftir á. Þetta þýðir náttúrlega að lánveitendur verða mjög tortryggnir og passa sig á því að lána ekki til slíkra. Í frumvarpinu er lögveð tekið í skipi fyrir greiðslu veiðigjalds en það getur gert það að verkum að mjög erfitt getur verið fyrir menn að fá lán út á skip sem þeir ætla að kaupa. Kannski er það allt í lagi fyrir stóru útgerðirnar sem eru moldríkar og með mikið eigið fé, en það getur verið mjög erfitt fyrir menn sem ætla að byrja í greininni og verða að fá lán út á skip en fá það ekki vegna þess að það er hætta á lögveði inn á skipið. Þeir fá þá ekki lánveitingu. Menn treysta ekki rekstri hjá þeim sem eru nýbyrjaðir og þetta getur leitt til þess að nýliðun verði mjög erfið í þessari grein. Þannig vinnur þetta frumvarp á margan hátt gegn nýliðun og því sem allir eru að tala um á góðum dögum að það þurfi að gera ungum mönnum kleift að koma inn í greinina. Þetta ákvæði um lögveð vinnur gegn því.

Síðan er rætt um áhrif á landsbyggðina. Ég kom inn á það í andsvari áðan að vöxtur ríkisvaldsins er að mestu leyti í Reykjavík. Vöxtur ríkisvaldsins undanfarna áratugi og hálfa öld eða lengur, hefur leitt til þess að mannfjöldi streymir til Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins en fólki fækkar að sama skapi úti á landi. Eftir því sem ríkisvaldið vex meira, þeim mun erfiðara á landsbyggðin uppdráttar. Hún þarf að sækja allt sitt til ríkisvaldsins. Hingað koma sveitarstjórnir í ferðalög og beiðast þessa eða hins, vilja fá sjúkrahús eða vegi eða eitthvað slíkt. Vöxtur ríkisvaldsins hefur skaðað landsbyggðina mjög mikið.

Með þessu frumvarpi er verið að auka enn vöxt ríkisins. Menn gera það undir því loðna yfirskini að það sé verið að gera eitthvað fyrir þjóðina. Þá kem ég nefnilega inn á það sem er mitt uppáhaldsmál, sem er munur á ríki og þjóð.

Í sumum ríkjum eru tvær þjóðir. Ég nefni Belgíu, þar eru Vallónar og Flæmingjar og sums staðar í heiminum er sama þjóðin í mörgum ríkjum eins og Kúrdar í Tyrklandi og víðar þar sem er sama þjóðin í mörgum ríkjum. Það er því ekki samasemmerki á milli ríkis og þjóðar. Svo má auk þess rökstyðja að í Kína séu mjög margar þjóðir ef við skilgreinum þjóð sem fólk sem talar sama tungumálið. Kínverjar skilja ekki hver annan nema þeir tali sameiginlegt tungumál sem er mandarín. Þannig að ríki og þjóð eru ekki endilega það sama og sérstaklega ekki í þessu dæmi því hverjir munu fara með þetta veiðigjald? Hverjir munu ráðstafa því? Það er ríkisstjórnin eða meiri hluti Alþingis sem eru stjórnmálamenn. Það er búið að taka skatt af öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi og dæla honum til Reykjavíkur, þar er honum dreift náðarsamlegast eftir alls konar öðrum sjónarmiðum heldur en þeim sjónarmiðum sem Jón og Gunna mundu hafa ef þau ættu þetta fé.

Þess vegna held ég að menn þurfi að skoða miklu nánar muninn á ríki og þjóð. Þegar þeir eru að ota þjóðinni fyrir sig og segja að fiskstofnar við strendur Íslands séu sameign þjóðarinnar, eru þeir í rauninni að nota hugtakið þjóð og sameign til að koma á skattlagningu á alla greinina sem rennur svo til ríkisins og fer bara í hítina. Þetta er það sem mönnum hefur ekki tekist að leysa og ég sé ekki að það leysist neitt með þessu.

Síðan er hér farið yfir ýmsar athugasemdir. Það er farið í gegnum athugasemdir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Deloitte ehf. og farið vel í gegnum muninn á afstöðu þessara aðila.

Hv. meiri hluti atvinnuveganefndar segir að ekki hafi verið sýnt fram á að veiðigjöld frumvarpsins séu almennt of há. Þá held ég að menn séu dálítið mikið fastir í núverandi stöðu. Sjávarútvegurinn hefur undanfarin tvö, þrjú ár búið við óvenjulega stöðu, óvenjulega góða stöðu. Það er vegna þess að gengi krónunnar er mjög lágt skráð, frú forseti. Ég ætla að vona að það verði ekki svona lágt skráð til framtíðar vegna þess að þá verður staða heimilanna áfram bágborin. Ég held að það vilji menn ekki, við væntum þess að krónan styrkist og þá verður staða sjávarútvegsins aftur ekki eins góð. Verð á matvælum, þar með sjávarafurðum, er einnig mjög hátt sem stendur og kaupmáttur er mjög mikill víða um heim, t.d. í Evrópusambandinu þangað sem við flytjum út gífurlega mikið af fiski. Þetta hefur haldið verðinu uppi. Ég reikna ekki með að eftirspurn eftir matvælum minnki í heiminum af því að Kínverjar og Indverjar eru farnir að borða, en í löndum þeirra var áður hungursneyð. Þeir flytja inn mikið af matvælum. En staðan í þeim löndum, sérstaklega Kína, er orðin dálítið hæpin, hún er ekki jafnörugg og blómleg og hún var. Og staðan í Evrópusambandinu er mjög hættuleg eins og ég gat um áðan. Ef eftirspurnin eftir sjávarafurðum lækkar mikið getur það haft mjög skaðleg áhrif á útflutninginn og afkomu greinarinnar, það getur orðið til þess að veiðigjöldin sem þarna á að leggja á, sérstaklega fasta veiðigjaldið 9,5 kr., verði mjög skaðleg, frú forseti, og greinin standi hreinlega ekki undir því.

Síðan er hér farið í gegnum athugasemdir Daða Más Kristóferssonar og Stefáns G. Gunnlaugssonar um sveiflurnar í gengi krónunnar og gengi sjávarútvegsfyrirtækja. Meiri hlutinn leggur ekki mikla áherslu á það.

Mér finnst í öllu þessu máli, og það ætla ég að ræða áður en ég fer að ræða um verðið á brauði, að hóparnir sem styðja það að taka auðlindarentuna af útgerðarmönnum með þessum hætti og hinna sem vilja fara varlega og jafnvel ekki gera neitt, sem ég er ekki alveg sáttur við, talist bara ekki við. Það virðist vera að þegar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn semur svona frumvörp sé hreinlega ekki rætt við þá aðila sem eru gerendur í greininni, útgerðarmennina sjálfa. Það finnst mér ekki nógu sniðugt.

Sumir hafa talað um það hvernig þessi verðmæti verða til, um auðlindir og hvar mörkin liggi. Hvar stoppum við með auðlindirnar? Ætla menn að skattleggja hitaveiturnar? Á Sauðárkrókur að fara að borga gífurlega mikið af því hann er með alveg sérstaklega hagkvæma hitaveitu? Hvert á hann að borga? Á Reykjavík að fara að borga fyrir heita vatnið? Eiga sveitarfélög þar sem eru raforkufyrirtæki að fara að borga? Og sveitarfélög sem hvorki hafa sjávarútveg, raforku né hitaveitu, ég nefni Vík í Mýrdal, frú forseti, mér skilst að hún hafi ekkert af þessum auðlindum, ætti hún ekki að fá rentuna til sín af því að hún nýtur þess ekki í neinu?

Svo hafa menn bent á það að grasið á túnum getur verið mjög mikil auðlind. Það er einmitt þannig í Mýrdalnum. Þannig að það kynni að vera að menn færu að skattleggja bændur fyrir nýtingu á túnum. Ég veit ekki hvar menn ætla að stoppa. Menn hafa reyndar ekki talað um þá auðlind sem ég hef talað um sem eru rafsegulbylgjur. Á þeim eru náttúrulegar takmarkanir. Rafsegulbylgjur eru mikið notaðar til að þjónusta síma og tölvur og net, þær eru eðlilega takmarkaðar og ríkið úthlutar þeim og við það myndast verðmæti sem er auðlind. Kolefnislosun hef ég líka nefnt sem auðlind.

Allar þessar auðlindir byggja á mannauði. Menn virðast gleyma því. Fyrir 100 árum var sjávarútvegur ekki nein auðlind á Íslandi. Íslendingar voru sárafátækir þannig að þetta getur ekki hafa verið auðlind. Við Íslandsstrendur fórst fjöldi sjómanna á hverju ári, því miður. Sem betur fer hefur sú staða gjörbreyst. Árið 2008 var fyrsta árið sem enginn sjómaður fórst, þá hættum við að borga það verð fyrir auðlindina. Það stafar hins vegar af því að verkfræðingar, tæknifræðingar og góðir iðnaðarmenn hafa byggt skip sem eru orðin nánast örugg. Tækni hefur fleygt fram varðandi staðsetningu, fjarskipti og allt slíkt. Mannauðurinn hefur gert það að verkum að sjávarútvegurinn er orðinn auðlind. Hann var það ekki áður. Áður gátu Íslendingar ekki veitt upp fiskinn úr miðunum en núna geta þeir það auðveldlega, ef ekki væri takmörkun.

Sama er að segja um orkuverin, áður fyrr voru jökulárnar til bölvunar. Þetta hef ég svo sem sagt áður og er farinn að endurtaka mig. Jökulárnar voru til bölvunar áður en þær voru brúaðar með mannviti, mannauði, það voru verkfræðingar, iðnaðarmenn og aðrir slíkir sem brúuðu jökulárnar. Síðan komu þessar miklu virkjanir. Kárahnjúkavirkjun er verkfræðilegt undur, það er aðallega mannauðurinn sem er þar að verki auk fjármagns sem byggir líka á mannauði, því að það þarf mannauð til þess að skapa mikil og stór lán. Þannig að allar þessar auðlindir byggja á mannauði. Menn þurfa að hafa það í huga.

Menn verða síðan að átta sig á því að það er takmörkunin sem býr til verðmæti. Til dæmis búum við flestöll í húsum og aðgangurinn að þessum húsum er takmarkaður, mjög verulega. Eignarrétturinn segir að sá einn sem á húsið megi fara inn í það óboðinn. Það þarf sérstaka heimild dómara til að rannsóknarmenn geti farið inn á heimili manns. Þannig að aðgangurinn að heimilinu er takmarkaður og þar með er eignarrétturinn orðinn mjög sterkur, þá myndast verðmæti. Ef allir gætu vaðið inn í húsið og notað það eins og þeir vildu, væru engin verðmæti fólgin í því að eiga hús, húseigandinn gæti ekki einu sinni gist í því sjálfur.

Það er takmörkunin sem býr til auðlegðina og takmörkun felst í því að þeir sem vilja byrja að nýta hana þurfa að borga einhverjum öðrum sem fer út. Í því felst auðlegðin og auðlegðarrentan.

Vandamálið við þessi frumvörp öll eru vinstri stimpillinn á þeim. Það er ekki einu sinni vinstri stimpill, þetta er sovétstimpill. Þá fer ég að tala um verðið á brauði.

Í þessu frumvarpi er meira að segja talað um að það eigi að vera 8 og 10% ávöxtunarkrafa í sjávarútvegi. Einhverjir menn í ráðuneytinu eru farnir að víla og díla um það, frú forseti, hvaða ávöxtunarkrafa eigi að vera í ákveðinni atvinnugrein. Hæstv. fjármálaráðherra spurði mig að því hérna hvaða ávöxtunarkröfu ég mundi sætta mig við. Þá sagði ég: Jú, ef ég væri í einhverju sovétkerfi og þyrfti að taka ákvörðun um þetta mundi ég segja að hún ætti að vera um 11% að lágmarki.

Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn og aðrir, á ekki að ákveða ávöxtunarkröfu í einni atvinnugrein, það er fáránlegt. Á sama hátt á hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon ekki að ákveða verð á brauði.

Verð á brauði myndast í fyrirbæri sem er kallað markaður. Það er markaðurinn sem ákveður að verð á brauði skuli vera 260 kr., en ekki eitthvað annað. Ef einhver reynir að selja brauð á 5.000 kr. …

(Forseti (UBK): Nú vill forseti óska eftir því að hv. þingmaður fari að finni hentugan stað í ræðu sinni til að gera hlé.)

Já, ég hugsa að ég biðji um það núna, vegna þess að verð á brauði er nefnilega undirstaðan að því sem ég ætla að tala um. Ég ætla þá að byrja á því þegar þessu matarhléi er lokið.