140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki endilega tröllatrú á markaði heldur hef ég trú á því að markaðurinn sé besta tækið til að leysa t.d. vandamál varðandi verðlagningu og búa til ódýra vöru. Þess vegna erum við með Samkeppniseftirlit. Þess vegna höfum við samkeppni. Ég held að allir hv. þingmenn séu meira og minna sammála þessu, nema kannski helst vinstri grænir, ég veit það ekki. Hv. þm. Samfylkingarinnar eru held ég örugglega sammála því að markaður og samkeppni eigi að gilda. Það er því undarlegt að sjá þetta frumvarp sem er alveg þvert á þá hugmyndafræði nánast í öllum greinum. Hv. þingmenn ætla meira að segja að ákveða ávöxtunarkröfu á ákveðna atvinnugrein, sem er alveg út í hött. Það er háð framboði og eftirspurn og markaðsvöxtum og áhættuvöxtum og öðru slíku.

Varðandi það að menn fari tilviljanakennt og velji sér stað, það hefur gerst. Það sem spilar mjög sterkt inn í þetta er ættjarðarást og átthagatengsl eða átthagavilji. Þetta gerir það að verkum að útgerðin vinnur að mörgu leyti ekkert með arðsemi í huga.

Ég skrifaði einu sinni grein um það af hverju útgerðin vildi ekki græða. Af hverju leigja menn ekki frá sér þann kvóta sem þeir geta leigt, helminginn, á því verði sem bauðst og tvöfalda eða þrefalda hagnaðinn? Menn gerðu það ekki. Það hugsa ég að sé vegna þessara átthagatengsla en líka vegna þess sem ég vona að sé ekki rétt, að menn hafi bundist samtökum um að halda verðinu á kvótanum uppi til að það lækkaði ekki óeðlilega mikið því að þá kæmi samkeppni frá nýliðum og veðhæfni fyrirtækisins gæti líka verið í voða.