140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég óttast að hv. þingmaður klikki kannski helst á er að meta átthagatengslin til verðmæta. Þau eru töluvert mikils virði. Það er mikils virði fyrir fólk að geta búið í þorpi eða bæ sem það ber miklar tilfinningar til og starfað þar áfram. Í því liggja raunveruleg verðmæti þótt ef til vill sé erfitt að reikna þau í excel-skjali.

Ég ætla að halda áfram með það sem ég kom inn á síðari hluta fyrra andsvars sem er hversu skökk þessi umræða er. Að hluta til virðist það vera vegna þess að þeir sem um þessi mál fjalla, a.m.k. af hálfu stjórnarmeirihlutans, virðast ekki gera sér grein fyrir grundvallaratriðum þeirrar atvinnugreinar sem hér er til umfjöllunar.

Ég nefni eitt dæmi: Mikilvægi þess fyrir samfélagið allt að sem hæst verð fáist fyrir íslenskar sjávarafurðir. Allir eru meira og minna sammála um það held ég að sjávarauðlindin sé ein sú mikilvægasta og verðmætasta sem Íslendingar hafa yfir að ráða, en þá ættu menn líka að vera sammála um að mikilvægt sé að fá sem hæst verð fyrir þessa auðlind.

Eins og kerfið hefur verið byggt upp, þ.e. með því að gefa fyrirtækjunum tækifæri á að skipuleggja sig og vinna afurðir sínar á þann hátt að þær skili sem hagkvæmustu verði, hefur verð á íslenskum sjávarafurðum stöðugt farið hækkandi og er líklega það hæsta í heimi núna, þ.e. íslenskar sjávarafurðir gefa hærra verð en til að mynda norskar, danskar eða frá Síle eða Kína eða einhvers staðar annars staðar. Það eru raunveruleg verðmæti sem skila sér til þjóðarinnar allrar. (Forseti hringir.) Þannig að ef menn eyðileggja þennan möguleika kerfisins geta þeir eyðilagt möguleika þess að skapa verðmæti fyrir þjóðina.