140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann gat um 500 manna fund í Vestmannaeyjum. Þeir voru með ályktun. Ég vil spyrja hann: Getur verið að á 500 manna fundi í Vestmannaeyjum, sem er yfir 10% af íbúafjöldanum, sé verið að gæta sérhagsmuna og hverra þá? Útgerðarinnar í Vestmannaeyjum? Eða hvernig lítur hv. þingmaður á slíkan fund kjósenda og fund sem ályktar svo?

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann því að við erum að ræða hérna frumvarpið um auðlindagjald. Það kemur fram í því frumvarpi að afkoman er afskaplega sveiflukennd. Hún er sum árin engin, 2004 held ég að hafi verið árið sem afkoman eða tekjurnar voru engar. Þetta sveiflast af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess að gengi og fiskverð sveiflast og mjög margt kemur inn í það, olíuverð o.s.frv. Í fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin samþykkti um daginn er gert ráð fyrir því að út úr þessu auðlindagjaldi komi að minnsta kosti 17 milljarðar. Það er sem sagt búið að ráðstafa peningum af þessu gjaldi sem við erum að ræða og er ætlunin að skapa atvinnu, en á sama tíma á það að leggjast á fyrirtæki sem eru þegar búin að tilkynna að þau muni bregðast við með því að skera niður atvinnu. Í rauninni er þetta ekkert annað en að hræra í sama pottinum, það er verið að skapa atvinnu á einum stað og skerða hana á öðrum. Svo eru forsendurnar þær að það gangi nú glimrandi vel í greininni þannig að hún geti borgað þetta auðlegðargjald.