140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta var mjög athyglisvert vegna þess að það er hjalað á góðum stundum um stöðu heimilanna og hún er að miklu leyti tengd genginu, þ.e. þegar gengi krónunnar er lágt hækkar verð á öllum vörum, bleium jafnt sem eplum og bensíni, og heimilin hafa það slæmt. Það er mjög slæmt ef það er eins og hv. þingmaður getur um að forsenda þessara áætlana sé að gengið haldist lélegt.

Hv. þingmaður talaði líka í ræðu sinni um markaðinn og markaðssetningu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann því að mér hefur stundum fundist að ekki sé mikil samkeppni í greininni í dag og hafi ekki verið undanfarin ár: Er hv. þingmaður sama sinnis, að það sé ekki mikill sveigjanleiki eða markaðsvæðing í greininni í dag? Getur verið að núverandi kvótakerfi hafi einhverjar hömlur innbyggðar gegn því að afli fari t.d. á markað eða menn leigi frá sér kvóta sem er skynsamlegt að gera? Getur verið að einhverjir innbyggðir ættjarðarhömlur séu á stjórnum útgerðarfyrirtækja?

Varðandi sveiflukennda afkomu og fjárfestingaráætlun gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að skapa störf á einum endanum með því að valda fækkun starfa á hinum endanum. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sammála því að þetta sé reyndin þegar upp er staðið?