140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Grundvöllur þeirrar skattlagningar sem við erum að ræða hér virðist vera sá að um sé að ræða einhvers konar ríkiseign, þjóðareign, og því eigi að taka umframgjöld af þessari atvinnugrein, meiri gjöld en tekin eru með almennri skattlagningu á aðra atvinnustarfsemi. Það er þess vegna rétt að rifja aðeins upp hvernig það kerfi sem við búum nú við varð til og hvers vegna það varð til. Staðan var sú að það voru augljóslega allt of mörg skip á Íslandsmiðum. Það voru allt of margar fiskvinnslustöðvar til að vinna þann afla sem barst á land þannig að afrakstrinum af auðlindinni var sóað í ríkum mæli. Menn stóðu frammi fyrir því að þetta gæti ekki gengið svona áfram. Það lá fyrir að bregðast þyrfti við með því að draga úr afla og að greinin gæti ekki með nokkru móti staðið undir slíku miðað við þann fjölda skipa og fiskvinnslustöðva sem þá var. Þetta var rekstrarumhverfið.

Tap á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, aðgerðir ríkisvaldsins til að mæta því tapi og aðstoða greinina, áhrif stöðu sjávarútvegsins á gengi íslensku krónunnar — allir þessir þættir gerðu það að verkum að hin mikla auðlind í hafinu nýttist þjóðinni ekki sem skyldi, heldur var hún þvert á móti farin að kosta fjármuni úr ríkissjóði.

Hugsunin á bak við aflamarkskerfið var þessi: Með því að úthluta aflamarki til þeirra sem þá voru í greininni við veiðar og höfðu að baki rekstrarsögu var verið að senda eftirfarandi skilaboð:

Þeir sem vilja halda áfram rekstri í þessari atvinnugrein verða að nota þá fjármuni sem þeir mynda meðal annars til þess að kaupa þá út úr greininni sem ætla sér að hætta og geta ekki staðið í rekstri. Þá spyrja menn: Var það ekki óréttlátt, hefðu þær greiðslur, þeir fjármunir sem fóru til þessara manna, ekki átt að renna í ríkissjóð? Svarið er nei. Vegna þess að með því að koma hlutunum svona fyrir gátu þeir sem urðu að hætta útgerð og fiskvinnslu, í það minnsta upp að vissu marki og margir alveg, komið í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja sinna því að þeir gátu greitt birgjum sínum og lánardrottnum almennt upp í kröfur og þannig farið út úr greininni. Með öðrum orðum, hinn skuldsetti íslenski sjávarútvegur sem var í rekstrartapi breyttist þannig að afkoma batnaði og stór hluti þeirrar afkomu var nýttur til þess að gera upp rekstur þeirra fyrirtækja sem hurfu út úr greininni.

Vissulega eru til dæmi, virðulegur forseti, um að einstakir útgerðarmenn hafi staðið vel og ákveðið að selja aflaheimildir sínar og þannig farið út úr greininni. En rétt er hafa það líka í huga að framan af var verðið á aflaheimildum ekki mjög hátt vegna þess að arðsemin var einfaldlega ekki nægjanleg í greininni. Það tók tíma frá því að aflamarkskerfið var sett upp þar til greinin fór að skila meiri arðsemi og gat staðið undir hærra verði á aflaheimildum.

Þetta er alveg nauðsynlegt að hafa í huga, virðulegi forseti, þegar við veltum fyrir okkur þeirri spurningu hversu sanngjarnt þetta kerfi er sem við búum við af því það er svo gjarnan haft á orði og jafnvel hrópað að það sé svo ósanngjarnt og eitthvað verði að gera til þess að breyta því.

Ég held að þegar menn líta til þessarar sögu sjái þeir að þessi þróun, þessi atburðarás, var þjóðinni til heilla. Það hefði ekki verið gott fyrir íslensku þjóðina ef til dæmis hefði verið tekin sú ákvörðun að einungis hluti af þeim sem stunduðu útgerð á þeim árum sem kvótakerfið var tekið upp fengi að halda áfram og aðrir yrðu að hætta og yrðu þar með gjaldþrota. Því á hverjum hefðu þau gjaldþrot lent? Vissulega á birgjum slíkra fyrirtækja, vélsmiðjum, netagerðum og öðrum slíkum þjónustuaðilum, en einna helst hefðu þau lent á opinberum lánastofnunum, Landsbankanum, Útvegsbankanum, Fiskveiðasjóði Íslands og öðrum lánastofnunum sem voru í eigu ríkisins og höfðu lánað inn í þessa grein. Þessar lánastofnanir gátu fengið til sín greiðslur vegna þess að þeir sem voru að hætta í greininni fengu greitt fyrir veiðiheimildir sínar. Auðvitað er þetta flókin saga og margbrotin og hægt að finna fjölmörg dæmi um mismunandi afgreiðslu þessara mála, en svona er heildarmyndin, virðulegi forseti.

Ég er þess vegna ekki sammála þeirri hugsun að leggja eigi á einhvers konar auðlindagjald á þeim grundvelli að gefin hafi verið einhver verðmæti frá ríkinu til einstaklinga, þau hafi verið veitt endurgjaldslaust. Ég tel að sú hugsun sé ekki rétt og standist ekki nána skoðun.

Eins ber að hafa það í huga að langstærsti hluti þeirra sem eru nú í þessari atvinnugrein hefur keypt til sín stóran hluta aflaheimilda sinna. Það er því ekki hægt að leggja gjald á þá sem nú þegar eru farnir út og hafa selt frá sér aflaheimildir sínar. Hitt, sem er engu að síður líka mikilvægt, er að afli hefur dregist mjög saman, einkum og sér í lagi þorskafli. Þeir sem keyptu til dæmis aflaheimildir þegar þorskveiðin var mun meiri en hún hefur verið á síðustu árum, hafa mátt sæta verulegri skerðingu. Vissulega er sú áhætta fólgin í verðlagningu á aflamarkinu. Sá sem kaupir til sín kvóta veit að það er möguleiki á því að annaðhvort verði dregið úr kvótanum og þar með minnki verðmætið sem viðkomandi rekstraraðili hefur milli handanna, eða að afli aukist. Þetta endurspeglast auðvitað í verðinu. Það er samt sem áður nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hafa þetta í huga þegar menn velta fyrir sér þeirri spurningu hvort eitthvað hafi verið gefið.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að ég mundi í þessari ræðu víkja nokkuð að stöðu landsbyggðarinnar. Þegar kvótakerfið var sett á, sáu menn að ef ekki yrði gripið inn í þróunina mundi þessi meginatvinnuvegur þjóðarinnar og höfuðatvinnuvegur landsbyggðarinnar lenda í þvílíkum rekstrarvandræðum að til mikilla vandræða mundi horfa í öllum sjávarbyggðum landsins.

Með öðrum orðum var ákvörðunin um að taka upp aflamarkskerfið ekki bara ákvörðun um að styrkja sjávarútveginn, hún var líka ákvörðun um að gefa þeim fyrirtækjum sem voru burðarásar á landsbyggðinni tækifæri til þess að þau yrðu rekin með hagnaði. Þetta snýst allt um það að hægt sé að reka fyrirtæki með hagnaði, þau geti greitt laun, menn geti treyst því að þau geti veitt atvinnu, þau geti fjárfest og geti líka tekið þátt í almennri uppbyggingu samfélagsins með því að styrkja við íþróttir, menningu, listir og menntastarfsemi. Til þess að svo sé hægt þarf að vera hagnaður.

Enn og aftur, virðulegi forseti, við vorum að sóa öllum hagnaðinum með því að hafa opinn aðgang, allt of mörg skip og allt of margar vinnslur.

Það byggðamynstur sem hefur þróast á Íslandi, sjávarþorpin, sjávarbyggðirnar, þróaðist með þeim hætti sem raun varð á meðal annars á grunni þess að þorskveiðar á Íslandi voru á löngu árabili á bilinu 300 til 400 þús. tonn. Þessi afli sem að langmestum hluta kom að landi var unninn og það var vinnuaflsfrek starfsemi. Síðan gerðist það að vísindamenn okkar á þessu sviði áttuðu sig á því og sáu að við höfðum ofveitt þorskstofninn, því miður, og hjá því varð ekki komist að draga allverulega úr þorskveiðum. Auðvitað geta menn deilt um það hversu mikið átti að draga úr þeim, en það var alveg ljóst að það varð að gera. Þorskveiðin sem hafði verið áratugum saman einhvers staðar á bilinu 300 til 400 þús. tonn fór allt niður í 130 þús. tonn. Hún hefur reyndar verið að smámjakast aftur upp og er komin yfir 170 þús. tonn.

Þessi þróun hafði gríðarlega alvarleg áhrif á stöðu landsbyggðarinnar og einkum og sér í lagi stöðu þeirra byggðarlaga sem byggðu afkomu sína á þorskveiðum. Er ég þá meðal annars að vísa til sjávarþorpanna á Vestfjörðum. Það var ekki bara það að aflinn minnkaði, hitt var líka — og það skiptir verulegu máli í þessu samhengi — að tækninni fleygði fram og það dró úr vinnuaflsþörfinni og á sama tíma jókst það hlutfall af þorskafla sem var frystur úti á sjó. Þetta hafði þau áhrif að fiskveiðibæirnir, sérstaklega þorpin sem byggðu sitt á þorskveiðunum en líka stærri samfélögin, stærri kaupstaðir, urðu fyrir gríðarlegum búsifjum. Minni afli barst að landi og störfum fækkaði. Þetta er eitt af því sem hefur gert landsbyggðinni mjög erfitt fyrir. En jafnvel enn verri áhrif hafði þróunin á gengi íslensku krónunnar. Krónan var langtímum saman allt of sterk og endurspeglaði ekki framleiðslugetu og þá hagkvæmni sem var í íslenskum sjávarútvegi. Tapið í greininni var það mikið að alltaf var gerð krafa um að fella þyrfti gengið til þess að greinin gæti staðið undir skuldbindingum sínum. Á móti því var auðvitað staðið vegna þess að um leið og gengið var fellt hækkaði verðbólgan og verð á innfluttum vörum fór upp sem gerði það að verkum að kaupmáttur almennings lækkaði.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það er bein tenging á milli afkomu í sjávarútvegi og afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna og gengis íslensku krónunnar. Afkoman myndar pressu á íslensku krónuna. Ef afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna versnar til muna myndar það pressu á hana til lækkunar. Lækkað gengi íslensku krónunnar gerir það að verkum að lífskjör almennings skerðast.

Þannig var staðan. Á sama tíma og óhagkvæmni ríkti í sjávarútvegi og dregið var úr þorskveiðinni var gengi íslensku krónunnar haldið of sterku. Fastgengisstefnan sem hér var dró allan mátt úr fjölmörgum sjávarútvegsfyrirtækjum og kom þeim mörgum hverjum á kné. Það er því að mínu mati röng skoðun að það hafi verið kvótakerfið og aflamarkskerfið sem hafi valdið mestum skaða í hinum dreifðu byggðum við sjávarsíðuna, eins og stundum er sagt. Þvert á móti held ég að þeir þættir sem ég lýsti hér áðan hafi vegið mun þyngra.

Nú, virðulegi forseti, erum við að ræða hér frumvarp þar sem lagt er til að verulegar fjárhagslegar byrðar verði lagðar á íslenskan sjávarútveg. Vissulega skilar greinin núna betri afkomu en áður. Það er alveg hárrétt og út á það hefur allt þetta starf gengið síðustu áratugi við að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að þessi mikla auðlind skili rentu, hún skili afrakstri, hún skili hagnaði. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvernig ég tel að best sé að slíkur hagnaður, arðurinn, dreifist um samfélagið, hvernig hann nýtist samfélögum best. Staðan var sú að sjávarþorpin og -byggðirnar stóðu frammi fyrir þessum vanda og núna er þetta lagt til.

Það sem mér þykir einna verst er hvernig að þessu hefur verið staðið. Í upphafi var lagt fram frumvarp sem kom inn í þingið og hlaut eina umræðu og fór síðan til nefndar, og það var augljóst að allt reikniverkið sem lagt var til grundvallar var snargalið, fullkomlega ónýt hugmynd. Það er reyndar ótrúlegt að sá hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á því að koma hér til þings með slíkt vanbúið og stórgallað frumvarp í jafnmikilvægu máli, skuli í það minnsta ekki hafa beðið þingheim afsökunar. Það er eiginlega alveg furðulegt að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa gert það því að þegar svona nokkuð lagt er fram myndar það pólitíska óvissu. Það dregur úr trausti manna á stjórnvöldum. Sumir hafa sagt, virðulegi forseti, að þetta hafi verið einhvers konar klækindaspil, eitthvert útspil hæstv. ráðherra um að setja fram nógu brjálaðar hugmyndir til þess að hann gæti síðan búið sér til samningsstöðu og dregið í land. En svona, virðulegi forseti, vinna menn ekki, ekki þegar um er að ræða grundvallaratvinnuveg heillar þjóðar, hryggjarstykkið í allri atvinnustarfsemi úti um allt land.

Sú hugmynd, virðulegi forseti, að taka eigi gjald af þessari meginatvinnugrein landsbyggðarinnar á þeirri forsendu að þannig séu menn að styrkja landsbyggðina, að það eigi að taka allan hagnaðinn út úr þessum fyrirtækjum að stórum hluta, gera þeim erfiðara fyrir með fjárfestingar, gera þeim erfiðara fyrir að hækka laun sinna starfsmanna o.s.frv., og segja síðan að við stjórnmálamennirnir ætlum okkur í okkar óendanlegu visku að útdeila þessum fjármunum þannig að landsbyggðin verði betur stödd en áður — sú hugmynd er ekki trúverðug. Ég vona að hv. þingmenn taki það ekki til sín persónulega en ég hef ekki mikla trú á því, burt séð frá því hversu góðum kostum þeir þingmenn sem sitja á þessu þingi eru búnir eða þeir sem síðar verða kosnir, að úthlutun þessa gjalds muni leiða til þess að landsbyggðin komi betur út fyrir vikið heldur en ef af gjaldtöku yrði ekki.

Það er einu sinni þannig, virðulegi forseti, að ríkissjóður er óseðjandi hít. Allar fagrar fyrirætlanir um að síðar meir þegar menn hafi bjargað ríkissjóðnum og komið honum á réttan kjöl, muni þeir breyta eðli málsins, breyta ráðstöfun gjaldsins og þetta verði aftur látið renna til byggðanna. Það sér hver maður hversu ólíklegt það er.

En á hitt hef ég bent og ítrekað rætt hér úr þessum ræðustól, að að baki þessu öllu saman er þetta undarlega hugtak þjóðareign. Ef menn ætla sér að vera samkvæmir sjálfum sér og leggja þetta gjald á á grundvelli þess að hér sé um að ræða þjóðareign, gengur það náttúrlega ekkert upp. Það segir sig sjálft að ekki verður hægt að deila þessu gjaldi út nema jafnt til allra Íslendinga óháð búsetu þeirra af því að ef um er að ræða þjóðareign vænti ég að það sé þjóðareign í þeirri merkingu að allir Íslendingar hafi sama rétt. Ég legg reyndar þann skilning í hugtakið þjóðareign, og hef reifað það áður, að um sé að ræða ríkiseign. Þjóðareign sé orð sem búið er til til þess að fela hina raunverulegu merkingu.

Ráðstöfun þessa gjalds mun alltaf verða sú, hygg ég, að það mun bara renna óskert inn í ríkissjóð. Ég er þess vegna á móti álagningu þess. Ég er á móti því af þeim ástæðum sem ég hef lýst áður í ræðu um þetta sama mál í gær og ég er á móti því vegna þess að þetta er skattlagning sem leggst á landsbyggðina. Ég tel að miðað við þá þróun sem hefur þar verið í þessari atvinnugrein og í byggðamálum þjóðarinnar í heildina litið sé óskynsamlegt með öllu að leggja sérstakt gjald á meginatvinnuveg landsbyggðarinnar. Ég tel það mjög óskynsamlegt. Ég tel það ekki til þess fallið að styrkja byggðirnar í kringum landið.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti. Málið er ófullburða. Það er óundirbúið. Það er ónýtt. Það á ekkert erindi inn í þingsal í þessu formi. Það á að vinna þetta mál miklu betur vegna þess að þegar þessari umræðu verður lokið verða gerðar töluverðar breytingar á málinu og enginn hefur lagt (Forseti hringir.) neitt alvörumat á það hvað þær breytingar þýða. Það liggur ekkert fyrir um það. Það á ekki (Forseti hringir.) að standa að málinu þannig, virðulegi forseti.