140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé vá fyrir dyrum ef þetta frumvarp gengur fram af þeim ástæðum sem hér voru nefndar, þ.e. að geta sjávarútvegsins til að fjárfesta og til að þróa vinnslutækni sína og veiðitækni verður minni. Það þýðir að sá sjávarútvegsklasi sem hér var nefndur mun minnka, dragast saman, þar mun fækka störfum og það sem meira er — þegar minni fjármunir eru til að fjárfesta dregur það líka úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs, það dregur úr samkeppnismöguleikum okkar.

Þá verð ég aftur að nefna, virðulegi forseti, að þegar það gerist og sjávarútvegur annarra landa tekur jafnvel fram úr okkar mun það meðal annars hafa þær afleiðingar að gengi íslensku krónunnar mun veikjast. Til að geta haldið áfram að flytja út fiskinn á markaði, ef við erum ekki með bestu fáanlegu tækni í samkeppninni, mun samkeppnisstaðan á mörkuðum veikjast og það mun kalla á að gengi krónunnar veikist líka til samræmis.

Það er þetta samhengi sem mér virðist flutningsmenn frumvarpsins horfa fram hjá. Það er tekin einhvers konar stillimynd af stöðu mála og menn ímynda sér að það hafi ekki áhrif að taka alla þessa fjármuni út.

Það sem gerist t.d. hvað varðar laun sjómanna og fiskverkafólks er að þegar dregur úr tæknigetunni, þegar dregur úr framþróuninni, þegar dregur úr hagnaðinum og samkeppnishæfnin við annan sjávarútveg minnkar þá minnkar líka smám saman, ekki á einum degi, ekki á einum mánuði heldur eftir því sem tíminn líður, getan til að greiða laun. Því ef samkeppnisstaðan er orðin léleg verður hagnaðurinn minni og möguleikarnir á því að greiða launin minni. Þannig er það.

Það er þess vegna fullkominn misskilningur að halda því fram að þetta frumvarp leiði ekki til þess að laun í þessari grein lækki þegar fram líða stundir.