140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum séð í umræðum um þetta mál, bæði hér í þingsal og í fjölmiðlum, að afstaða margra stjórnarliða til málsins virðist byggð á hreinum misskilningi. Þeir virðast ekki átta sig á grundvallarhugtökum málsins. Þeir skilja til að mynda ekki hvað hugtakið framlegð þýðir, telja að framlegð sé einhver tala sem hægt sé að skattleggja nánast 100%.

Hv. þingmaður lýsti því hvernig ætlunin væri, að því er virtist, með frumvarpinu að búa til fyrirmyndarsjávarútvegsfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki eins og ríkið telur rétt að það sé, með ákveðna afskriftarþörf, ákveðna framlegð, ákveðna rekstrarafkomu o.s.frv. Öll röksemdafærsla fyrir þessu hefur verið á þann veg að í raun sé óviðeigandi að einkafyrirtæki skili hagnaði sem fáist með því að nýta þessa auðlind.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að miðað við þessar forsendur og þessa röksemdafærslu ættu stjórnarliðar, ef þeir ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér, í raun bara að tala fyrir ríkisútgerð? Ég held að slíkt fyrirkomulag væri reyndar mjög óheppilegt og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sammála mér um það.

En er hv. þingmaður sammála mér um það að allsherjarfrjálshyggja sem stjórnkerfi fiskveiða dygði ekki heldur? Er hann ekki sammála mér um það að við þurfum að hanna kerfi sem tryggi sem best heildarhagsmuni samfélagsins og þar með talið verði litið til búsetu? Eru þau gæði sem felast í því að fá að búa og starfa á þeim stað sem menn hafa alist upp á eða kjósa helst að búa á ekki verðmæti sem menn verða að taka með í reikninginn þegar menn hanna kerfi til að stýra fiskveiðum?