140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er út af fyrir sig sammála hv. þingmanni um það að ef við ætluðum að láta stjórn fiskveiða á Íslandi ráðast af arðsemissjónarmiðum einum og hunsa allt annað þá hygg ég að við mundum skapa slíka ósátt um nýtingu auðlindarinnar að um greinina yrði enginn friður, og þvert á móti mun meiri ófriður en við höfum mátt búa við. Þess vegna er það sem við höfum í þessu tilliti verið með dálítið blandað kerfi sem þó hefur fyrst og fremst verið drifið áfram af hagkvæmnisrökum, að útgerðin gæti gert út af hagkvæmni og okkur hefur gengið best allra þjóða í að laða fram hagkvæmni við útgerð á Íslandi þannig að fyrirtækin geti skilað arði sem aftur treystir byggðirnar. Ég ætla ekki að rekja allar hliðarráðstafanirnar sem við höfum innleitt í því sambandi, það má náttúrlega nefna byggðakvótann, línuívilnun, rækju- og skelbætur og krókaaflamarkskerfið og hitt og þetta, allt hugsað til þess að vera með svona blöndu.

Og svo er það hitt atriðið, hvort þetta jaðri ekki við ríkisútgerð. Jú, ég tel að þeim hugmyndum, sérstaklega eins og frumvarpið kom fyrst fram, en aðeins hefur verið dregið úr því einkenni málsins, megi líkja við það að til hafi staðið að ríkisvæða hagnaðinn í greininni og einkavæða allt tapið. Á slæmu árunum átti að skilja fyrirtækin eftir með allt tapið en þegar vel gekk átti að taka allan hagnaðinn.

Nefndin hefur að nokkru leyti komið til móts við þetta með breytingartillögu þar sem horft er yfir lengri tímabil þar sem meðaltalið ræður. En segja má að frumvarpið hafi í sinni upphaflegu mynd verið býsna nærri því að ríkisvæða útgerð við Íslandsstrendur en láta einkaframtakið um puðið.