140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skynsamlegt fiskveiðistjórnarkerfi verður að miða að því að ná fram sem mestri verðmætasköpun en líka að innihalda jákvæða hvata, þ.e. hvata sem ýta undir æskilega þætti í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja.

Hv. þingmaður nefndi að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir því sem ég held hann hafi kallað sérstaka skuldsetningarívilnun og það er alveg rétt að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu. Er hv. þingmaður sammála mér um það að í þessu felist hugsun sem hefur verið gegnumgangandi hjá ríkisstjórninni og birst meðal annars í nálgun ríkisstjórnarinnar á skuldsetningarvanda heimilanna? Þar hefur á engan hátt verið komið til móts við fólk sem setti fyrst og fremst sitt eigið fé í húsnæði, eða reyndi að byggja upp eign í fasteign sinni. Eingöngu eru komið til móts við þá sem skuldsettu sig mikið og í raun bara þá sem komnir eru í þrot.

Það er með öðrum orðum verið að gefa út þau skilaboð að eðlilegasta hegðunin, sú skynsamlegasta, á undanförnum árum hafi verið sú að taka sem mest að láni, jafnvel að endurnýja hús að öllu leyti fyrir lánsfé, þannig að skuldirnar á því færu sem mest upp fyrir verðmæti eignarinnar. Einungis er komið til móts við það fólk á meðan ekkert er gert til að verja eigið fé heimilanna. Er þetta ekki sama hugsun og birtist í þessu frumvarpi og er gegnumgangandi í stefnu ríkisstjórnarinnar? Er hv. þingmaður þá ekki sammála mér um að þetta sé mjög hættuleg nálgun, að gefa hvað eftir annað út þessi skilaboð, þessa neikvæðu hvata, segja fólki og fyrirtækjum að refsað verði fyrir ráðdeild?