140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er sammála hv. þingmanni um það að ekki á að refsa fyrir ráðdeild. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að menn lendi í þeirri sjálfheldu sem birtist í ýmsum áherslum ríkisstjórnarinnar um þetta er að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir.

Við getum tekið mörg dæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir í þessu efni á hinum ýmsu sviðum. Við gætum til dæmis sagt sem svo að við ættum að hvetja fólk til að byggja upp eigið fé til fyrstu fasteignakaupa í stað þess að lofa því fyrir fram háum vaxtabótum vegna vaxtabyrðarinnar.

Hv. þingmaður segir að misjafnlega hafi verið komið fram við þá sem lögðu eigið fé í fasteignir og þá sem skuldsettu sig, það er rétt, ég get tekið undir það. En við vitum það báðir, ég og hv. þingmaður, að það er líka býsna mikið á ríkið lagt að reyna að leiðrétta stöðu beggja eftir á. Tilhneigingin verður alltaf sú að reyna að laga stöðu þeirra sem eru í verri stöðu. Oft þykir mönnum ekki nóg að gert en við verðum líka að gæta okkar á því að ríkisvæða ekki allan vandann.

Kannski eru bestu skilaboðin oft og tíðum þau að koma ekki til bjargar, svipað og íslenska ríkisstjórnin gerði haustið 2008 þegar því var neitað að ríkisvæða skuldir bankanna og send voru út þau skýru skilaboð, nokkuð sem umheimurinn hafði fram að þeim tíma talið útilokað að ein ríkisstjórn mundi gera. En í dag undrast menn að þeir skyldu hafa fengið óvænt þetta skólabókardæmi um það hvað gerist ef ríkisstjórnin neitar því sem allir höfðu gert ráð fyrir að hún gerði. Niðurstaðan virðist almennt vera sú að það hafi verið gott fyrir fólkið í landinu.

Ég hygg að við gætum rakið hér fjölmörg fleiri dæmi, t.d. lánsveðin þar sem hugmyndin er að fella niður lánsveð. Maður spyr sig: Hvað með þá sem höfðu fengið lánað eigið fé í fasteignakaup og ekki getað endurgreitt, ekki er neitt gert fyrir þann sem (Forseti hringir.) veitti slíkt lán? Það er því misjafnlega komið fram við marga á þessu sviði af núverandi ríkisstjórn.