140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann leitast meðal annars við að draga fram þann mismun sem finna má í þeim tillögum sem stjórnarflokkarnir leggja fram um hin ýmsu mál.

Nú vitum við að Evrópusambandið hefur gjarnan sagt að Ísland geti verið fyrirmynd þegar kemur að sjávarútvegsmálum. Hins vegar er það þannig að sá stjórnmálaflokkur sem helst vill ganga í Evrópusambandið vill helst taka þetta kerfi og leggja það niður með öllum tiltækum ráðum. Ég velti því fyrir mér hvort þarna geti í besta falli verið einhver misskilningur á ferðinni eða hvort menn séu hreinlega komnir í mótsögn við sjálfa sig hvað þetta varðar.

Við höfum séð að í öllum þeim athugasemdum sem komið hafa fram, eða í það minnsta í þeim flestum, og haft eftir nefndarmönnum í atvinnuveganefnd, er sárlega kvartað yfir samráðsleysi við gerð þeirra frumvarpa sem hér um ræðir og ekki síst þess frumvarps sem við ræðum núna, um veiðigjaldið, veiðiskattinn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað af því samráði sem boðað hafði verið á þessu kjörtímabili, frá árinu 2009, hafi í hans huga gengið eftir og hvort það sé þá ekki fullkomlega óásættanlegt að fara fram með mál sem þetta sem hlaut á sínum tíma meðferð í nefnd sem reyndi að ná fram sátt í málinu, kasta því til hliðar og koma svo með mál, ekki bara einu sinni heldur í það minnsta tvisvar, í fullkominni mótstöðu við alla aðila sem helst eiga að koma að málinu.